19.03.1984
Neðri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Vill hæstv. forseti upplýsa að ósk hverra fundinum er lokið kl. 4.? (Forseti: Það er mér sagt skv. ósk Alþfl. sem hefur staðið að þessu samkomulagi.) Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar.

Ég vil fyrst beina orðum mínum til hæstv. forsrh. Það er hluti af þessu samræmda prófi sem hv. 4. landsk. þm. hóf áðan að leggja fyrir hæstv. ráðh. Hv. 4. landsk. þm. spurði: Ábyrgist ríkisstj. lánsfjáráætlunina eins og hún hefur verið samþykkt fyrir Húsnæðisstofnunina? Þetta var spurning hv. 4. landsk. þm. Guðmundar Einarssonar. Svar hæstv. forsrh. var: Ríkisstj. ábyrgist þetta eins og fjmrh. og félmrh. sögðu. En þeir sögðu tvennt. Hæstv. félmrh. sagði: Það verður staðið við áætlunina — og hann margendurtók að staðið yrði við áætlunina. En hæstv. fjmrh. sagði í raun og veru allt annað. „Ég tryggi ekki fé nema skuldabréf seljist,“ sagði hæstv. ráðh. orðrétt. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að öll sú fjármögnun Húsnæðisstofnunar ríkisins sem byggist á skuldabréfasölu er í óvissu, þ. e. bæði 200 millj. kr. sérstaki sparnaðurinn og 525 millj. kr. lántökurnar hjá lífeyrissjóðunum og þá er ég bara að tala um Byggingarsjóð ríkisins.

Ég bið hæstv. forsrh. að bera sig saman við félmrh. og fjmrh. um það hvorum ráðh. hann er sammála. Ég óska eftir því að hann tali við þá báða í einu þannig að ekkert fari á milli mála vegna þess að hæstv. fjmrh. er ekki hér í salnum núna. Ég treysti ráðh. ekki betur en svo að ég tel nauðsynlegt að þeir beri sig saman um það sem þeir segja á hv. Alþingi.

En hérna er greinilegt að hæstv. forsrh. hefur komið sér upp framsóknarlegu fyrirkomulagi, hann vitnar í tvo ráðh. og segist vera sammála þeim, þeir segja í rauninni sitt hvað. Fyrir formann Framsfl. breytir það í rauninni engu, hann getur sennilega verið sammála þeim báðum, en þeir sögðu gersamlega sitt hvað í þessu efni. Fjmrh. vísaði því frá sér að hann bæri á þessu ábyrgð umfram það sem skuldabréfasölunni nemur en félmrh. sagði: Ríkissjóður borgar allt.

Nú er það svo, herra forseti, að hæstv. fjmrh. hefur lagt á það mjög ríka áherslu að stjórnarandstaðan greiði sem mest hún má fyrir afgreiðstu þessara mála. Hann mun einnig hafa óskað eftir því að hið sama gildi í Ed. þar sem stjórnarliðið er með uppsteyt gegn skattahækkunartillögum ríkisstj. Það er útilokað, herra forseti, að ræða um þessi mál, lánsfjáráætlun, öðru vísi en að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur. Ég óska þess vegna eftir því að kallað verði á hæstv. fjmrh. hingað inn en ég mun halda áfram ræðu minni vegna þess að ég ætlaði að varpa orði á aðra ráðh. og þó einkum hæstv. félmrh.,

Hér fóru fram ítarlegar umr. við 2. umr. um lánsfjáráætlun og lánsfjárlög. Ég bið menn að átta sig á því, m. a. hæstv. félmrh., að hér er ekki verið að afgreiða lánsfjáráætlun. Það er ríkisstj. sem hefur afgreitt lánsfjáráætlun, Alþingi er ekki að fjalla um lánsfjáráætlun út af fyrir sig heldur er Alþingi að fjalla um frv. til lánsfjárlaga sem lánsfjáráætlun byggist á. Þess vegna getur t. d. Húsnæðisstofnun þegar í stað gengið frá sínum útlánaáformum skv. lánsfjáráætlun ríkisstj. Húsnæðisstofnun þarf í raun og veru ekki að bíða neitt frekar eftir Alþingi í þessum efnum og skjóta sér á bak við Alþingi varðandi seinagang við afgreiðslu á áætlun Húsnæðisstofnunarinnar. En Húsnæðisstofnunin hefur þegar gengið frá annarri áætlun en þeirri sem við höfum fengið að sjá. Hæstv. félmrh. viðurkenndi á miðvikudaginn í síðustu viku að hann hefði leyniáætlun undir höndum. Hann endurtók það á fundinum áðan að hann væri með þessa leyniáætlun og hún verður birt allra náðarsamlegast þegar Alþingi er búið að afgreiða lánsfjárlögin en fyrr fá menn ekki að sjá þetta plagg.

Ég vil segja við hæstv. félmrh.: Ég tel þetta ekki boðleg vinnubrögð. Ríkisstj. hefur óskað eftir því að stjórnarandstaðan hafi gott samstarf við stjórnarliðið um afgreiðslu lánsfjáráætlunar á þessum sólarhring. Ég segi: Það er engin ástæða til þess að verða við þeirri beiðni hæstv. ríkisstj. ef hæstv. félmrh. er að leyna stjórnarandstöðuna lykilplöggum frá opinberum stofnunum. Þess vegna geri ég kröfu til þess hér og nú að hæstv. félmrh. sýni Alþingi niðurskurðarplaggið, leyniplaggið, sem hann var með hér í vasanum á miðvikudaginn var en skammaðist sín fyrir og vildi ekki sýna þinginu. Komi hann með niðurskurðarplaggið þannig að unnt verði að afgreiða þessi mál.

Skv. áætlun húsnæðismálastjórnar vantar 269 millj. kr. upp á áætlunina 7. febrúar. Auk þess er viðurkennt að Atvinnuleysistryggingasjóður borgi ekki neitt og þar koma þá 115 millj. kr. til viðbótar. Svo er gert ráð fyrir því að skyldusparnaður skili ekki 45 millj. heldur þurfi að borga með honum 30 millj. króna, þar skakki 75 millj. kr.

