06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3402 í B-deild Alþingistíðinda. (2929)

207. mál, sjúklingaskrár

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt skilið, eins og fram kom í fsp. hv. 8. þm. Reykv., að ekki eru í gildi nein lagaákvæði eða reglugerðarákvæði um varðveislu upplýsinga um sjúklinga á heilbrigðisstofnunum. En sé trúnaður brotinn eru til önnur lög sem hægt er að sækja menn til saka eftir þó að ekki séu til lög eða reglugerð um þessi atriði ein og sér. Ef um gróf brot er að ræða í opinberu starfi verður slíkum ákvæðum laga vafalaust beitt gagnvart brotlegu fólki.