15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

Um þingsköp

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hygg að síðan ég snéri aftur af Norðurlandaráðsþingi hafi þessi till. þrívegis verið á dagskrá. Ég hef aldrei beðið um að henni væri frestað. Það hefur staðið þannig á fyrir frsm. í eitt skipti, flm. í annað skipti og ég var eitt sinn fjarverandi, kom því ekki við að vera eins lengi og með hefði þurft til þess að ná að vera viðstaddur umr. Ég hygg að það hafi verið í það skipti sem hv. 5. landsk. þm., 1. flm. till., kvartaði undan því í umr. um þingsköp hversu langdregið það reyndist að ná till. fyrir. Það kann þó að vera að mér skjótist eitthvað í þessu.

Það er fjarri öllu lagi að ég hafi, eins og hæstv. forseti veit, nokkru sinni orðað það með einu orði að þessi till. yrði ekki tekin fyrir, till. sem komin er til afgreiðslu úr n., að mér detti það í lifandi hug, fyrrverandi forseta, að mælast til slíkrar valdníðslu. Þetta veit ég að hv. 10. landsk. þm. dettur ekki í lifandi hug. Hún er bara hér í samkeppni við einhverja aðra svona upp á væntanleg prófkjör í framtíðinni með þetta endemis þvarg sem engu máli skiptir. Að svona lítið mál skuli verða til þess enn á ný að menn komi hér upp með hótanir, eins og hv. 7. þm. Reykv., í garð stjórnarliðsins, að það skuli nú aldeilis fá að kenna á kólfinum ef þannig eigi að taka á málum, en alveg sleppt að ræða málefnalega, taka málefnalega afstöðu til þess, það er einkennilegt ef hann heldur að menn renni langt fyrir honum einum þó hann hafi í frammi slíkar hótanir. Ég segi ekki fleira.

Ég er alveg tilbúinn til þess að mæta öllum þeim vinnubrögðum sem honum og hans kumpánum kynni að koma til hugar að beita. Eins og ég tók fram hér í gærkvöldi verð ég ekki til neinna samninga um styttingu umr. eða afgreiðslur við hv. stjórnarandstöðu ef maður á að liggja undir einhverjum sífelldum hótunum, jafnvel út af einföldustu smámálum eins og þessu, sem ég vil nefna ekki efni málsins sjálfs heldur vegna þess að ég taldi mig hafa rök fyrir því að málið yrði unnið jafnvel með minni kostnaði eins og hér er lagt til.

Mér er ekki meira kappsmál en svo um þetta mál að ef hið háa Alþingi tekur afstöðu til þess um leið að kostnaður verði greiddur af ríkissjóði er ég reiðubúinn til þess að kalla aftur tillögu mína um rökstudda dagskrá. Kynni þá svo til að bera að formaður allshn. sæi sér fært að boða þessa hv. n. til fundar og hún gerði lokaskil á eðlilegum vinnubrögðum sínum og sæi fyrir því að greiddur yrði kostnaður af tillögu sem bersýnilega hefur kostnað í för með sér.