27.03.1984
Sameinað þing: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4202 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

184. mál, friðarfræðsla

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Áður en ég hef mál mitt þætti mér vænt um að þm. Halldór Blöndal og Árni Johnsen væru í salnum ef þeir eru í húsinu því ætlun mín var að svara orðum þeirra. (Forseti: Það skal gengið úr skugga um það hvort þeir eru í húsinu.) Sömuleiðis vona ég að hæstv. menntmrh. geti setið þennan fund. (Forseti: Það er þegar upplýst hvernig málin standa. Árni Johnsen gengur í salinn, Halldór Blöndal er ekki í alþingishúsinu.) Kærar þakkir.

Ég vil svara þeim þm. sem tekið hafa þátt í umr. um þáltill. um friðarfræðslu. Þeim sem hafa stutt hana þakka ég góð orð. Mig langar að víkja nánar nokkrum orðum að máli þriggja þeirra þm. sem um málið hafa talað og þá vil ég fyrst víkja að máli hv. þm. Halldórs Blöndal.

Ég fagna því að hann er í hjarta sínu sammála mér og öðrum hv. flm. þessarar þáltill. um nauðsyn þess að búa vel að börnum og enn fremur að friðarfræðsla í sjálfu sér, sú hugsun sem að baki því orði liggur, sé góð. Mér datt í hug þegar hv. þm. minntist á ævagamla þrá mannkyns eftir friði og öryggi hvort það væri ekki einmitt nú sem við ættum möguleika á að koma á friði. Auðæfi jarðar og sú tækni sem við ráðum yfir gerir okkur nefnilega kleift að sjá öllum jarðarbúum farborða. Við getum því nú ef við viljum skapað það réttlæti sem er nauðsynlegt til að leggja grundvöll að friði sem mundi endast. En eins og hv. þm. var mér öldungis sammála um gerir réttlátur friður handa frjálsu fólki kröfu um agað framferði og ég er sammála honum um að við eigum að hafa þetta mjög í huga. Ég er líka innilega sammála hv. þm. þegar hann segir: Friðarhugsunin og friðurinn gerist ekki án fyrirhafnar. Einmitt þess vegna stend ég hér. Og einhvers staðar og alls staðar verður þessi fyrirhöfn að byrja til að draumar hv. þm. og draumar mínir og ævagamlir draumar mannkyns um frið geti ræst.

Þm. minntist á móðurástina, að eitt hið göfugasta við hana væri að móðirin snýst til varnar, er reiðubúin til að fórna lífi sínu ef henni þykir sem öryggi afkomenda sinna sé ógnað. Það lýsir næmri skynjun hjá þm. að taka einmitt þessa samlíkingu. Þráin eftir friði er sammannleg en lífið hefur alltaf átt brýnt og náið erindi við konur. Það hefur treyst þeim til að bera sig í skauti og faðmi. Konur hafa verið og eru enn nátengdar með líkama sínum og starfi tilurð og lokum lífsins. Það hefur verið verkefni kvenna í aldaraðir að hlúa að og sinna ósjálfbjarga og sjálfbjarga lífi. Það er því engin tilviljun að konur hafa tekið frumkvæði að því að varðveita lífið. Konur eiga að sjálfsögðu engan einkarétt á því að bjarga heiminum, en þær eru þrátt fyrir allt fjölmennar og virkar í friðarhreyfingum nútímans. Kannske eru þær nú sem Heimdallar mannkyns, skynja hættuna sterkar en aðrir og vara við henni. Þær ganga friðargöngur, halda fundi og reyna að breyta gangi sögunnar og forða ragnarökum. Með ótrúlegu hugrekki, seiglu og óbílandi trú á lífið hafa konurnar flykkst að herstöðvunum. Og þetta eru ekki bara kvenréttindakonur, harðar baráttukonur. Nei, þetta eru venjulegar konur sem hafa aldrei áður yfirgefið arininn sinn og fylgt skoðun sinni út í lífið og óvissuna. Þær koma og syngja framan í hermennina og brosa, en þeir verða óöruggir því að þeim var aldrei kennt að verjast söng eða brosum. Þær skreyta veggi herstöðvarinnar með myndum af ástvinum sínum og vefa marglita þræði í víggirðingarnar. Þær klifra yfir girðingarnar og veggina og láta taka sig fastar, í fyrsta skipti á ævi sinni sem margar þeirra hafa óhlýðnast nokkrum. En eins og ein kona sagði: Ef lög mannanna brjóta gegn lögum guðs og lögum lífsins, þá brýt ég lög mannanna. En engan meiða þær og engum sýna þær ofbeldi. En þær reyna með mennsku sinni og hlýju að breyta eðli herstöðvarinnar og vísa þessum vegvilltu drengjum og körlum leiðina út úr völundarhúsi úrræðaleysisins og þannig ganga þær erinda lífsins og friðarins. Og ég segi ykkur: Þessar konur eru hetjur. Það mun koma á daginn síðar ef við glötum ekki sjálfum okkur og sögunni á undan. Er það ekki einmitt með því að virkja þessa göfugu eða frumstæðu hvöt, móðurástina, til varnar ungviðinu sem við getum eygt leið til bjargar fyrir mannkynið allt?