Hæstv. félmrh. sagði áðan að hugmyndir um breytingar á skyldusparnaði væru þannig útbúnar að þær myndu tryggja stóraukið fé á þessu ári, jafnvel meira en þarna er gert ráð fyrir. Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvaða greinar — númer óskast tiltekin — í stjórnarfrv. um húsnæðismál mundu í verki tryggja betri skil skyldusparnaðar en hér er um að ræða? Í öðru lagi spyr ég hann: Af hverju gekk hann ekki inn á það, sem stjórnarandstaðan bauðst til fyrir áramótin, að afgreiða þennan kafla húsnæðismálalaganna til þess að þessi þáttur yrði þá tryggður?

Fyrir utan þann vanda sem hér er rakinn er bersýnilegt að mjög erfitt verður að ná af lífeyrissjóðunum nema um 400 millj. kr. í Byggingarsjóð ríkisins og auk þess er 200 millj. kr. sérstök fjáröflun óviss. Hér er þess vegna um að ræða vanda upp á mörg hundruð millj. króna. Nú skora ég á hæstv. félmrh. að fara að fordæmi hæstv. fjmrh., viðurkenna gatið, koma til stjórnarandstöðunnar, þingsins og þjóðarinnar og segja: Ég ætla að stoppa upp í þetta gat en það lýtur svona út núna. Ég skora á hæstv. félmrh. að gera þetta frekar en að stinga höfðinu í sandinn eins og mér sýnist að hann ætli því miður að gera.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. félmrh. að því hvernig hann ætlar að skera niður áætlun húsnæðismálastjórnar um 269 millj. kr. því að það er þó tala sem hann viðurkennir, þ. e. frá áætlun húsnæðismálastjórnar 7.2. og til lánsfjáráætlunar. Hvaða lánaflokkar eru það sem á að skera niður? Eru það lán til dagvistarstofnana? Eru það lán til elliheimila? Eru það lán til orkusparnaðarbreytinga á íbúðarhúsnæði? Eru það lán til öryrkja með sérþarfir? Eru það G-lán, eru það F-lán? Hvaða lán eru það sem hæstv. ráðh. ætlar að láta skera niður? Ég geri kröfu til þess að hann svari þessari spurningu því hann hefur þegar mótaðar hugmyndir um það hvernig það á að gerast. Það hlýtur að vera vegna þess að hann hefur haft þessa lánsfjáráætlun fyrir framan sig í marga mánuði, og hlýtur að hafa gert sér grein fyrir þessum hlutum. Hæstv. félmrh. er kannske að hugsa um að fækka útborguðum lánshlutum í ár, er hann að því?

Í athugasemdum með áætlun Byggingarsjóðs ríkisins 7. febrúar 1984 segir:

„Nýbyggingar, frumlán vegna 925 íbúða, 17% fækkun frá 1983. Þeir sem ekki hafa átt íbúð fá lánin í tveimur hlutum, fyrri hlutann mánuði eftir að íbúðin varð fokheld og seinni, hlutann sex mánuðum síðar.“ — Svo kemur setningin, takið eftir: „Aðrir fá miðað við óbreytt fyrirkomulag.“

Verður staðið við þessa setningu, já eða nei? Ég óska eftir að hæstv. félmrh. svari þeirri spurningu skýrt hér á eftir. Vegna þess að Húsnæðisstofnunin er þegar búin að éta þetta ofan í sig fyrir hönd hæstv. félmrh., eða hvað? Í bréfi hennar til Kjartans Jóhannssonar dagsett 5. mars s. l. segir orðrétt:

„Ljóst er að einhverjar frestanir á lánaveitingum verða að eiga sér stað til ársins 1985.“

Hérna stendur fullum fetum í plaggi sem er prentað í nál. minni hl. að fresta eigi lánshluta til ársins 1985 en hæstv. félmrh. neitar þessu á Alþingi á miðvikudaginn var og fullyrðir að engu eigi að fresta af lánshlutum Húsnæðisstofnunar. Þessu verður hann að svara alveg skýrt.

En Húsnæðisstofnunin segir líka um þessa frestun: „Það mætti hugsa sér að fresta fyrsta hluta lána til þeirra sem gera fokhelt frá.l. júlí og ekki eiga íbúð fyrir. Skv. hefðum og venjum ættu þeir að fá fyrsta hlutann til greiðslu í nóv.-des. n. k.“

Getur þetta fólk gert sér vonir um að fá fyrsta hlutann greiddan í nóv.-des. n. k.? Ég er að spyrja um þetta vegna þess að ef svar félmrh. er já mun ég gera ráðstafanir til þess að þjóðin fái að vita af því þannig að húsbyggjendur viti hvaða loforð ráðamenn þessara mála hafa gefið, enda getur hér verið um að ræða úrslitaatriði í fjárhag þessa fólks.

Síðan segir í plaggi Húsnæðisstofnunarinnar vegna þess að þar er gert ráð fyrir að fresta þessum lánshluta frá í nóv.-des. yfir á árið 1985:

„Ef þessari lánveitingu yrði frestað myndi sjóðurinn afgreiða fyrri hluta 1. hluta vegna 700–800 íbúða á árinu 1984 miðað við áætlun frá 7. febr. s. l.“ — sem var um 925 íbúðir. Síðan segir hér: „Einnig mætti fresta lánveitingum til þeirra sem leggja inn umsóknir til kaupa á eldra húsnæði frá 1. apríl til júníloka n. k. Þá mundi sjóðurinn afgreiða G-lán vegna 1850–1900 íbúða á árinu 1984 miðað við áætlun 7. febr. s. l.

Í þessu plaggi frá Húsnæðisstofnun er sem sagt verið að segja í fyrsta lagi: Dregið verður að borga því fólki sem er að byggja á fyrri hluta þessa árs. — Og í öðru lagi: Dregið verður að borga því fólki sem er að kaupa íbúð á þessu ári. Félmrh. verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni, það hefur honum ekki tekist ennþá. Þessari umr. má ekki ljúka án þess að það sé alveg skýrt hvað hér er verið að tala um.

Ef hins vegar verður farið eftir þeirri niðurskurðarstefnu, sem félmrh. er að pukrast með í leyniáætluninni frá því 22. febr., er verið að skera niður íbúðarbyggingar um 25% frá árinu 1983 þannig að ávinningur af lánshækkuninni um 50%, sem félmrh. er að hrósa sér af, er allur þotinn út í veður og vind af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir svo mikilli kjaraskerðingu að miklu færri einstaklingar geta nú byggt eða keypt íbúðir en áður hefur verið. Það er meginástæðan að fólk getur ekki byggt. En í öðru lagi vegna þess að ætlunin er að fresta útborgunum þannig að með þessari afstöðu sinni er ríkisstj. að gera að engu þá djörfu og skynsamlegu ákvörðun að hækka lánin um 50%.

