19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3795 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallaði og fylgdist með gangi þess, en ég verð að viðurkenna að það eru ákveðnir þættir í þessu máli sem við nm. áttum erfitt með að fá yfirsýn yfir. Menn hafa nú þegar nefnt margt, bæði í eigin framsögu og svo í athugasemdum sem frá utanaðkomandi aðilum komu. Það eru athugasemdir við eignamat, söluskilmála og tryggingar sem settar eru í þessum viðskiptum. Þær snúa kannske ekki að þessu verkefni einu því að þær eru spurningar um almennar viðskiptavenjur sem verður að gera á einhvern hátt skil þegar ríkið selur sínar eignir þannig að eitt og hið sama gangi yfir alla.

Ég get aftur á móti ekki alveg tekið undir með öðrum aðilum sem gagnrýnt hafa framkomu ráðh. og ráðuneytis við bæjarfélag og önnur fyrirtæki á Siglufirði og þá á ég annars vegar við bæjarstjórn og svo hins vegar Þormóð ramma. Ég get ekki séð annað en að ef þarna hefðu farið saman eiginhagsmunir viðkomandi fyrirtækja, þ. e. annars vegar bæjarstjórnar og hins vegar Þormóðs ramma, og sameiginlegir hagsmunir í rekstri þessara tveggja fyrirtækja hefðu viðkomandi aðilar átt að hafa uppburði til þess að bera sig eftir að ná um þetta fyrirtæki ef það var þeim mikils virði. En ég get ekki komist fram hjá því hugboði að menn hafi í raun og veru ekki metið þetta fyrirtæki það mikils að þeir sæju ástæðu til að fara að keppa við aðra aðila um kaup á því og þannig sé nú þessi niðurstaða í raun og veru fengin.

Ég vildi reyndar óska þess í framtíðinni að maður hefði miklu ítarlegri upplýsingar um mat á slíkum fyrirtækjum. Ég vildi líka óska þess í framtíðinni að skilmálar við sölu slíkra fyrirtækja væru einir og hinir sömu sem gengju yfir öll fyrirtæki sem seld væru en get viðurkennt að í þessu tilviki hefur málið trúlega verið býsna flókið. Þar sem ég er ekki sérstakur meðmælandi þess að ríkið sé að halda uppi byggðastefnu með þeim hætti sem þarna hefur verið gert hingað til er ég þessu máli fylgjandi.