21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4013 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

196. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég hef þegar gert grein fyrir afstöðu minni hl. landbn. í þessu máli, sem er í stuttu máli sú, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá með þeim rökum að nægar lagaheimildir séu fyrir hendi í lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands til þess að framkvæma skuldbreytingu þá sem hér er lýst, ef vilji er fyrir hendi, ef fjármagn er fyrir hendi og ef samkomulag tekst um lánakjör.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp aftur er þá fyrst og fremst sú, að þessu sjónarmiði var andmælt af hv. 1. þm. Norðurt. v. í umr. hér áðan. Annað tilefni til frekari umr. um þetta mál var síðan að nokkru leyti að finna í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði sem svo: Með því að flytja brtt. við gildandi lög um veðdeild er minni hl. landbn. þar með að staðfesta að lagabreyting sé nauðsynleg, og vildi þar með vefengja að þau rök væru góð og gild að frv. meiri hl. væri þarft og nauðsynlegt.

Þessi rök standast að sjálfsögðu ekki. Það er hægt að færa að því fullgild rök að það þurfti engar brtt. að flytja við lögin um veðdeild Búnaðarbankans til þess að koma fram skuldbreytingunni fyrirhuguðu. Það bar enga nauðsyn til að leggja til neinar sérstakar lagabreytingar. Það er alveg ljóst, miðað við þau gögn sem birt hafa verið, þær upplýsingar sem n. fékk í hendur um skuldastöðu bænda, að ekki var nauðsynlegt út af fyrir sig að hækka veðsetningarhlutfall það sem ákveðið er í af lausaskuldum bænda skv. þeim umsóknum sem Stéttarsamband bænda efndi til og niðurstaðan varð sú, að þessar lausaskuldir væru að meðaltali innan við 400 þús. kr. Þetta er út af fyrir sig ekki há upphæð og ég endurtek: þetta eru meðaltalstölur. Það þýðir að sá hluti bænda sem verst er staddur á við að stríða lausaskuldir sem gætu numið 600–700 þús. kr., en væntanlega mundi þetta jafnvel fela í sér að mjög margir bændur væru skuldugir í miklu minna mæli.

Ef þetta er borið saman við skuldabyrði almennra húsbyggjenda eða launþega þá er hér ekki um að ræða stórar skuldir, allra síst ef um er að ræða atvinnurekstur, þannig að veðsetningarhlutfallið, sem kveðið er á um í lögum um veðdeild, mundi væntanlega vera nóg. Þessu svara meirihlutamenn landbn. á þá leið að þessar upplýsingar séu nú mjög úreltar, þær séu kannske að verða 9 mánaða gamlar og málið sé illa upplýst. Enn eigi eftir að koma á daginn hvort ekki komi til miklu fleiri bændur sem sæki um þetta ef umsóknarfrestur er framlengdur og þegar nánari upplýsingar hafa verið birtar um kjör o. s. frv. Þar að auki hafi mjög snúist til verri vegar fyrir bændur frá því að þessi könnun var gerð.

En til þess að draga þetta saman: Sá sem hér stendur flutti brtt. við veðdeildarlögin um tvennt. Í fyrsta lagi að hækka veðsetningarhlutfallið úr 60% af matsverði eigna upp í 75% og í annan stað að færa inn í lögin það ákvæði að leiguliðar á ríkisjörðum mættu veðsetja eignir ríkisins, ábúðarjarðir sínar, fyrir þessum skuldum. Ástæðurnar fyrir þessu eru þær að undirbúningsnefndin og þá sérstaklega formaður hennar taldi að það væri af tæknilegum ástæðum mjög æskilegt að leiguliðar eða ábúendur ríkisjarða væru ekki undanskildir í þessum efnum vegna þess sem hann kallaði „ódeilanleika veðhæfni“ í slíkum tilvikum. Ef þetta eru atmennt tæknileg atriði þá er alveg sjálfsagður hlutur að þau séu færð inn í brtt., inn í lögin um veðdeildina, og hefur það þá almennt gildi.