Hæstv. félmrh. hefur einnig greint frá því að hann ætli ekki bara að skera niður Byggingarsjóð ríkisins. Þá kem ég að athugasemd nr. 2 í mínu máli, en þetta var athugasemd nr. 1 sem ég var með núna. Athugasemd nr. 2 er varðandi Byggingarsjóð verkamanna. Hann á að greiða á þessu ári skv. áætlun í nýbyggingar 405.6 millj., reyndar var búið að lækka þá tölu aðeins í seinni plöggum. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að hann eigi að borga þetta.

Nú er áætlun ríkisstj. að framkvæmdum verði frestað við verkamannabústaði. Búið er að fara þess á leit við verkamannabústaðina í Kópavogi og verkamannabústaðina í Reykjavík að framkvæmdum verði frestað. Þessu háttar þannig til í Reykjavík að íbúðir eru í byggingu á þremur svæðum, á Eiðsgranda er verið að ljúka við allmargar íbúðir, í Ártúnsholti eru hafnar framkvæmdir við 10 grunna, auk þess sem gerðir hafa verið samningar við verktaka um verulegar framkvæmdir á Ártúnsholtssvæðinu, og í þriðja lagi er um að ræða íbúðir í Neðstaleiti, 31 íbúð.

Stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík auglýsti þessar íbúðir til sölu. Hún birti auglýsingu í blöðunum um að á árinu 1984 yrðu til úthlutunar 200 íbúðir í Reykjavík, 100 í nýbyggðum verkamannabústöðum, þ. e. 70 í Ártúnsholti, 31 í Neðstaleiti og 100 í endursöluíbúðum eða alls 200 íbúðir í Reykjavík. Stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík situr þessa dagana á fundum við að úthluta þessum íbúðum og 900 umsækjendur bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar. Sömu dagana tilkynnir ríkisstj. stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík að skera eigi niður fjármagn til verkamannabústaðanna um 1/4 og greinilegt er að allur þessi niðurskurður í Reykjavík kæmi niður á framkvæmdum í Ártúnsholti og í Neðstaleiti vegna þess að gerðir hafa verið bindandi samningar varðandi framkvæmdir á Eiðsgranda sem taka þá fjármuni sem þar hefur verið samið um og yrðu að hafa algjöran forgang.

Skv. áætlun verkamannabústaðanna í Reykjavík var gert ráð fyrir eftirfarandi upphæðum til bygginga á þessu ári frá ríkinu: 1. Eiðsgrandi 50.6 millj. kr. 2. Ártúnsholt 72.1 millj. kr. 3. Neðstaleiti 24 millj. kr. Eða samtals í Reykjavík 146.7 millj. kr. sem er langt til helmingurinn af framkvæmdafé verkamannabústaðanna á þessu ári.

Nú hefur verið farið fram á að þessi tala verði skorin niður úr 147 millj. kr. niður í 102 millj. kr. Af þessum 102 millj. kr. mundi fara 51 millj. til að ljúka Eiðsgrandaframkvæmdinni. Þá eru eftir 50 millj. kr. til þess að vinna að verkefnum sem kosta 96 millj. kr. og þá er eftir að svíkja það fólk sem nú er verið að úthluta íbúðum til af stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík. Ég óska eftir því að félmrh. hugleiði það eitt augnablik hvort auðveldara verður fyrir lífeyrissjóðina að kaupa skuldabréf af þeirri ríkisstj. sem er búin að svíkja fyrirheitin um félagslegar íbúðabyggingar sem skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna voru tengd með órjúfanlegum hætti.

Ég er sannfærður um að þessi svik á markmiðunum um félagslegar íbúðarbyggingar munu draga verulega úr áhuga ýmissa lífeyrissjóða á því að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins og Framkvæmdasjóði á þessu ári. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er það ætlun ríkisstj. að ganga svona nærri verkamannabústaðakerfinu eins og hér er verið að tala um? Er samstaða um það innan ríkisstjórnarflokkanna að gera svo? Um það spyr ég vegna þess að á bak við ályktun stjórnar verkamannabústaðanna í Reykjavík eru atkvæði allra stjórnarmanna þar og þeir eru úr fimm stjórnmálaflokkum.

Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. félmrh. geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni vegna þess að með slíkri árás á verkamannabústaðakerfið væri verið að skemma það mjög verulega og ég óttast að sá skaði verði ekki bættur nema á mjög löngum tíma.

Það er til lítils að bæta húsnæðislánakerfið í landinu með því að taka fjármuni af þeim sem helst þurfa á stuðningi að halda, en það er það sem núv. ríkisstj. er að gera. Hún er að hopa með þau félagslegu markmið sem voru sett á síðasta kjörtímabili um eflingu verkamannabústaðakerfisins og notar að sínu leyti fjármuni úr verkamannabústaðakerfinu til þess að hækka lánin á öðrum vettvangi þar sem hún hefur í raun og veru einnig eyðilagt sín handaverk með kjaraskerðingu og stórkostlegri óvissu um allt húsnæðislánakerfið.

Forustumenn Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gengu nýlega á fund félmrh. og gerðu honum grein fyrir áhyggjum sínum vegna niðurskurðar á félagslega íbúðabyggingakerfinu. Stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík hefur skrifað félmrh. bréf út af þessu máli. Ég spyr hann sem sé: Er ætlun hans að halda fast við þessi niðurskurðaráform? Ég minni hæstv. félmrh. á að sveitarfélögin hafa þegar gert ráð fyrir útgjöldum vegna verkamannabústaðanna á sínum fjárhagsáætlunum. Reykjavíkurborg hefur þegar gert ráð fyrir að þessar framkvæmdir í Reykjavík, sem ég nefndi áðan upp á u. þ. b. 146 millj. kr. í verkamannabústöðum á þessu ári, haldi áfram í ár þannig að það er inni í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Þess vegna væri líka mun óeðlilegra að ganga fram eins og ríkisstj. hugsar sér að gera.

