29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3293 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að það er afskaplega undarlegur málflutningur þegar því er haldið fram að sökum kvótakerfisins hafi svo og svo mikil skerðing komið hér yfir landið. Ég veit satt best að segja ekki hvað slíkur málflutningur á að þýða, því hvað er það sem hefur gerst í okkar þjóðfélagi? Við höfum tekið á móti þeim boðskap að okkar þorskstofn sé í verulegri hættu, sá hluti okkar auðlinda í sjónum sem við byggjum að langmestu leyti okkar afkomu á. Það var sameiginleg niðurstaða þeirra sem mest eiga hagsmuna að gæta í þessu sambandi að fara bæri varlega í veiðar á árinu 1984 og takmarka afla. Niðurstaðan varð sú að binda afla við 220 þús. lestir.

Menn hafa m.a. haldið því fram að það hefði verið miklu betra að setja ekki á slíkt kerfi og berjast um þetta litla aflamagn með venjulegum hætti sem hefði þýtt að bátaflotinn hefði haft u.þ.b. 74 þús. tonn á vertíðinni til að slást um. Hefði það fært mönnum meiri tekjur, hefði það fætt sjómönnum betri kjör? Það er í þessu ljósi sem er nauðsynlegt að ræða þetta mál jafnvel þótt ég sé ekki með því að draga úr því mikla vandamáli sem bæði sjómenn og allir aðrir sem byggja afkomu sína á sjómennsku og fiskvinnslu standa frammi fyrir.

Til mín hefur verið beint tveimur spurningum, í fyrsta lagi hvort þau aflamörk verði endurskoðuð sem nú er gert ráð fyrir? Svarið við þeirri spurningu er já vegna þess að beinlínis var gert ráð fyrir því þegar ákvörðunin var tekin að slík endurskoðun færi fram í apríl. Sú endurskoðun þarf að fara fram eins fljótt og nokkur kostur er, m.a. með tilliti til vetrarvertíðar. Ég vil einnig taka fram, vegna þess að hv. þm. var að tala hér um bát sem ekki mundi hafa síldveiðileyfi í haust, að engar ákvarðanir hafa verið um það teknar. Það vill nú svo vel til að loðnuveiði er mikil og hefur fært hluta af sjómannastéttinni auknar tekjur.

Einnig er rétt að benda á það, sem ekki hefur komið nægilega fram, að gert er ráð fyrir að loðnuveiði hefjist á næsta hausti áður en haustleiðangri lýkur því að vísindamenn hafa þegar lagt til að loðnuveiði á næsta hausti verði 300 þús. tonn. Slíkur kvóti hefur verið samþykktur fyrir loðnuveiðarnar norður af landinu. Að vísu er sá galli að við erum ekki einráðir um þennan stofn og skv. samningi við Norðmenn eiga þeir um 15% hlutdeild sem gæti orðið einhversstaðar u.þ.b. 100 þús. tonn. Það að loðnuveiðin hefst nú aftur þýðir að sjálfsögðu að þau skip munu fá minna af öðrum fiski og þau 52 loðnuskip sem hafa verið hér á veiðum hafa verið aðilar að síldveiðunum. Það er engin launung að ég er þeirrar skoðunar að þau eigi að sjálfsögðu að fara út úr síldveiðunum til að gefa meira rúm fyrir báta sem ekki hafa rétt til þessara veiða. Það mundi því verða til þess að það kerfi, ef svo má kalla, að bátarnir hafi síldveiðileyfi aðeins annað hvert ár, verður að sjálfsögðu tekið til endurskoðunar nú á næstunni í framhaldi af þessu.

Þannig að þegar þessi mál eru skoðuð verða menn að sjálfsögðu að taka tillit til ýmissa slíkra þátta. Þegar litið er til þess afla sem bátaflotinn fær er oft á tíðum ekki hugleitt — vegna þess að ekki hefur enn verið úthlutað aflamagni fyrir humarveiðina — að margir þessara báta hafa einnig humar. Þannig að að líta eingöngu á þær tölur sem nú hafa komið yfir botnfiskinn gefur sem betur fer ekki alveg rétta mynd.

Hitt er svo annað mál að þetta felur í sér mikla erfiðleika fyrir sjómannastéttina og sjávarútveginn í heild sinni. Ég tek undir þau orð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að erfiðleikar í þessari atvinnugrein og í þessari stétt manna verða meiri en almennt gerist í landinu. Þeirra kjör munu mjög rýrast. Hitt er svo annað mál að ég fullyrði að ef við reynum ekki að skipuleggja þessar veiðar muni kjör þeirra rýrast enn meir. Þrátt fyrir allt er það sem skiptir meginmáli að við getum á nýjan leik byggt upp kjör þessarar stéttar á næstu árum, sem hafa ekki verið allt of góð að undanförnu þó að oft hafi verið mikið úr því gert.

Ég leyfi mér að fullyrða að það sem hefur farið verst með kjör íslenskrar sjómannastéttar er það vísitölukerfi sem hér hefur ráðið ríkjum á undanförnum árum vegna þess að afgangsstærðin í því kerfi hefur orðið útflutningsvara. Ég get tekið sem dæmi síldarverðið sem hefur farið lækkandi á erlendum mörkuðum á undanförnum árum. Fyrir mörgum árum var afkoman í þeirri grein tiltölulega góð. Síðan hefur vinnslukostnaður í landi hækkað jafnt og þétt og laun þeirra sem vinna við síldina í landi og veita henni þjónustu, einnig hækkað jafnt og þétt sem leitt hefur til þess að fiskverðið hefur orðið afgangsstærð vegna þess að markaðsverðið, erlendi markaðurinn, leyfði ekki meira.

Þetta samspil í þjóðfélaginu hefur fyrst og fremst orðið til að rýra kjör sjómanna, það leyfi ég mér að fullyrða, og engin stétt hefur farið eins illa út úr því eins og þeir. (Gripið fram í: Er það verra en þorskleysið?) Nei, hv. þm., það er ekki verra en þorskleysið því það er verst af öllu, ekki aðeins fyrir sjómenn heldur allt þjóðfélagið. En ég vil aðeins koma þessu á framfæri þótt ég viti að hv. þm. sé ekki sömu skoðunar. En það vill nú svo til að það sem við fáum fyrir vörur á erlendum markaði er undirstaða kjara okkar en ekki einhverjar reiknitölur.

Að því er varðar síðari spurninguna, hvort gerðar munu verða breytingar á innheimtu opinberra gjalda vil ég taka fram að það mál hefur verið rætt bæði milli mín og fulltrúa sjómanna og það hefur einnig verið rætt í viðkomandi ráðuneyti og er til athugunar. Ég ætla hins vegar ekki að gera neitt lítið úr því að jafnvel þótt hér sé um mikinn tekjusamdrátt að ræða er það einnig hjá öðrum og á það er bent að stundum sé erfitt að taka eina ákveðna stétt út úr að því er varðar innheimtu opinberra gjalda. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé mjög réttlætanlegt í þessu tilfelli vegna þess að sveiflur í tekjum sjómanna eru mun meiri en hjá öðrum stéttum og þeir hafa jú manna mest farið þess á leit að upp væri tekið staðgreiðslukerfi skatta sem kemur einfaldlega til af því að meiri sveiflur eru í þeirra tekjum. Þannig að það er til athugunar hvort hægt er að koma við slíkri tilhliðrun að því er varðar innheimtu opinberra gjalda hjá sjómönnum en niðurstaða liggur ekki fyrir.