Fyrra atriðið, sem varðaði veðsetningarhlutfallið, er ekkert tengt skuldbreytingarhugmyndunum sem slíkum. Í báðum tilvikum er um að ræða breytingar almenns eðlis, sem af lagalegum ástæðum fer best á að sé að finna í þessum lagabálki, lögunum um veðdeild. Og þá er kannske komið að kjarna málsins í ágreiningnum milli mín og hv. 1. þm. Norðurl. v. Hann hélt því fram að það væri óeðlilegt að gera þessar breytingar á veðdeildarlögunum vegna þess að þá væri verið að gera ráð fyrir því sem reglulegu og venjulegu ástandi að til skuldbreytinga yrði efnt stöðugt jafnt og þétt. Því er til að svara að skuldbreytingarnar eru ekki undantekningar frá reglu. Þær eru orðnar almennt ástand. Til skuldbreytinga hefur verið efnt í tvígang frá 1970 og hafa spannað allt tímabilið frá 1970 til ársloka á s. l. ári og þar áður hefur iðulega verið efnt til slíkra skuldbreytinga þannig að því miður verður að líta svo á að hér sé ekki um undantekningu frá reglunni að ræða, heldur þvert á móti hina almennu reglu.

En brtt. mínar um veðdeildarlögin eru ekki fluttar af þessum sökum. Þær eru fluttar út frá því sjónarmiði að það sé óeðlilegt ef ráðh. beitir sér fyrir flutningi á till. í búningi lagafrv., sem í raun og veru hefur ekki meira gildi en þáttill., er í raun og veru ekkert annað en almenn viljayfirlýsing og þarf ekki að koma til kasta löggjafarþingsins nema um þessi minni háttar framkvæmdaatriði. Hin eðlilega leið í slíkum efnum er auðvitað sú, ef menn á annað borð telja æskilegt að þessi minni háttar framkvæmdaatriði verði lögfest, að þá séu þau lögfest í þeim lagabálki þar sem þau eiga heima. Um það deilir enginn að lögin um veðdeildina heimila veðdeild Búnaðarbankans og bankaráði Búnaðarbankans að framkvæma þessar skuldbreytingar. Þeir geta það út af fyrir sig án nokkurrar lagabreytingar en hér er um að ræða minni háttar framkvæmdaatriði sem ekki sakar að séu þá færð inn á réttan stað og hafa atmennt gildi. Jafnvel þótt ekki verði framar í sögu íslensks landbúnaðar efnt til skuldbreytinga væru þessi lagaákvæði samt þörf.

Hækkunin á veðsetningarhlutfallinu t. d. væri þarfleg breyting ef menn hafa það í huga að veðdeildin gæti í almennum lánum sínum gengið lengra í þá átt að lána, þó innan veðmarka, þeim bændum sem verst eru staddir hverju sinni, burtséð frá skuldbreytingum. Ef mönnum þykir það almennt réttlætismál að leiguliðar ríkisjarða megi vegna ódeilanleika veðhæfni veðsetja eignir ríkisins, vegna þess að nánast sé tæknilega ógerlegt að skilja þar í milli og félagslega ranglátt að láta menn gjalda slíkra tæknilegra lagaatriða, þá er þetta hvort tveggja almennt séð eðlileg lagaatriði sem eiga með eðlilegum hætti heima í lögunum um veðdeild Búnaðarbanka. Þetta ætti að nægja til þess að svara gagnrýni fyrrv. hæstv. landbrh. í þessu efni.

Niðurstaðan er m. ö. o. alveg ljós. Eftir stendur það óhagganlegt að þetta frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er óþarft, lögin um veðdeild Búnaðarbankans veita nægilega lagaheimild. Eftir sem áður er það staðreynd að framkvæmd málsins er háð samþykki Alþingis við nýrri fjárútvegun. Ég tók eftir því að hæstv. landbrh. notaði ekki tækifærið til þess að svara því með hvaða hætti ríkisstj. hyggst útvega þetta fé, en það er í raun og veru stóra málið sem Alþingi þarf að fjalla um. það er við þá afgreiðslu sem menn raunverulega taka hina endanlegu afstöðu. Að því er varðar þessi minni háttar framkvæmdaatriði eru þau sjálfsögð almennt séð, þörf breyting sem sjálfsagt er að gera.