Nú hef ég lokið, herra forseti, að fara yfir nokkur atriði varðandi húsnæðislánakerfið. Ég á eftir fjögur atriði sem mig langaði til þess að ræða við hæstv. fjmrh. og bið um að hann verði kvaddur á vettvang. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort við gætum ekki sæst á að fresta nú fundinum vegna þess að það eru aðeins 5 mínútur eftir af fundartímanum. Við byrjum svo aftur kl.17:00 og þá vona ég að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur og ég skal reyna að tryggja það.) Já, ég fellst á það, herra forseti. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Í fyrri hluta ræðu minnar í dag ræddi ég nokkuð um stöðuna hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég lagði fyrir félmrh. fáeinar spurningar og bað hann m. a. um að greina frá þeirri leyniáætlun sem hann kvaðst hafa undir höndum en hefði ekki viljað sýna þinginu fyrr en eftir að búið væri að samþykkja lánsfjárlögin. Það þótti mér fullseint svo að ég skoraði á hæstv. ráðh. að gera þinginu þegar í stað grein fyrir þessari leyniáætlun úr því að hún er til á annað borð. Nú vill svo illa til að hæstv. ráðh. er ekki kominn í salinn né heldur hæstv. fjmrh., sem einnig er rétt að varpa á orði í sambandi við þessa áætlun (Forseti: Ég vil taka það fram að ég átti tal við hæstv. fjmrh. og hann hét mér því að vera hér viðstaddur þegar fundur hæfist kl. 5.) Já, hann hlýtur þá að vera væntanlegur á hverri stundu. En ég vil gjarnan upplýsa, og því má skila til hæstv. félmrh., að mér hefur borist bréf frá Húsnæðisstofnun ríkisins, dags. 19. mars 1984, þ. e. í dag, undirritað af einum af deildarstjórum stofnunarinnar, þar sem gerð er grein fyrir þessari leyniáætlun. Ég ætlaði að lesa hana upp fyrir félmrh. og athuga hvort við værum örugglega ekki með sama plaggið, gætum borið okkur saman. Er hæstv. félmrh. væntanlegur? (Forseti: Því getur forseti ekki svarað, en ég skal gera gangskör að því að hann verði hér viðstaddur.)

Já, herra forseti. Ég held þá áfram máli mínu þar sem hæstv. fjmrh. er kominn í salinn. Hæstv. fjmrh. greindi frá því í ræðu sinni í dag m. a. að ríkisstj. mundi ekki stuðla að neins konar skattahækkunum. Það var í tilefni af fsp. frá hv. 7. þm. Reykv. Þá sagði hæstv. fjmrh. að það væri stefna ríkisstj. að skattbyrði aukist ekki milli ára. Og við það stöndum við, sagði hæstv. fjmrh.

Nú vill svo til að í þessum töluðum orðum fjmrh. var haldinn fundur í Ed. Alþingis. Þar var í ræðustól hv. 9. þm. Reykv., Ólafur Jóhannesson, sem komst þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil taka það fram að eins og sakir standa nú er ég andvígur öllum hækkunum, öllum tillögum um hækkun á skattaprósentunni og mun þar af leiðandi greiða atkvæði gegn þessum brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur flutt á,þskj. 443.“

Hér hefur hv. þm. Ólafur Jóhannesson tekið undir viðhorf stjórnarandstöðunnar í þessu efni, að ríkisstj. er í raun og veru með þessum till. sínum í Ed. að hækka skatta og auka skattbyrði frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. Og hv. þm. Ólafur Jóhannesson lætur ekki hér við sitja að gagnrýna ríkisstj. fyrir þessa skattahækkun, sem er óvefengjanleg, heldur segir hann: Það eru óviðfelldnar röksemdir sem ríkisstj. flytur í þessu máli. Hverjar eru röksemdirnar? Að ríkisstj. þurfi að taka aftur kjarasamningana, sem gerðir voru 21. febr. s. l., a. m. k. að hluta til. Hv. þm. Ólafur Jóhannesson hefur þannig látið ríkisstj. heyra þau sjónarmið sem heyrast alls staðar í þjóðfélaginu núna, að rökstuðningurinn af hálfu hæstv. fjmrh., skattahækkunarráðherra núv. ríkisstj., sé í hæsta máta óviðfelldinn. Að það sé verið að rífa niður þá kjarasamninga sem nýlega voru gerðir.

Ég held að þetta sé alveg óyggjandi sönnun um það að hæstv. fjmrh. hefur ekki staðið við þau orð sem hann sagði hér í ræðustólnum kl.3 í dag: Skattbyrði aukist ekki milli ára. Og við það stöndum við. Þetta hefur ekki gengið eftir. Það liggur alveg óvefengjanlega fyrir.

En það er fleira, hæstv. fjmrh., í ræðunni sem flutt var hér áðan sem ég vildi gera aths. við. Næst það að bent er á að ríkisstj. ætli sér að skera niður rekstrarkostnað um 5% og launaútgjöld hjá ríkinu um 2.5% á þessu ári eða samtals um 204–300 millj. kr. Ég kallaði hér fram í hjá hæstv. ráðh. og spurði: Hversu mikill er sparnaðurinn orðinn, hvað hefur þegar verið gert í þessu máli? Og hæstv. fjmrh. skildi þetta svo að það mætti ekki spyrja um málið fyrr en árið væri allt. Það sem ég var að spyrja um er einfaldlega þetta: Hvaða ákvörðun um sparnað hefur verið tekin hér og nú? Hvaða ákvörðun um sparnað hefur verið tekin hér og nú, hæstv. ráðh.? Ég endurtek þá spurningu. Og vegna þess að eftir því sem lengri hluti líður af árinu, eftir því verður að ná fram meiri niðurskurði til þess að jafna fjárlögin frá því sem gert hafði verið ráð fyrir, er spurningin þessi: Hvað hefur verið gert þegar í stað til þess að tryggja þann sparnað á rekstri og launaútgjöldum ríkissjóðs sem fjárlögin gera ráð fyrir?

Þau mál sem hér hafa verið rædd eru auðvitað mjög þýðingarmikil í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina. En ég ætla ekki að fara út í þau frekar, heldur aðeins að víkja að lánsfjáráætluninni sjálfri umfram það sem ég hef þegar gert og snertir sérstaklega húsnæðismálin. Ég var búinn að rekja nokkuð aths. mínar í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Ég kem þá næst að erlendum lántökum.

Erlendar lántökur koma fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á bls. 25. Nú vildi ég biðja hæstv. fjmrh. og embættismenn hans að fara með mér í gegnum þá töflu um peningamál, erlend lán og greiðslujöfnuð sem er á bls. 25 í lánsfjáráætluninni.

