21.03.1984
Neðri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (3402)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. fjh.- og viðskn. Nd. með fyrirvara. Fyrirvari minn var bundinn við væntanlega yfirlýsingu frá hæstv. viðskrh. um neyslukannanir, hvenær þær færu fram og hvernig.

Hæstv. ráðh. hefur nú gefið slíka yfirlýsingu sem er að mínu mati skýr að flestu leyti. Ég tel ástæðu til að þakka hæstv. ráðh. fyrir það að bregðast svo skjótt við óskum þm. úr þremur flokkum, sem komu hér fram þegar málið var til 1. umr. í Nd., enda mátti ætla að meirihlutavilji væri hér í hv. Nd. fyrir þeim lagfæringum sem Ed. synjaði um.

Í hv. Ed. kom fram till. um það að Kauplagsnefnd hagaði gerð neyslukannana á þann veg að sundurgreina megi þannig að marktækt sé hvernig meðalneyslu þess fjórðungs landsmanna, sem lægstar tekjurnar hefur, er háttað hverju sinni. Hæstv. ráðh. hefur með yfirlýsingu sinni komið til móts við þessa brtt. að fullu að mínu mati. Auk þess var við 1. umr. í Nd. gert ráð fyrir því að nauðsynlegt væri að innan neyslukönnunar mætti greina þann mun sem er á neyslugrunninum eftir landsvæðum. Ég tel að yfirlýsing hæstv. ráðh. komi einnig til móts við sjónarmið þau sem fram komu hér í deildinni að þessu leyti. Síðan er bætt við setningu sem er á þessa leið:

„Tryggt verður í þessu sambandi að niðurstöður um þetta verði eins traustar og marktækar og heildarniðurstöður fyrir allar fjölskyldur sem könnunin tekur til“.

Hér eru að mínu mati tekin af tvímæti um þetta tvennt, annars vegar þennan lægsta fjórðung fjölskyldna sem um er að ræða og hins vegar um mismunandi landsvæði. Fyrsti efnisþátturinn í yfirlýsingu hæstv. ráðh. er hins vegar ekki alveg eins ljós og væri gott að hann skýrði hann nokkru nánar. En í frv. sjálfu segir svo um neyslukannanir í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Kauplagsnefnd skal eigi sjaldnar en á 5 ára fresti láta fara fram athugun á því hvort ástæða sé til að endurskoða grundvöll vísitölu framfærslukostnaðar. Skal sú athugun fyrst fara fram á árinu 1985.“

Á árinu 1985 á að meta hvort neyslukönnun fer fram. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir því í frv. eins og það er að neyslukönnun skuli fara fram á árinu 1985 heldur á eingöngu að meta á því ári hvort slík könnun fer fram. Það sem hæstv. ráðh. segir er ósköp einfaldlega það að ef könnun verður ákveðin á árinu 1985 þá skal henni lokið innan árs frá því að ákvörðunin er tekin. Og út af fyrir sig er þetta skýrt. En ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Telur hann ekki eðlilegt, með hliðsjón af öllum málsástæðum og því hvað hinn nýi vísitölugrundvöllur er þrátt fyrir allt þegar gamall, að ákveðið verði fyrr, t. d. á árinu 1984, að meta í Kauplagsnefnd hvort þessi könnun á að fara fram, þannig að ráðh. fari fram á það við Kauplagsnefnd þegar á árinu 1984, að hún meti hvort könnunin á að fara fram? Þar með væri í raun og veru hugsanlegt að niðurstöður könnunarinnar lægju fyrir á árinu 1985. Annars gera þær það ekki fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1986. Ég er m. ö. o. að spyrja ráðh. hvort hann treysti sér til að segja til um það að hann muni beita sér fyrir því að Kauplagsnefnd meti þegar á árinu 1984 hvort könnunin eigi að fara fram. Það er ekkert í lögum sem bannar hæstv. ráðh. það, því eins og hann hefur bent á og tekið fram hefur hann allt vald í þessu efni.

Þá er það varðandi ummæli hv. 3. þm. Vestf. um það að ráðherrar komi og fari og að nýr ráðh. sé ekki bundinn af þessari yfirlýsingu. Það er auðvitað algjörlega rangt. Nýr ráðh. er auðvitað bundinn af þessari yfirlýsingu svo lengi sem hann tekur ekki ákvörðun um eitthvað allt annað. Og ég vil bæta því við, svo að það sé skráð í þingtíðindi í tengslum við þetta mál líka, að samþykkt þessarar deildar á málinu byggist á yfirlýsingu ráðh., þannig að það eru órjúfanlegir þættir, annars vegar þessi yfirlýsing og hins vegar efnið sem hér er verið að afgreiða. Þess vegna held ég að það eigi að vera óhætt að treysta því, að unnið verði skv. þeirri yfirlýsingu sem hér hefur verið gefin.

Aðeins svo nokkur orð um vísitölur. Um vísitölur er oft mikið rætt í þessu landi eins og eðlilegt er. Ég held að menn þurfi að átta sig vel á því, að vísitölumælingin sem slík segir í raun og veru ekkert til um neyslumunstur á hverjum tíma, heldur neyslukönnunin ein. Vísitölumælingin segir ekkert annað en um verðlagsþróunina sjálfa. Það var fróðlegt, sem kom fram hjá hagstofustjóra í morgun og má vera okkur nokkurt umhugsunarefni, að neyslukönnun eins og sú sem framkvæmd var fyrir hina nýju vísitölu muni kosta á verðlagi þessa dags 10–15 millj. kr. Hér getur auðvitað verið um svo mikilvægt stjórntæki að ræða að rétt sé að kosta mjög miklu til að það sé sem nákvæmast og allir séu sem sáttastir við það, en á þessu verður auðvitað að hafa auga eins og öðru þegar verið er að taka ákvarðanir af þeim toga sem hér um ræðir.

Hins vegar verð ég að segja það að auðvitað er brýnt að það sé sem best þjóðfélagsleg samstaða um vísitölumætingu lífskjara. Þess vegna fagna ég því ef það tekst að ljúka þessu máli hér á hv. Alþingi með mjög víðtækri samstöðu allra þeirra þingflokka sem hér eiga fulltrúa. Ég tel það mjög mikið keppikefli og skynsamlegt af hæstv. ráðh. að halda þannig á málum að stuðla að því eins og kostur er.