Þá er ástæða til að víkja örfáum orðum að þeim brtt. öðrum sem hér liggja fyrir. Á þskj. 427 hefur hv. 4. þm. Norðurl. e. lagt fram tvær brtt. Önnur þeirra er á þá leið að lánveitingar skv. lögum þessum skuli sérstaklega miða að því að leysa fjárhagsvanda þeirra bænda sem nýlega hafa hafið búskap, staðið í gagngerri uppbyggingu eða endurbótum á bújörðum sínum og búa við sérstaklega erfiðan fjárhag vegna fjölskylduaðstæðna.

Fyrsta spurningin í sambandi við brtt. af þessu tagi er kannske spurning um fordæmi. Við erum hér að ræða um skuldbreytingar vegna lausaskulda eða vanskilaskulda vegna fjárfestingarlána í atvinnurekstri. Það kynni kannske að þykja dálítið hæpið fordæmi, ef við víkjum að öðrum atvinnugreinum, ef inn í slíka löggjöf væru sett ákvæði þar sem taka ætti tillit til fjölskylduaðstæðna, barnafjölda, aldurs barna á framfæri, skólagöngu barna o. s. frv. Vitnað hefur verið til þess að skuldbreytingar hafa átt sér stað í sjávarútvegi. Ætli sumum þætti ekki dálítið undarlegt ef farið væri að setja inn í lög um skuldbreytingar í sjávarútvegi að taka bæri tillit til félagslegra aðstæðna útgerðarmanna, barnafjölda þeirra o. s. frv. Eðli málsins samkvæmt eru þessi mál fyrst og fremst spurningar um útvegun á fjármagni og síðan spurning um mat á veðhæfni eigna á bak við þetta. Ég upplýsti við fyrri umr. að í skuldbreytingum í sjávarútvegi var sett strangt þak, miklu lægra þak á hámark skuldbreytinga, þ. e. hámarkið var 7% af fasteignamati veðhæfra eigna. Í annan stað var þar engu nýju fjármagni til að dreifa.

En hvað sem þessu líður er líka ástæða til að spyrja: Getur skuldbreyting af þessu tagi komið þeim atvinnurekendum sem verst eru staddir í landbúnaði að gagni? Um það var spurt í n. hver hefði verið reynslan af skuldbreytingunni frá 1979. Svörin voru þau að sá hópur bænda sem verst er staddur fjárhagslega og skuldar mest og rekur óarðsamastan búskap væri jafnvel engu betur settur eftir þá skuldbreytingu, þ. e. skuldbreytingin hefði ekki nægt þeim til þess að koma fjárhag þeirra á rétta kjöt. Eftir sem áður væri það staðreynd að þessi hópur bænda væri enn í verulegum og vaxandi vanskilum frá 1979, þ. e. þau skuldbreytingarlán væru ekki í skilum.

Fram kom í umr. að það var mat bankastjóra Búnaðarbankans, sem hefur mikla praktíska reynslu af þessum málum, að í þessum tilvikum væri skuldbreytingin gagnslaus ráðstöfun og kæmi ekki að viðhlítandi notum. Þarna yrðu menn að gera það upp við sig hvað ætti að gera, annaðhvort yrði að grípa til beinna styrkaðgerða, þ. e. beita fjármagni sem væri hreinlega í formi styrkja til að endurreisa fjárhag þessara bænda, ellegar að líta á þetta sem óviðráðanlegt verslunarlegt vandamál og gera þá ráðstafanir til að auðvelda þessum bændum að losna frá eignum sínum og hætta búskap. Það er því ákaflega hætt við því, þó að þessi till. hljómi fagurlega og líti fallega út á blaði, að hún feli ekki í sér raunverulega aðstoð.