Þar er gert ráð fyrir því að löng erlend lán í lok þessa árs verði 37.5 millj. kr. Stutt vörukaupalán verði 4.6 milljarðar kr. (Gripið fram í: Það þýðir ekkert að vera að þessu, fyrst fjmrh. er farinn.) Magnús Pétursson heyrir. Ætlar hæstv. fjmrh. að vera lengi í burtu? (Forseti: Forseta er ókunnugt um það. Ég hugsa að hann hafi aðeins vikið sér frá. En ég vil ítreka það að ég átti tal um það við hæstv. ráðh. að þess væri óskað að hann yrði við þessar umræður hér kl. 5 og hann hét mér því fyrir u. þ. b. klukkutíma.) Mér er ómögulegt, herra forseti, að halda þessum umr. áfram nema hæstv. fjmrh. sé hér. (Forseti: Ég hef verið upplýstur um það að hæstv. ráðh. sé að gegna þingskyldum sínum í Ed. Hann er þar við atkvgr. svo ég vona að þetta verði ekki langur tími.) Það ku vera knappt á dalnum hjá stjórnarliðinu í Ed. Stjórnarandstaðan skilur það að hæstv. ráðh. þurfi þangað í atkvgr. núna.

Ég ætla aðeins, meðan hæstv. fjmrh. víkur sér frá, að benda á einn þátt í lánsfjáráætluninni sem er nauðsynlegt að skoða sérstaklega. Það er þróun peningamála og útlánaaukning bankanna. Það er gert ráð fyrir því í lánsfjáráætlun ríkisstj. að útlánaaukning bankanna á þessu ári verði 1605 millj. kr., 1605 millj. kr. á öllu árinu eða 11.9% aukning. Það væri fróðlegt fyrir hæstv. viðskrh. að líta á þessar tölur, að öll útlánaaukning bankanna á þessu ári átti að vera 1605 millj. kr., því að í janúar einum var búið að lána út af þessari tölu, hæstv. viðskrh., 728 millj. kr. Viðskrh. ætlaði að láta bankana lána út 1605 millj. kr. en í janúar var hann búinn með 728 millj. kr. Það eru því fleiri en ríkissjóður sem eru með gat og fleira en lánsfjáráætlun sem er eins og gatasigti í stefnu þessarar ríkisstj. Í peningamálum stendur heldur ekki steinn yfir steini. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hér og nú: Hvaða ráðstafanir hefur hann gert til þess að tryggja það að útlánaþróun bankanna fari ekki á þessu ári langt fram úr þeim mörkum sem ríkisstj. hefur sett? Aðeins í janúarmánuði lánuðu bankarnir út 45% af allri aukningunni sem átti að vera á árinu, og svarið er hvað? (Viðskrh.: Það hefur þegar verið samið við þá banka sem hafa lánað umfram það sem áætlað var og sektarfé sem geti verið innan þess ramma sem ætlað er.) Það þýðir það, hæstv. viðskrh., ef þú vildir halda áfram að ræða þetta við mig, að það er meiningin að bankarnir auki sín útlán á ellefu mánuðum ársins, takið eftir því, á ellefu mánuðum ársins um 800 millj. kr. Þýðir það það? Á öll útlánaaukning bankakerfisins á tímabilinu febr. til 31. des. 1984 þá að vera 800 millj. kr.? Það hlýtur að vera svo. Hæstv. viðskrh. vefst að vísu tunga um höfuð í þetta skipti, svo ég noti þau orð sem hæstv. iðnrh. hefur fyrir okkur stundum.

Hér hef ég komið á framfæri einu atriði í sambandi við peningamálastefnu ríkisstj., efnahagsmálastefnu hennar, sem er í algerri óvissu og ólagi og ríkisstj. veit í raun og veru ekki hvernig hún ætlar að leysa. Síðan kem ég að öðru atriði af því að hæstv. fjmrh. er nú kominn á ný. Og það er þetta: Í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir því að löng erlend lán verði í lok þessa árs 37.5 milljarðar kr. og að stutt vörukaupalán verði 4.6 milljarðar kr. Upp í þetta fáist síðan útflutningsbirgðir upp á 2.5 milljarða og gjaldeyrisstaða upp á 3 milljarða sem batni á þessu ári um 500 millj. kr. Hún á að batna á þessu ári um 500 millj. kr. þannig að nettóstaðan við útlönd í lok þessa árs verði 36.6 milljarðar, neikvæð um 36.6 milljarða kr., sem þýðir 58.5% af vergri þjóðarframleiðslu. En nú hefur verið upplýst að þessi tala sé hærri, m. a. vegna þess að hin verga þjóðarframleiðsla er minni en þarna er gert ráð fyrir, þannig að raunverulega er hér um að ræða tölu upp á 59.2% eða svo.

En auk þessa stefnir ríkisstj. og hæstv. fjmrh. í miklu meiri erlendar lántökur. Og nú bið ég hann, hæstv. ráðh., að skrifa niður og spyr hann: Eru þetta tölur sem eru fjarri lagi?

Í fyrsta lagi hefur verið rætt um það að útgerðin þurfi 400–500 millj. kr. til að breyta stofnlánum sínum og 300–450 millj. kr. í rekstrarlán.

Í öðru lagi hefur hæstv. iðnrh. lofað erlendum lánum í skipaviðgerðir, sem ekki eru í þessum plöggum hér, upp á 150 millj. kr.

Í þriðja lagi er talað um að bændur eigi að fá breytingu á sínum lausaskuldum. Þar er talað um nokkuð óvissa upphæð, en við skulum segja að hún sé á bilinu 100–150 millj. kr., og það hefur komið fram í landbn. Nd. að bankastjóri Búnaðarbankans telur að þetta fé verði ekki lánað nema sem erlent fé, endurlánað erlent fé.

Í fjórða lagi liggur það fyrir að ríkisstj. vill ábyrgjast erlent lán fyrir Arnarflug, verulega upphæð. Frv. um það mál liggur fyrir þinginu. Verður fróðlegt að hafa umr. um það fyrirtæki hér. Hún verður örugglega mjög ítarleg.

Í fimmta lagi liggur það núna fyrir að hallinn á ríkissjóði verður ekki 400 millj. heldur 2000 millj. eins og þetta lítur út núna. Það er auðvitað verið að tala um að minnka hann, en 2000 millj. að öllu óbreyttu.

