21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3998 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka þann velvilja að leyfa mér að taka til máls núna þar sem ég get ekki verið viðstödd hér kl. níu í kvöld þegar mér skilst að fundi verði fram haldið.

Það frv. um tekjuskatt sem hér er til umr. er orðið víðförult og margumfjallað, en ekki hefur það forframast í síðustu ferð sinni og umfjöllun í Ed.

Við 1. umr. um þetta frv. hér í Nd. fyrir allmörgum vikum lét ég í ljós þá frómu ósk að fjh.- og viðskn. fjallaði rækilega um það og lækkaði skattprósentuna verulega. Mér varð að þeirri ósk að nokkru leyti, en því miður var Adam ekki lengi í þeirri Paradís. Þetta frv. í því formi sem það nú hefur fengið er stuðningsmönnum þess til minnkunar og ég verð að segja að ég skil ekki þá sem geta látið sig hafa það að standa að hækkun skattprósentunnar á nýjan leik. Kannske er þetta einn liðurinn í þeim bandormi sem á að hringa sig upp í margumrætt gat á fjárlögum þessa árs. En ég vorkenni fjmrh., sem er margyfirlýstur andstæðingur skattahækkana, að bera þetta hér fram.

Við erum að tala um skattbyrði á fólk og ég nenni ekki að blanda mér í deildur um hvort skattbyrðin verður endanlega meiri eða minni en í fyrra eða hitteðfyrra eða árið þar áður miðað við þetta eða hitt. Menn virðast geta fengið þá útkomu sem þeim best hentar í þeim efnum. Það skiptir vitanlega talsverðu máli en ekki öllu. Það sem skiptir öllu máli er það siðleysi og miskunnarleysi sem felst í því að krefjast þessara endalausu fórna af launafólki. Greiðslugeta fólks er í lágmarki og það er fáránlegur rökstuðningur að benda á þær rýru kauphækkanir sem náðust í nýgerðum kjarasamningum. Þetta er bara rugl, ekkert annað en rugl.

Tekjur þessa árs eru skattstofn næsta árs og ríkiskassinn getur beðið með að skattleggja þær krónur eins og hingað til hefur verið venjan. Hér er svikist aftan að fólki. Skattar eiga ekki að vera afturvirkir og skattgreiðendur eiga að vita nákvæmlega hver skattprósentan og álagningin verður þegar þeir telja fram. Frá þessu er nú áformað að víkja.

Þjóðin öll hefur verið kölluð til ábyrgðar og beðin um að leggja sitt af mörkum til að rétta við efnahagskerfi landsins og minnka verðbólguna. Almenningur hefur brugðist vel við og sætt sig við miklar þrengingar. Ríkisstj. og atvinnurekendur mega sannarlega vera þakklát fyrir undirtektir launafólks við kröfum þeirra og ákalli. Stjórnarflokkarnir hafa nú brugðist trausti þessa fólks sem hefur áreiðanlega ekki reiknað með því að stjórnvöld færu samstundis að slæma krumlum sínum í þær krónur sem fengust í launahækkun í nýgerðum kjarasamningum. Það er hreint og klárt siðleysi að svíkjast svona aftan að fólki.

Því er réttilega haldið fram að þetta sé ögrun við launafólk. Ég vil einnig kalla það siðleysi og frekju og ég vorkenni þeim sem að þessu standa. Ég vona að meðal stjórnarliða hér í Nd. finnist fleiri menn eins og Ólafur Jóhannesson.