19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3796 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur haft þetta frv. til athugunar. Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. flytur brtt. á þskj: 443. Þessar brtt. eru einfaldar og ljósar og skýra sig sjálfar.

Þessu frv. var breytt í Nd. í samræmi við breyttar forsendur fjárlaga um 4% meðalhækkun launa á árinu 1984 í stað 6% áður, enda stefnt að því að skattbyrði tekjuskatts til ríkisins haldist óbreytt milli áranna 1983 og 1984.

Nú liggur fyrir að meðalhækkun launa verður 6.57% á yfirstandandi ári. Því er nú gert ráð fyrir 19.5% hækkun brúttótekna á mann milli áranna 1983 og 1984 í stað 16.5% skv. forsendum fjárlaga.

Í samræmi við þá stefnu ríkisstj. að skattbyrði skuli haldast óbreytt milli áranna 1983 og 1984, eins og áður segir, flytur meiri hl. nefndarinnar brtt. á þskj. 443. Þær fela í sér þá breytingu eina frá frv., eins og það var fyrst lagt fram, að afsláttur til tekjuskatts nemur nú 29 500 kr. í stað 29 350 kr. áður. Vegna meiri hækkana peningalauna milli áranna 1983 og 1984 en gert var ráð fyrir í fjárlögum og vegna þeirra brtt. sem meiri hl. fjh.og viðskn. flytur hér metur Þjóðhagsstofnun það svo, að innheimtur tekjuskattur verði um 70–75 millj. kr. meiri en áætlað er í fjárlögum. En ég vil taka fram enn og aftur að skattbyrði tekjuskatts til ríkisins helst óbreytt milli áranna. Í heild greiða menn sama hlutfall til ríkisins í tekjuskatt og þeir gerðu á s. l. ári þrátt fyrir þessar breytingar.

Í sambandi við heildarskattbyrðina er rétt að upplýsa að fyrir liggur lausleg áætlun um árlegt tekjutap ríkissjóðs vegna lækkunar eða niðurfellingar skatta 1983–1984. Þjóðhagsstofnun hefur gert þessa áætlun. Í fyrsta lagi mun lækkun tekjuskatts einstaklinga vegna sérstakrar hækkunar persónuafsláttar og barnabóta skv. brbl. frá því í maí 1983 nema 250 millj. kr. milli áranna. Lækkun innflutningsgjalds af bifreiðum nemur 50 millj. kr., afnám 10% álags á ferðamannagjaldeyri 100 millj. kr., lækkun tolla og vörugjalds af ýmsum nauðsynjavörum minnkar skattbyrðina um 70 millj. kr. og niðurfelling söluskatts af innfluttum vélum og tækjum til landbúnaðar, niðurfelling tolla og söluskatts af tölvum o. s. frv. um 80 millj. kr. Samtals nema þessar skattalækkanir 550 millj. kr. og draga um leið úr tekjuöflun ríkissjóðs milli þessara tveggja ára.

Nú liggur fyrir ný tekjuáætlun ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Skv. henni er áætlað að í beinum sköttum innheimtist 2990 millj. kr. og óbeinum sköttum 14 775 millj. kr. Samtals er þarna um að ræða 17 765 millj. kr. Það er upphæð sem nemur 27.5% af vergri þjóðarframleiðslu. Til samanburðar voru skatttekjur ríkissjóðs innheimtar árið 1981 28.8% af þjóðarframleiðslu og 1982 30.2% af þjóðarframleiðslu. Enn er því tekjuáætlun ríkissjóðs miðuð við að 2.7% minna verði tekið til þarfa ríkisins af þjóðartekjum á yfirstandandi ári en gert var árið 1982, en það er fjárhæð sem nemur 1770 millj. kr. Sá hluti þjóðartekna sem gengur til ríkissjóðs er þessum fjárhæðum minni eins og ég sagði hér áðan.

Á það er einnig að líta að á árinu 1982 varð mjög mikill halli á viðskiptum við útlönd, nam alls 6600 millj. kr. á núgildandi verðlagi. Eyðsluskuldir voru auknar að sama skapi. Skattar af slíkri eyðslu eru náttúrlega gífurlega miklir, hvort sem um er að ræða eyðslu umfram efni eða eyðslu sem hægt er að standa undir af samtíma tekjum. Þessar staðreyndir þarf að hafa í huga þegar borin er saman skattheimta ríkisins á yfirstandandi ári og því ári sem ég hef hér gert að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í útlistanir á þessu máli. Þetta frv. hefur legið alllengi fyrir Alþingi og er hv. þm. það vel kunnugt.