Að því er varðar seinni brtt., „Innlánsstofnunum er skylt að taka við bankavaxtabréfum er gefin verða út skv. lögum þessum. Seðlabankinn endurkaupir þessi bréf,“ þá er þetta ákaflega merkileg till. Yfirleitt má segja um hugmyndina á bak við bindifé, þ. e. bak við þá hugmynd að eitt af meginhlutverkum Seðlabanka sé að reyna að stýra peningamagni í umferð og hafa þar með áhrif á aukningu peningamagns og eftirspurnarþenslu með því að draga fé úr umferð og frysta það, að allt kerfið sem hér er í notkun, sem er í því fólgið að nota þetta fé síðan skv. sjálfvirkum, lögbundnum reglum til útlána aftur út í hagkerfið, jafnvel á niðurgreiddum vöxtum, sýnir að ekki er heil brú í þessari pólitík. Hugmyndin á bak við bindiskylduna er þveröfug, en framkvæmdin eftir á, nýtingin á þessu fé, brýtur algjörlega í bága við tilgang upphaflegu hugmyndarinnar um bindiskyldu. Þetta er ein skýringin á því að peningamálastjórn í landinu hefur verið í molum lengst af og sérstaklega s. l. 10–12 ár. Það kom til umr. í sambandi við lánsfjárlög þegar upplýst er að útlánaaukning banka — sem byggist á yfirdrætti Seðlabanka þrátt fyrir refsivaxtaákvæði við bindiskyldu — á fyrstu tveimur mánuðum ársins er í engu samræmi við yfirlýst markmið ríkisstj. í efnahagsmálum þar sem hún hefur aukist milli 60–70% á ársgrundvelli, eins og það er sagt, á sama tíma og ríkisstj. reynir að setja sér það mark að verðbólguhraðinn verði ekki meiri en 10– 12% .

Það er mikið vafaatriði að hægt sé með almennum lögum að skylda innlánsstofnanir hvað þá Seðlabanka líka, til endurkaupa, til þess að taka við bréfum án tillits til þess á hvaða vaxtakjörum þetta er. Eðlilegast er, úr því að ekki skortir neinar lagaheimildir til þess að framkvæma þessa hluti, að það verði síðan samkomulagsatriði skuldara og lánardrottins hvort samningar takast um skuldbreytingu, lengingu lána. Þá ætti það eðli málsins skv. að gerast á þeim vöxtum sem í gildi eru almennt þegar um veðlán er að ræða.

Eins og kunnugt er er hér gert ráð fyrir niðurgreiddum vöxtum í þessu efni þ. e. 2–2.5%, í stað 5–5.5% sem í gildi eru á markaðnum. En í staðinn á hins vegar að fá lánardrottna til að taka þessi bréf með því raunverulega að útvega þeim nýtt lánsfé, það er tilgangurinn.

Í raun og veru er megintilgangur þessara till. sá að leysa greiðsluvandamál innlánsdeilda kaupfélaga. Vitað er að forstöðumenn þessara lánastofnana eru ekkert ginnkeyptir fyrir því að semja um lengingu á lánum, sem þegar eru gjaldfallin og bera kannske hæstu vexti, til lengri tíma á niðurgreiddum vöxtum. Þeir setja það að skilyrði að þeir fái þá eitthvað fyrir sinn snúð og það á að vera aukið rekstrarfjármagn í formi nýrra lána. Það er ástæðan fyrir þeirri óvenjulegu leið sem farið er, að framkvæma þessa skuldbreytingu. Það verður að teljast óvenjuleg leið að nauðsynlegt sé að afla nýrra lána til þess að fá aðila til að samþykkja þetta. Þar stendur síðan hnífurinn í kúnni, um það snýst málið í heild sinni. Er þetta fjármagn til? Hvaðan á það að fást? Á hvaða kjörum fæst það og á hvaða kjörum verður það endurlánað?

Ég hef sagt að þar sem þetta frv. er óþarft hef ég ekki séð ástæðu til að gera grein fyrir endanlegri afstöðu minni til þess, raunverulega getur það beðið þess tíma. Þó skal ég taka það skýrt fram að ég er atgjörlega andvígur því að leysa mál af þessu tagi með því að slá meiri erlend lán. Rökstuðningurinn fyrir því get ég sótt í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstj. Ég er m. ö. o. alveg sammála því að við séum komnir yfir eðlileg hættumörk að því er varðar erlendar lántökur. Ég er sammála því að það eigi að vera keppikefli ríkisstj. að koma í veg fyrir að hlutfall erlendra skulda fari yfir 60%, en við það jaðrar það nú. Ég er sammála þeirri stefnuyfirlýsingu ríkisstj. að snúa beri við af þessari braut, það verði að hafa strangt taumhald á erlendum lántökum, beita verði ströngum arðsemismælikvörðum í því efni, lán verði ekki tekin og þau verði ekki veitt nema til þeirrar fjárfestingar sem við getum slegið föstu að spari okkur verulegan gjaldeyri eða skili okkur nýjum gjaldeyristekjum og verði þess vegna til þess í framtíðinni að létta á okkur greiðslubyrði erlendra skulda sem þegar er orðin allt of mikil.

