14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3735 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þær undirtektir sem beiðni mín fékk. Ég skildi hann svo, að hann muni beita sér fyrir því að kanna, hvort ekki megi setja í gang sérstaka könnun á neyslusamsetningu láglaunafjölskyldna í landinu. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að ég tel að hæstv. ráðh. hafi heimild til að ákveða þetta án þess að lög skipi honum svo fyrir, enda minni ég á að neyslukönnun sú sem fram fór 1978 og 1979 og þessi vísitala er byggð á fór fram án sérstakrar lagasetningar. Ráðh. hefur því allar heimildir í þessu efni.

Hv. 5. þm. Vestf. er gjarnan með málalengingar um mína afstöðu til neyslukannana og lífskjarakannana fyrr á tíð. Ég nenni satt að segja ekki að svara því einu sinni enn, en ég ætla að koma því frá mér og gera honum tilboð: að þessu frv. verði breytt og inn í það verði tekið ákvæði um að skylt sé að taka tillit til neyslukostnaðar fólks í öllum landsfjórðungum eða kjördæmum, hvernig sem menn vilja hafa það, þegar vísitalan er reiknuð út hverju sinni. Ég held að þó að ráðh. hafi að mínu mati þessa heimild þá væri skynsamlegt að Alþingi markaði þessa stefnu. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. til samkomulags að skynsamlegt og heppilegt væri að við hefðum yfirlit yfir það sem víðast. Þá er bara spurningin um það, hvort hv. þm. vill sem hluti af stjórnarliðinu hjálpa mér og hv. þm. Karvel Pálmasyni til að lögfesta þetta ákvæði, svo að þrætueplið sé úr sögunni, heyri a. m. k. fortíðinni til, og við hugsum til þess okkur til skemmtunar af og til en eyðum ekki tíma Alþingis í framtíðinni í að pexa um mál af þessu tagi. Ég geri hér með hv. þm. þetta tilboð og vona að hann taki því vel.