26.03.1984
Efri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4104 í B-deild Alþingistíðinda. (3508)

252. mál, fjarskipti

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna þess sem hv. 2. þm. Austf. sagði um endurskoðun á svona tæknimálum. Mér finnst það liggja alveg í hlutarins eðli að það eru stjórnmálamenn sem eiga að ráða slíkri endurskoðun, en.að sjálfsögðu í samráði og samvinnu við tæknimenn.

Ég átti þess kost í nóv. s. l., m. a. fyrir tilstilli samgrn. og Pósts og síma, að taka þátt í „panel“umræðum á ráðstefnu í Finnlandi, þar sem m. a. var rætt um þessa nýju tækni. Í þeim umræðum tóku þátt bæði tæknimenn og stjórnmálamenn. Þar var einmitt rætt um það að stundum skorti brýr skilnings á milli þessara aðila. Einhver stjórnmálamannanna sagði þá að tæknin væri allt of mikilvæg til að láta tæknimennina eina um hana. Því má náttúrlega svara með því að stjórnmál séu allt of mikilvæg til þess að stjórnmálamenn einir eigi þar við að fást. En ég held að slíka endurskoðun eigi þeir sem endanlega taka ákvarðanir, sem í flestum tilvikum eru stjórnmálámenn, að annast, en það geta þeir auðvitað ekki gert nema í samráði og samvinnu við þá sem gerþekkja tæknina. Kannske er það líka gallinn hjá okkur, að þarna hefur ekki verið nægilega mikið og gott samstarf.

Ég minnist þess úr þessum umræðum að stjórnmálamenn voru spurðir að því af þeim vel þekktu norrænu sjónvarpsfréttamönnum sem stýrðu þessari umr. hvort þeir hefðu einhvern tíma verið sviknir, hvort þeir minntust þess að hafa fengið rangar ráðleggingar, röng ráð eða vond ráð eða rangar upplýsingar frá tæknimönnum í sambandi við töku ákvarðana á þessu sviði. Því svöruðu menn neitandi.

Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að svona endurskoðun þarf helst alltaf að vera á döfinni. En ég vildi bara að þessi skoðun mín kæmi fram, að ég held að það séu stjórnmálamenn sem þar eiga að hafa forustu í góðu samráði og samstarfi við þá sem gerst til þekkja.