Hv. þm. taldi mig hafa svör á reiðum höndum um það hvaðan mannkyninu stafaði ógn. Ég tel mig hafa réttilega bent á þá ógn sem ég sé stærsta og mesta fyrir líf á þessari jörð: kjarnorkuvopnin.

Hv. þm. Halldór Blöndal, Árni Johnsen og Jón Baldvin Hannibalsson töldu mig allir leggja að jöfnu lýðfrjálsar þjóðir og aðrar sem búa við ofbeldi og lögregluríki. Það er ekki rétt. Ég bar aldrei saman gæði þjóðskipulaga. Það sem ég gerði var að leggja að jöfnu framlag beggja stórvelda til að fylla vopnabúr heimsins og þá hættu sem þau byðu mannlífi og öðru lífi á þessari jörð upp á með slíku athæfi. Það var rétt hjá hv. þm. að ég tel að sömu eða sambærilegar mannlegar hvatir ráði vígbúnaði hvort sem hann fer fram austan einhverrar línu eða vestan, norðan eða sunnan, ótti, tortryggni, hatur, græðgi svo eitthvað sé nefnt. Löngun til að fjarlægja kjarnorkuvopn úr vopnabúri heimsins er ekki jafnframt löngun til að gangast undir sovéskt þjóðskipulag, því fer fjarri.

Hv. þm. Halldóri Blöndal finnst athyglisvert að í markmiðum friðarfræðslu sé ekki vikið að því að fræða um ágæti lýðræðisskipulags. Vitanlega hlýtur fræðsla um stjórnkerfi að verða hluti af þeirri viðleitni að skilja þjóðir og samskipti þeirra og möguleika manna til að varðveita frið. Hin flóknu vandamál sem blasa við okkur þurfa nemendur að skilja glögglega um leið og þeir eru sér meðvitaðir um þau forréttindi sem þeir njóta með því að búa í lýðræðisþjóðfélagi. Það þýðir líka að þeir verða að sinna lýðræðislegum réttindum sínum til að skapa samfélag og veröld án ófriðar. Okkur hlýtur að varða miklu að í lýðræðisþjóðfélagi séu unglingum ljósar meginstaðreyndir í meiri háttar málefnum. Að þeir heyri röksemdir um allar hliðar mála og geti síðan myndað sér skoðanir. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja það að nemendur fái yfirvegaða mynd af hverju máli þar sem fyllsta jafnvægis er gætt við kynningu málsins.

Ég er þess fullviss að við getum treyst kennurum til þess og furða mig á því að nokkur skuli efast um hæfni þeirra til að tryggja slíkt. Um viðkvæm málefni, hvort sem þau eru stjórnmálalegs, félagslegs eða persónulegs eðlis þarf að sjálfsögðu að fjalla af nærgætni. Og það eru vitanlega skiptar skoðanir um mörg málefni er varða daglegt líf okkar og framtíð. Oft eru þetta sterkar skoðanir og andstæðar, en röksemdir þeirra þurfa unglingar engu að síður að þekkja ef menntun þeirra á að stuðla að því að þeim takist að gera veröld sína öruggari og betri til búsetu.