Hér er ekki um að ræða slíkt mál. Ef ríkisstj. vill taka sjálfa sig alvarlega, ef hún vill láta taka mark á efnahagsstefnu sinni hlýtur hún að leita annarra úrræða. Þess vegna ber hæstv. landbrh. skylda til að upplýsa það hér og nú, áður en þessari umr. verður lokið, með hvaða hætti hann hyggst útvega þetta fjármagn. Það er upplýst að veðdeild Búnaðarbankans er ofviða að leysa þetta af eigin rammleik. 1979 var þessu verkefni beint á Byggðasjóð sem auðvitað tók lán til að leysa það. Nú liggur ljóst fyrir eftir umr. um lánsfjárlög að ríkisstj. á ekki önnur úrræði, ef hún ætlar að gera þessa hluti, en að taka ný erlend lán. Er hæstv. landbrh. að boða það? Ég árétta þá spurningu og tel að ráðh. sé ekki sæmandi annað en að svara því skilmerkilega í þessum umr. Hvernig hyggst hann útvega þetta fé? Er hér raunverulega um að ræða erlenda lántöku?

Ég get skilið að ráðh. geti ekki svarað því hversu há lánin eru. Það er vegna þess að málið er, þrátt fyrir langan undirbúningstíma, ekki á því stigi að upplýsingar liggi fyrir um það. Það getur verið einhvers staðar á bilinu 40–70 millj. kr. þess vegna. En 600 millj. kr. duga sem kunnugt er til þess að hleypa upp hinni helgu, heilögu tölu, 60% af þjóðarframleiðslu, upp um eitt prósent þannig að við eigum út af fyrir sig ekki að tala hér um rosalega tölu. En þá minni ég líka á að hin erlenda lánsfjárþörf er miklu meiri í öðrum póstum þannig að það munar um hvern kepp í þessari sláturtíð.

Herra forseti. Hér liggja líka fyrir á þskj. 464 brtt. frá hv. 7. þm. Reykv., Ólafi Ragnari Grímssyni, efnislega á þá leið að með sama hætti og þetta frv. kveður á um breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán þá gildi öll ákvæði þeirra að breyttu breytanda um launþega þannig að í hverri grein, grein fyrir grein, skuli setja orðið „launþegar“ í staðinn fyrir „bændur“. Sama skuli gilda að því er varðar veðsetningu eigna, að leiguliðar í íbúðarhúsnæði á vegum ríkisins eða sveitarfélaga eða annarra aðila megi veðsetja íbúðir þeirra, sem og að ákvörðun vaxta á slíkum lánum verði ákveðin í fullu samráði við stéttarsamtök launþega í landinu.

Þessar brtt. eru í samræmi við frv. sem áður kom fram á Alþingi, flutt af þeim hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Hv. þm. flutti hér athyglisverða ræðu í löngu og ítarlegu máli og beindi máli sínu mjög til framsóknarmanna og, að því er mér virtist á stundum, einnig til framsóknarmanna í sínum eigin flokki.

Röksemdafærsla þm. var mjög einföld. Hann sagði á þá leið: Hingað til hefur verið haft fyrir satt og verið rauður þráður í málflutningi þeirra sem telja sig mesta talsmenn bænda að hagsmunir bænda og launþega fari saman, að bændur séu raunverulega launþegar. Skv. þessu kerfi hefur launaliður bóndans í verðlagsgrundvellinum ævinlega hækkað í samræmi við almenna hækkun kaupgjalds viðmiðunarstétt. Þetta er eitt grundvallaratriðið í allri verðmyndun í landbúnaði. Af þessu ályktaði hv. m. að hið sama skyldi ganga yfir bændur og launþega. Hann sagði m. ö. o.: Ef menn fallast á annað borð á þau rök að bændur séu launþegar og eigi að eiga kjör sín mjög undir sömu þáttum og almennir launþegar þá fylgir af sjálfu sér að menn eiga að styðja skuldbreytingar til launþega á nákvæmlega sama grundvelli og til bænda. Þetta eru út af fyrir sig ágæt rök og ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir geta þeir fylgt þessum rökum.