Í sjötta lagi hefur hæstv. fjmrh. sjálfur lýst því yfir og ríkisstj. að innlend lánsfjáröflun verði 300–400 millj. kr. minni á þessu ári en gert er ráð fyrir í lánsfjáráætluninni. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. af þessu tilefni: Hvaða framkvæmdir eru það sem á að skera niður í lánsfjáráætluninni um 300–400 millj. kr.? Eða ef það er ekki ætlunin, þá er fjmrh. að segja með því að það eigi að auka við erlendar lántökur sem þessu nemur. Ég vil einnig benda honum á að auðvitað er hallinn á ríkissjóði bein ávísun á auknar erlendar lántökur vegna þess að halli á ríkissjóði gengur á gjaldeyrisforðann og á móti slíkum halla er dregið á yfirdráttarréttindi okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þær tölur sem ég nefndi hérna, sex tölur upp á 2–3 milljarða kr., er ekki hægt að leggja saman og segja: Erlendar skuldir aukast sem þessu nemur. En ég fullyrði að ríkisstj. ætlar sér þegar að bæta við a. m. k. 1.5 milljarði kr. í erlendar lántökur og versnandi gjaldeyrisstöðu skv. þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Það er sem sagt búið að sjá það fyrir að erlendar lántökur ríkisstj. aukast um 1–1.5 milljarð. Það eru alveg óyggjandi tölur fyrirliggjandi í þessum efnum. Og hvað þýðir það? Fyrir hverjar 600 millj. kr. sem erlendar skuldir aukast um þá hækkar hin heilaga prósenta um einn. 600 millj. kr. til viðbótar þýða 60.2%. Og 600 millj. þar til viðbótar þýða 61.2%. Þannig að aukist hinar erlendu skuldir um 1.2 milljarða kr. þá fer þetta hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu upp í 61–62%. Það er óvefengjanlegt. Ég skora á hæstv. fjmrh. að afsanna það að þær tölur séu réttar sem ég fer hér með. Ég skora á hann að gera grein fyrir því, lið fyrir lið, hvað það er sem er rangt í þeirri talnafærslu sem ég hef hér rakið.

Ég spái því þess vegna, eins og staðan er núna, að nettóstaða þjóðarbúsins við útlönd, sem er auðvitað það sem máli skiptir, það er 5. dálkur í töflunni á bls. 25 í lánsfjáráætluninni, ég spái því að þessi tala, sem er þarna 36.6 milljarðar, verði miklum mun hærri þegar árið er á enda runnið. Ég rökstyð það með því að gjaldeyrisstaðan, sem á árinu öllu átti að batna um 500 millj., hefur versnað frá áramótum, á tveimur mánuðum um 1.3 milljarða kr., sem þýðir að þessi tala, nettóstaðan við útlönd, er af þessari ástæðu einni orðin 800 millj. kr. hærri nú þegar en er í þessu plaggi. Það er mismunurinn á þeirri áætlun sem hér er upp á 500 millj. og reyndinni sem er 1300 millj. kr. verri gjaldeyrisstaða frá áramótum en var þá.

Þessi tafla á bls. 25 stenst ekki. Og það verður gengið eftir því að menn geri hana upp í lok ársins 1984, þannig að það komi ótvírætt fram hvað hér hefur í raun og veru gerst. Því að þessi tafla, eins og hún er hér nú, mun ekki standast próf veruleikans. Og mér sýnist reyndar að hæstv. ríkisstj. ætlist ekki til þess að þessar tölur standist próf veruleikans. Mér sýnist að ríkisstj. ætlist ekki til þess að það sé í raun og veru tekið mark á henni í þessu efni, og að hún ætli sér í þessu eins og í sambandi við fjárlögin að hlaupa út með málið eftir nokkra mánuði og segja: Við sáum þetta ekki fyrir, það er gat, þetta er einhverjum öðrum að kenna en okkur. Og berja sér á brjóst og segja: Sjá, hvað við erum hér heilagir, við komum til ykkar með vandann. Og þið eigið að þakka okkur fyrir það. Þó að sama ríkisstj. hafi lýst því yfir að hún hafi verið kosin í landinu til þess að leysa þennan vanda. Ég tel þess vegna í sambandi við erlendar lántökur að þar standi ekki steinn yfir steini.

Fjórði þátturinn sem ég ætlaði að gera að umtalsefni var í sambandi við peningamálaáætlun ríkisstj. Ég rakti það fyrir hæstv. viðskrh. áðan að það er gert ráð fyrir því að aukning útlána á árinu nemi um 1600 millj. og það eru þegar í janúar farnar út 700 millj. af þessari upphæð. M. a. s. hæstv. forsrh. hefur gefið út yfirlýsingu um að hann telji ástæðu til að hafa áhyggjur af þessari þróun í peningamálum. En hæstv. viðskrh. var að enda við að lýsa því hér yfir, þannig að það sé á hreinu, að útlánaaukning bankanna á ellefu mánuðum eigi að vera 800 millj. kr. Og það skal verða gengið eftir því að hann sjái til þess að það verði framkvæmt. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann ætlar að framkvæma það, því að ég er sannfærður um að hann getur það ekki. Hann getur ekki framkvæmt þetta, það er óframkvæmanlegt við þessa stöðu.

Þetta sýnir í rauninni betur en allt annað að allt talið um það að ríkisstj. hafi leyst efnahagsvandann er tóm vitleysa og blekking. Hún hefur ekki leyst neinn efnahagsvanda. Hún hefur breytt hinum mikla verðbólguvanda þjóðfélagsins í vanda alþýðuheimilanna í landinu. Allt annað er hér í uppnámi.

Hæstv. ríkisstj. segir: Við ætlum að ná auknu fé með innlendri lánsfjáröflun. Og þá kem ég að fimmta atriðinu sem ég ætlaði hér að nefna. Þegar lánsfjárlagafrv. kom inn í þingið var gert ráð fyrir því að afla heimilda til innlendrar lánsfjáröflunar upp á 478 millj. kr. á almennum markaði. Ég er hér ekki að tala um lífeyrissjóðina. Nokkrum vikum síðar fékk ríkisstj. vitrun, þetta væri eiginlega of lág tala, það væri nauðsynlegt að hækka þessa tölu. Og áður en varði var komin brtt. inn í lánsfjárlagafrv. í Ed. og þar með fór þessi tala upp í 600 millj. kr. Og þetta var bara tala, það var ekkert annað á bak við það, en ríkisstj. fylltist bjartsýni á að hægt væri að auka innlendan sparnað í þessu efni upp á 122 millj. kr. Í þessu bjartsýniskasti í Ed. færði hún töluna í 1. gr. lánsfjárlagafrv. upp í 600 millj. kr.

