20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3927 í B-deild Alþingistíðinda. (3359)

440. mál, endurnýjun bræðslukera

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 448 eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Mun iðnrh. beita sér fyrir því að endurnýjun bræðslukera álversins fari fram innanlands?“

Forsaga málsins er sú, að fyrir nokkru var boðin út endurnýjun bræðslukera álversins og niðurstaða útboða varð sú, að lægsta tilboð reyndist vera um 1.97% lægra en innlent tilboð. Það var tilboð frá Finnlandi.

Þessi litli munur var notaður til að flytja þá atvinnu úr landi sem hér er um að ræða. Ég tel að það sé algerlega óeðlilegt. Hér er um að ræða mikið verkefni og úr því að starfsemi álversins er hér í gangi er eðlilegt að þjónusta við álverið sé unnin innanlands, enda voru það ein meginrökin fyrir því að álverið var reist hér á sínum tíma að þjónusta við það gæti skapað atvinnu og starfstækifæri á öðrum sviðum.

Stálvík bauð í þetta verk og gerði mjög hagstætt tilboð, en var hafnað þrátt fyrir þennan mjög svo litla mun.

Nú standa yfir viðræður við Alusuisse um ýmis samskiptamál Íslands og þessa auðhrings og ég teldi að það væri eðlilegt að hæstv. iðnrh. tæki mál af þessum toga, þ. e. þjónustu við álverið, upp í þeim viðræðum við Alusuisse, sem nú standa yfir, þannig að tryggt verði að þessi starfsemi verði unnin innanlands í framtíðinni. Ég vil sem sagt bæta þeirri spurningu við til hæstv. iðnrh., hvort hann er reiðubúinn að beita sér fyrir því í viðræðum við Alusuisse að tryggt verði að svona þjónusta verði hér innanlands framvegis.

Auðvitað stafar vandi fyrirtækisins Stálvíkur fyrst og fremst af því, að það hefur verið tekin um það ákvörðun af núverandi hæstv. ríkisstj. að draga mjög verulega úr skipasmíðum í landinu.

Þann 24. júní 1983 skrifaði iðnrh. bréf til Stálvíkur og fleiri fyrirtækja í skipasmíðaiðnaði, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á ríkisstjórnarfundi hinn 20. júní s. l. var samþykkt eftirfarandi till. frá iðnrh.: „Ríkisstj. samþykkir að beita sér fyrir að lokið verði smíði þriggja skipa, sem hafin er smíði á, hjá Slippstöðinni á Akureyri, Þorgeiri og Ellert á Akranesi og Stálvík hf., hin svonefndu raðsmíðaverkefni stöðvanna. Enn fremur verði greitt fyrir smíði minna skips, ca. 26 metra, með sama hætti hjá skipasmíðastöðvunum á Seyðisfirði, sem kaupandi er að.“

Jafnframt var bókað í fundargerð ríkisstj. að stöðvuð verði frekari smíði á bolfiskveiðiskipum. Iðnrh. var falið að athuga um gerð og útbúnað fyrrgreindra skipa með tilliti til einfaldari og ódýrari smíði og kannað verði að breyta óseldum skipum í skip fyrir Landhelgisgæsluna og/eða Hafrannsóknastofnunina.“ Undir þetta rita Sverrir Hermannsson og Jafet S. Ólafsson.

Það er bersýnilega af þessari ákvörðun ríkisstj. sem það er lífsnauðsyn fyrir skipasmíðastöð eins og Stálvík að fá verkefni af þeim toga sem hér um ræðir og snertir endurnýjun bræðslukera álversins. Þess vegna er það sem ég hef leyft mér að leggja þessa fsp. fram. En ég vil líka spyrja hæstv. iðnrh.: Hefur orðið stefnu innanlands frá því að hann skrifaði bréfið 24. júní s. l. og bannaði skipasmíðastöðvum að smíða ný fiskiskip hér á landi?