Með því að ég flyt till. um að vísa þessu frv. frá þarf ég ekki að taka afstöðu til þess arna af þeirri einföldu ástæðu að ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það sé óeðlilegur hlutur með öllu að binda afkomu bænda við kjör launþega vegna þess einfaldlega að þetta er sitt hvað. Bændur eru að sjálfsögðu atvinnurekendur og eiga afkomu sína undir allt öðrum þáttum. Þeir eru aðilar sem stunda atvinnurekstur, þeir eiga afkomu sína þess vegna fyrst og fremst undir því hversu vel fyrirtæki þeirra eru rekin. Það getur verið ýmsum þáttum háð og auðvitað er afkoma þeirra mjög háð sveiflum og náttúrufari rétt eins og í útgerð og öðrum frumatvinnuvegum Íslendinga. En það breytir engu um það að þeir eru atvinnurekendur og viðmiðun við laun launþega þess vegna út af fyrir sig engan veginn augljós né rökrétt og tengsl við meðallaun verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna þaðan af síður. Mætti nefna til hvers vegna ætti ekki að miða afkomu bænda við afkomu einhverra allt annarra stétta. Ég vil ekki fara út í þá sálma, aðeins árétta það að ég er ekki stuðningsmaður þeirrar kenningar. Ég tel að tími sé til kominn og hefði átt að vera fyrir löngu að breyta þessari viðmiðun og horfast í augu við þá staðreynd að þetta tvennt er alls ólíkt og engin rökrétt tengsl þar á milli.

En ræða hv. þm. var að því leyti til merkileg að hún markar dálítil spor í breyttu hugarfari í þessum málum innan hans eigin flokks, Alþb. Það hefur lengi verið í gildi að ekki mætti ræða um aðrar og skynsamlegri lausnir innan landbúnaðarins en þær sem orðið hafa að ráðum framsóknarkerfisins, m. a. vegna þess að sjálfskipaðir talsmenn bænda í öðrum flokkum, þ. á m. bæði í Sjálfstfl. og Alþb., hafa jafnan tekið undir þessa framsóknarpólitík í stóru sem smáu, jafnvel reynt að yfirbjóða hana stundum. Þetta hefur lengi vel,átt mjög við Alþb. Sem kunnugt er hafa þessir tveir flokkar starfað lengi saman í ríkisstjórnum og reyndar verið lengi litið við hlið líka í stjórnarandstöðu. Þetta tímabil spannar hvorki meira né minna en rúma tvo áratugi. Í ríkisstjórnum þessara flokka hefur Framsfl. ráðið landbúnaðarmálunum og Alþb. dansað þar eftir pípu framsóknar í stóru sem smáu. Alþb. hefur ekki, sem vitað er, gert neina tilraun til þess að koma vitinu fyrir framsókn í þeim efnum. Þvert á móti hafa þeir í viðleitni sinnl til þess að fá vinstri sinnaða framsóknarmenn til undaneldis hjá sér reynt að yfirbjóða Framsfl., svo sem frægt var þegar einn leiðtogi Alþb. sagði að það væri ein einföld lausn á offramleiðsluvanda í landbúnaði. Hún væri sú að launþegar á mölinni ætu meira af hefðbundnum landbúnaðarafurðum. Menn ættu ekki í því tilviki að vinna sig úr út vandanum heldur éta sig út úr vandanum.

Vandamálin eru gömul í þessari grein. Þau snerta ekki hvað síst offramleiðslustefnuna, framleiðsluhvatningarstefnuna, það að taka ekkert tillit til þess hver eru eðlileg takmörk innanlandsneyslu. Á þessum grundvelli hefur verið reist mikið framleiðsluhvetjandi kerfi og sólundarkerfi sem lýsir sér best í gífurlega háum og miklum niðurgreiðslum og útflutningsbótum.