En svo fóru menn að horfa framan í veruleikann og menn fóru að skyggna hið mikla gat og mæla það á alla vegu. Og sjá, þá kemur þriðja yfirlýsing fjmrh. í sambandi við innlendan sparnað. Hún gengur út á það að innlend lánsfjáröflun verði ekki 800 millj. heldur lækki um 300–400 millj. þaðan í frá. Þannig er talan sem upphaflega var 478 millj. og seinna 600 millj. nú orðin allt, allt önnur. Þetta ber auðvitað vott um yfirgengilegan hringlandahátt. Ég fullyrði að mennirnir vita ekkert hvað þeir eru að gera. Þeir sulla þarna inn einhverjum tölum rétt til þess að draga úr einhverjum pólitískum óþægindum sem þeir verða fyrir á vissum stað og stund, en þeir hafa ekki hugmynd um það hvað kemur út úr þessum hlutum. Þeir vita ekkert um það, enda hafa engin rök komið fram í þessu efni.

En í tilefni af þessu, að ríkisstj. er sjálf búin að segja að þetta eigi að lækka um 300–400 millj. kr., þá spyr ég fjmrh. aftur: Hvaða framkvæmdir í lánsfjáráætluninni á að skera niður fyrir þessar 300–400 millj. kr.? Hvaða framkvæmdir eru það? Ég óska eftir að gefnar verði um það upplýsingar áður en málið fer héðan úr deildinni. Ég vil fá að vita hvaða framkvæmdir það eru. Ef ekki er ætlunin að skera niður neinar framkvæmdir, þá er ætlunin að taka erlend lán, og ef ekki er ætlunin að taka erlend lán þá á að stunda seðlaprentun í Seðlabankanum með ávísun á gjaldeyrisforðann sem minnkar nú dag frá degi.

Þetta var fimmta atriðið, virðulegi forseti, sem ég vildi nefna í sambandi við þessa lánsfjáráætlun. Í sjötta lagi vildi ég koma að því sem ég hef kallað harðnandi samkeppni um sparifé landsmanna. Ljóst er að ríkið tekur meira til sín en áður af sparifé landsmanna. Í viðtölum fjh.- og viðskn. Nd. kom fram að forustumenn bankanna hafa mjög miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem þeir eru í um þessar mundir. Bankarnir geta ekki boðið svona ávöxtunarkjör, sögðu bankastjórarnir sem ræddu við fjh.- og viðskn. Nd., en þeir voru þá að bera sig saman um þau ávöxtunarkjör sem ríkissjóður býður. Það kom líka fram í þessum viðtölum að lífeyrissjóðirnir töldu að þeir væru ekki nauðbeygðir til þess að taka skuldabréf frá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna eins og verið hefur. Vegna þess að það er hagstæðara fyrir okkur, sögðu fulltrúar lífeyrissjóðanna, að vera með okkar fjármuni inni í bönkunum á almennum bankareikningum en að kaupa bréf af byggingarsjóðunum. Einnig kom fram að þeir töldu að aðrar sparnaðarhugmyndir ríkisins, sparnaðarform, væru enn þá hagstæðari en bankarnir. Þannig að hér bítur hvað í rófuna á öðru.

Ríkisstj. býður núna bestu kjör á skuldabréfum á almennum markaði sem eins og sakir standa virðist vera völ á. Það er það sem ríkisstj. býður. Hvar kemur það niður? Það kemur í öðru lagi þannig fram að þá verður minni sparnaður í bönkunum sem þó standa næstir ríkissjóði að því er sparnaðarform varðar. Þar á eftir koma svo fjárfestingarlánasjóðirnir, þ. e. byggingarsjóðirnir og Framkvæmdasjóður. Dæmið horfir þannig við lífeyrissjóðunum — ég vil biðja hæstv. ráðh. að athuga það, sem þeir hafa vafalaust gert — að þeir velta fyrir sér: Hvar er best að ávaxta fé lífeyrissjóðanna núna? Er það hjá Byggingarsjóði ríkisins eins og það hefur verið? Það er ekki þar. Ljóst er að hagstæðustu kjörin eru núna að liggja með féð inni í bönkunum eða að kaupa eitthvað af þeim sparnaðarformum sem ríkið býður upp á almennum markaði. Þannig að fjárfestingarlánasjóðirnir mæta afgangi.

Forustumenn lífeyrissjóðanna sögðu þegar við vorum að ræða við þá núna fyrir nokkrum vikum: Við eigum nóga aðra möguleika. Við þurfum ekki að fara með okkar sparnað í fjárfestingarlánasjóðina. Og það var annað sem þeir bentu á sem er mjög athyglisvert, að eftirspurn eftir lánum frá lífeyrissjóðunum er beint frá almenningi. Hún er meiri núna en verið hefur vegna þess að fólk telur óhagstæðara að taka lán í bönkunum en hjá lífeyrissjóðunum. Þannig að menn seilast eftir lánum í lífeyrissjóðunum í miklu stærri stíl núna en áður hefur verið.

Við þessa niðurstöðu skapast vandi í fjárfestingarlánasjóðunum og ríkið situr eftir með vandann án þess að geta rönd við reist vegna þess að hin nýju sparnaðarform ríkisins framleiða ekki peninga í landinu, þau auka ekki sparnað nettó frá því sem verið hefur í verulegum mæli. Niðurstaðan verður sú að ríkið verður að greiða hærra verð fyrir sparnaðarformin en nokkru sinni fyrr. Menn taka lán á almennum markaði og draga þannig úr áhuga lífeyrissjóðanna um leið á því að koma til móts við fjárfestingarlánasjóði ríkisins. Þannig að þetta gengur alls ekki upp. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. þessarar spurningar: Er hann þeirrar skoðunar að fjárfestingarlánasjóðirnir séu í hættu vegna þess að fjármagnið hljóti að leita annað eins og sakir standa?

