06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

174. mál, lífefnaiðnaður

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég á víst ekki langan tíma eftir hérna til umr.

Ég þakka upplýsingarnar sem komu fram í máti hæstv. ráðh. Þar er kannske markverðast í fyrsta lagi að ekkert skuli hafa verið gert í málinu fram að þessu og í öðru lagi að áformað skuli vera að setja af stað vinnuhóp hjá Rannsóknaráði ríkisins í því skyni. Það er eitt sem ég hefði viljað sjá til viðbótar og það er það að reynt væri að nota smugur, ef einhverjar gefast, til að styrkja þá rannsóknaviðleitni sem þegar er fyrir í landinu með fjárframlögum af einhverjum sjóðum sem iðnrn. hefði yfir að ráða, vegna þess að sú viðleitni sem þegar er uppi höfð er markviss, er þörf og hefur 10 mánuði upp á að hlaupa á þessu ári áður en til nýrra fjárlaga kemur. Ég held að okkur muni um hvern mánuð sem líður hvað þetta efni varðar. Við höfum nóg af fólki og við höfum aðstöðu. Það er spurning um að nýta það á einhverju þarfasta sviði sem við höfum aðgang að í dag.