Í þessum skilningi er búið að breyta landbúnaðinum frá því að vera, eins og ég var að segja, atvinnuvegur þar sem sjálfstæðir atvinnurekendur væru að starfi yfir í atvinnugrein sem að verulegu leyti því miður hefur verið sett á framfæri neytenda í þéttbýli. Og þessi sjálfvirku tengsl í launaliðnum við kjör launþega jafnvel nálgast það að fá afkomutryggingu, nálgast það að líta megi á bændur í sumum tilvikum eins og hálfopinbera starfsmenn.

Þetta hefur auðvitað verið mikið deilumál og ágreiningsmál í íslenskri pólitík lengi. Og það er merkilegt að þess sjást nú loksins merki að sumir af forustumönnum Alþb. séu smám saman að stíga fyrstu skrefin í þá átt að snúa baki við þessari hefðbundnu framsóknarpólitík. Skrefin eru að vonum smá og þau eru hikandi fyrst í stað, en þó ber að þakka hvern vott um hugarfarsbreytingar í þessum efnum, með von um að Eyjólfur hressist meira, því það mundi áreiðanlega marka nokkur tímamót í íslenskri pólitík ef loksins væri úr því skorið, að Alþb. hefði snúið baki við þessari pólitík og áttað sig á því að það samræmist engan veginn yfirlýstri stefnu þeirra þess efnis að þeir vilji beita sér fyrir hagsmunum launþega á Íslandi, að fylgja þessari úreltu og rangsnúnu landbúnaðarpólitík.

Ég sagði: þetta eru fyrstu skrefin. Það er náttúrlega augljóst mál að Alþb. talar tveimur röddum enn í þessu máli. Það er sitt hvað, annars vegar að hlusta á málflutning hv. þm. Steingríms Sigfússonar og taka eftir hvaða afstöðu hann tekur til málsins í landbn. eða að hlýða á málflutning hv. 7. þm Reykv. Ólafs Ragnars Grímssonar. Þetta er nú aldeilis sitt hvað. Og það fór ekki fram hjá mér né reyndar mörgum öðrum, að í sjónvarpsþætti í gærkvöldi, þar sem þá hugmynd bar á góma að vanda ríkissjóðs, fjárlagagatið fræga hans Alberts eins og sumir segja, ætti að leysa að hluta til með því að minnka niðurgreiðslur á hefðbundnar landbúnaðarafurðir. En þá gerðist það, að hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrrv. fjmrh. Alþb., komst svo að orði að hann treysti því að framsóknarmenn, og þá ekki síst hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson, stæðu nú fastir fyrir í því að koma í veg fyrir að til þessa ráðs yrði gripið. M. ö. o., þarna var sígilt dæmi um það að þessi hv. þm. Alþb. er að þessu leyti kaþólskari en páfinn, því að hæstv. sjútvrh. svaraði því þó til, þrátt fyrir allt, að það kæmi til álita að breyta þessari pólitík.

Þetta er sennilega fyrsti almenni prófsteinninn á þessi hugsanlegu sinnaskipti Alþb., hvaða afstöðu flokkurinn að lokum tekur til þessa máls ef það kemur til kasta þm. Þess vegna væri ástæða til að spyrja sérstaklega hv. 7. þm. Reykv., af því að hann talaði hér áðan fyrir brtt., sem sóttar eru í frv. til laga sem hann flytur sameiginlega með hv. varaþm. Sighvati Björgvinssyni, hver afstaða hans væri til þess frv. sem er að finna á þskj. 367, um beinar niðurgreiðslur til neytenda, sem líka er flutt af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni ásamt okkur Guðmundi Einarssyni. Þar eru í grg. áréttaðar ýmsar upplýsingar um hvað hér er í húfi. T. d. kemur það fram að ef öll fjárhæð niðurgreiðslna úr ríkissjóði samkv. fjárlögum 1984 væri greidd beint út, þá ætti greiða hverri fjögurra manna fjölskyldu í landinu rösklega 15 þús. kr. sem hún síðan ráðstafaði að vild sinni til lækkunar á neysluvöruútgjöldum. Þetta eru engar smáupphæðir sem hér er um að ræða.