Ég hef hér, virðulegi forseti, rakið fáein atriði úr þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Í fyrsta lagi tel ég mig hafa sýnt fram á að samkeppnin um sparifé fer harðnandi og skapar erfiðleika við að sjá fram úr fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Í öðru lagi hef ég sýnt fram á að ríkisstj. hefur haft í frammi ótrúlegan hringlandahátt í sambandi við hugmyndir um innlendan sparnað. Í þriðja lagi tel ég mig hafa sýnt fram á að peningamálastefna ríkisstj. fyrir árið 1984 var þegar komin úr böndunum í janúarlok hið sama ár, 1984. Í fjórða lagi tel ég að hér hafi komið fram að erlendar lántökur stefna í mikið hærri tölu en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þegar þetta er allt lagt saman, erlendar lántökur, peningamálastefnan í heild, innlend sparifjármyndun, og stöðu ríkissjóðs bætt við sést að ríkisstj. hefur þegar á tiltölulega stuttum ferli kveðið upp yfir sjálfri sér mjög þungan dóm. Stefna hennar í efnahagsmálum hefur mistekist að öðru leyti en því að hún hefur látið alþýðu landsins borga niður verðbólguna. Þannig er staðan í dag. Ekkert hefur verið tekið á hinum raunverulegu efnahagsvandamálum á Íslandi.

Í upphafi máls míns rakti ég í fimmta lagi hvernig staðan er hjá Byggingarsjóði verkamanna og ég bar fram fsp. til hæstv. félmrh. í þeim efnum. Ég vil þá að allra síðustu víkja að því atriði sem ég nefndi í upphafi máls míns, þ. e. í sjötta lagi, það er í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins. Hæstv. félmrh. er vonandi ekki mjög langt undan núna? Væri hægt að nálgast hann, ráðh.? Er hann farinn vestur? (PS: Þetta er nú besti kafli ræðunnar.) Þú skalt fá að hlusta á hann aðeins lengur ef þú vilt. (PS: Þakka þér fyrir.) Virðulegi forseti. Ætli hæstv. félmrh. sé horfinn úr þinghúsinu? (Forseti: Það er verið að athuga það hvort hæstv. félmrh. er í húsinu?) Er það ekki fljótgert að kanna það, það er ljósatafla hérna frammi. Er ekki hægt að gá hvort það er lifandi á ráðh.? Jú, það er.

Í upphafi máls míns í dag ræddi ég nokkuð um Byggingarsjóð ríkisins og bað hæstv. félmrh. að gera grein fyrir þeirri leyniáætlun sem hann skýrði frá á miðvikudaginn var að hann hefði í fórum sínum um Byggingarsjóð ríkisins. Mér hefur í dag borist bréf frá Húsnæðisstofnun ríkisins, dags. 19. mars 1984, undirritað Katrín Atladóttir. Þar eru upplýsingar um lán frá Byggingarsjóði ríkisins og áform á árinu 1984. Þar eru allt aðrar tölur en í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og þar eru allt aðrar tölur en koma fram í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. Það er nokkuð sérkennilegt þegar verið er að fjalla um svona mál í þinginu og það er ekki til að greiða fyrir afgreiðslu þeirra þegar menn eru að hringla aftur og fram með atriði í máli sem hefur legið fyrir langtímum saman til meðferðar í þinginu.

Skv. þessu plaggi, sem ég fékk í dag frá Húsnæðisstofnun ríkisins og er ekki merkt trúnaðarmál, kemur fram að gert er ráð fyrir því að í nýbyggingar fari á árinu 1984 550 millj. kr., en það voru 600 millj: í áætluninni 7. febr. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að í eldri íbúðir fari á þessu ári 357 millj. kr., en í áætluninni frá 7. febr. voru þetta 477 millj. kr. Það er niðurskurður á lánum til eldra húsnæðis upp á 120 millj. kr. Gert er ráð fyrir því í þessari áætlun að leiguíbúðir og heimili fyrir aldraða fái 34 millj. kr. í ár, en í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir 65 millj. í þessu skyni. Það er skorið niður um meira en helming. Ýmsir framkvæmdaaðilar eiga að fá skv. lánsfjáráætlun 125 millj. kr., en hér er gert ráð fyrir 93 millj. kr. Þannig að árangurinn af samningum félmrh. við bankana um framkvæmdaaðilana er hér metinn á 33 millj. kr. Loks er gert ráð fyrir því í þessari áætlun að önnur lán nemi 63 millj. kr., en það var í áætluninni, sem við höfðum til meðferðar í fjh.- og viðskn., 99 millj. Niðurstaðan af þessum tölum verður 1 milljarður 97 millj. kr. í þessari leyniáætlun sem félmrh. vildi ekki sýna okkur. Hvernig á svo að skera niður lánin skv. hugmyndum þeim sem hér er gerð grein fyrir og mér eru sendar frá Húsnæðisstofnuninni núna áðan? Jú, svarið liggur fyrir. Það er svona, með leyfi forseta:

„Skv. ákvörðun ríkisstj. eiga þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð að fá sín lán í tveimur hlutum, fyrri hlutann mánuði eftir að íbúðin varð fokheld og seinni hlutann 6 mánuðum síðar óbreytt. Aðrir fá lánin þrískipt með svipuðum hætti og á árinu 1983 að frátöldum þeim sem gera fokhelt frá 1. júlí n. k. til septemberloka n. k. og eru ekki að eignast sína fyrstu íbúð, fá ekki sinn fyrsta hluta fyrr en á árinu 1985, en ekki í nóv. og des. eins og verið hefur undanfarin ár.“

Það er þessi niðurskurður á lánsréttindum fólks sem hæstv. félmrh. hefur verið að fela fyrir Alþingi undanfarna daga. Niðurstaðan verður þess vegna sú að í þessari áætlun er gert ráð fyrir frumlánum vegna um 760 íbúða á árinu 1984. Þessari tölu neitaði hæstv. félmrh. í umr. á miðvikudaginn var. Ég endurtek: Er þessi tala enn röng og ef hún er röng, hvernig ætlar þá ráðh. með öðrum hætti að láta enda ná saman hjá Húsnæðisstofnun ríkisins á árinu 1984?

Í þessari áætlun, sem mér barst í dag frá Húsnæðisstofnuninni, er líka gert ráð fyrir því að skera G-lánin mjög verulega niður og fresta þar útborgun. Ég ætla ekki að fara út í það frekar. Ég hafði lagt ákveðnar spurningar fyrir hæstv. ráðh. og ég vona að hann svari þeim hér á eftir. Því eins og ég gat um er útilokað fyrir stjórnarandstöðuna eða nokkurn annan að taka þátt í að afgreiða þetta mál öðruvísi en að þessar lykilupplýsingar varðandi húsnæðismálin og fleiri atriði í þessari áætlun liggi fyrir. Þessi atriði liggja ekki enn þá fyrir af hálfu hæstv. ríkisstj. Þar er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast heldur upplýsingatregðu af hálfu ríkisstj. til hv. Alþingis.