Þetta undirstrikar hvílíkt neytendamál málefni landbúnaðarins eru orðin. Það er ekkert smáatriði í lífskjörum venjulegs launafólks á Íslandi þessar niðurgreiðslur, þessar útflutningsbætur, og fyrstu skrefin í þá átt að draga úr niðurgreiðslunum og reyndar að fara að margra ára gömlum till. Alþfl. um að stíga fyrstu skrefin líka í þá átt að afnema útflutningsbæturnar, sem er auðvitað algjörlega óréttlætanlegur hlutur, ekki síst í því efnahagsárferði sem nú er. Það væri nú orðið fróðlegt, og alveg nauðsynlegt í þessari umr., að fá úr því skorið hver afstaða Alþb. verður í þessu þýðingarmikla máli. Hvort eru þar ráðandi þau sjónarmið sem mér virðist að 7. þm. Reykv. Ólafur Ragnar Grímsson hafi nú tekið undir í vaxandi mæli eða verða það gömlu framsóknarsjónarmiðin sem mér virðist hv. þm. Steingrímur Sigfússon vera enn talsmaður fyrir. Og ekki væri síður fróðlegt að heyra hvað leiðtogi flokksins, formaður flokksins og 1. þm. hér í Reykjavík, hv. þm. Svavar Gestsson, hefði til þessara mála að leggja, því að það er alveg rétt sem fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykv., ræða hans var einn af byrjunarleikjunum í því að boða það, að a. m. k. vildi hann byrja að losa um það faðmlag kolkrabbans sem Alþb. hefur verið í við Framsfl. í þessum málum að undanförnu. Það fór ekkert á milli mála að þm. var að gefa til kynna fyrir sitt leyti stefnubreytingu í þessum málum. Ég tek undir með honum að því leyti og ég veit að þeir þm. sem hlustuðu á ræðuna gera sér grein fyrir því, að ef hann talaði hér máli Alþb. væri hér um veruleg tíðindi að ræða. Ef þetta er hins vegar aðeins sviðssetning, aðeins lítil leiksýning af því tilefni eða til þess sett á svið að bekkjast svolítið við fyrrv. flokksbræður í Framsfl., sætir það náttúrlega minni tíðindum. En þess vegna væri mjög æskilegt að við fengjum að heyra í þessum umr. eitthvað frá þeim Alþb.-mönnum um það, um leið og þeir flytja brtt. eins og þær sem hér liggja fyrir um skuldbreytingar launþega í tengslum við skuldbreytingar bænda, hver afstaða þeirra er til þessara grundvallarþátta landbúnaðarstefnunnar. Eru þeir nú tilbúnir til þess að yfirgefa ríkjandi stefnu Alþb. að því er varðar niðurgreiðslur og útflutningsbætur? Gera þeir sér nú loks grein fyrir því, að þessi framsóknarpólitík í landbúnaðinum er þrátt fyrir allt, þrátt fyrir yfirlýsingar, ekki fyrst og fremst bændum í hag, allra síst þeim sem verst eru settir, heldur er hún fyrst og fremst þeim í hag sem ráða framleiðslu-, dreifingar- og milliliðakerfinu, sem satt að segja samkv. öllum upplýsingum hefur þjónað bændastéttinni í vaxandi mæli verr og verr.

Ég vil að lokum, herra forseti, rifja það enn upp að ég ætlast til þess og vonast til þess, að hæstv. landbrh. komi hér upp í stólinn áður en umr. lýkur og geri þingheimi grein fyrir hvernig hann hugsar sér að leysa það sem er kjarninn í þessu máli, að útvega það fjármagn sem á að fá lánardrottna í þessu máli til að taka við umræddum skuldabréfum. Er hér eingöngu um að ræða erlendar lántökur? Hefur það mál verið rætt í ríkisstj? Var það rætt þegar ríkisstj. samþykkti, að hún mundi útvega þetta fé? Hvenær hyggst ráðh. leggja þessar till. sínar fram? Er eining um það innan ríkisstj. að þetta mál sé af því tagi að það réttlæti nýjar erlendar lántökur? Er það í einhverju samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj. um takmörk á því sviði? Er það í einhverju samræmi við yfirlýsingar í stjórnarsáttmála og yfirlýsingar ekki síst þeirra sjálfstæðismanna um að slíkar erlendar lántökur beri að takmarka við nýjar arðbærar framkvæmdir? Ég vænti þess, hæstv. landbrh., að við fáum að heyra svör við þessum spurningum.