Hv. þm. Halldór Blöndal talar um það, með leyfi forseta, að undir engum kringumstæðum sé hægt að fallast á það að hægt sé að ástunda friðarfræðslu án sannleika, án hreinskilni, án viðurkenningar á því að til þess að við getum uppbyggt jörðina .í friði áfram verðum við að læra að bera meiri virðingu hvert fyrir öðru. Þarna er ég honum alveg sammála nema hvað það erfiða með sannleikann er að hann er ekki einn og svo er hann líka afstæður. Sannleikur Jóhannesar úr Kötlum, sem hv. þm. vitnaði í, og þm. Halldórs Blöndal um frið er ólíkur og e. t. v. ekki samrýmanlegur. En einmitt, eins og hv. þm. segir, við verðum að læra að bera meiri virðingu hvert fyrir öðru og byrja að hlusta hvert á annað, komast í kallfæri, eyða tortryggni, óvinaímyndum, komast að því að þrátt fyrir erjur valdhafa, eigin fordóma, uppeldisleg áhrif og einangrun erum við öll manneskjur sem eigum svipaða drauma, þarfir og þrár og leiðir okkar munu fremur liggja saman ef við gefum hvert öðru tækifæri, hlustum á hugmyndir hvers annars og reynum að samrýma í stað þess að sundra.

Hv. þm. saknar þess að ekki skuli fræðslu í kristindómi ætlaður staður meðal markmiða friðarfræðslu. Friðarboðskapur og siðfræði kristinnar trúar á mikla samleið með markmiðum friðarfræðslu en ekki þótti ástæða til að finna henni sérstakan stað þarna af því að kristnifræðsla er þegar viðurkennd námsgrein í skólum.

Þm. sagði það mikla lífsreynslu að upplifa að 79 tillögur í friðarátt voru samþykktar í fyrstu nefnd Sameinuðu þjóðanna á einni viku. Jafnframt að á þessu þingi Sameinuðu þjóðanna hefði ekki einn einasti maður tekið til máls sem ekki sagði að æðsta boðorð síns lands væri að stuðla að friði á jörðu. síðan vék þm. að uggvænlegu ófriðarástandi í heimsmálum sem þessar þjóðir ættu þátt í. Ekki tel ég að þetta útiloki hvað annað. Miklu fremur undirstrikar þetta þá gömlu staðreynd að andinn er reiðubúinn en holdið er veikt.

Ég er líka sammála hv. þm. um það að það er jafnsárt fyrir einstaklinginn og engu réttlátara að deyja af völdum hefðbundinna vopna en kjarnorkuvopna. Munurinn er bara sá að fjöldi einstaklinga sem mun deyja ef kjarnorkuvopnum verður beitt og þau áhrif sem slík vopn mundu hafa á lífríkið allt eru á engan hátt sambærileg við áhrif hefðbundinna vopna. Þess vegna er sú leið ofbeldis, hernaðar og ógnarjafnvægis, sem þjóðir heimsins hafa farið til að ná fram vilja sínum og staðfesta mátt sinn, alls ekki lengur viðunandi, þótt hún hafi í reynd og alveg réttilega aldrei nokkurn tíma verið viðunandi, eins og hv. þm. benti á.

Hv. þm. benti á að það vanti allar forsendur fyrir því að afvopnun geti átt sér stað vegna þess að það vantar gagnkvæmt traust milli þjóða og vegna þess að ein þjóð hefur ástæðu til að tortryggja aðra. Þetta er einmitt lykilatriði og einmitt ein af þeim gjám sem við þurfum að byggja brú yfir á hinni fyrirhafnarsömu leið okkar til friðsamlegra samskipta. Hin staðlaða sýn sem margar þjóðir hafa nú hver af annarri torveldar öll samskipti. Með því að eyða hleypidómum og tortryggni og auka verulega vísindaleg, tæknileg og menningarleg samskipti, ferðamennsku og verslun væri hægt að opna nýjar friðsamlegar leiðir milli óvinaþjóða, eins og t. d. Sovétríkjanna og Bandaríkjanna.

Þm. spyr hvernig að slíkri fræðslu eigi að standa, með hvaða hugarfari og af hverjum. Hann sagði að ekkert hefði komið fram í þessari löngu ræðu minni um það hvernig ég hugsaði mér að staðið yrði að fræðslu, t. d. um útrýmingu kjarnorkuvopna, og þær áherslur sem ég vildi þar leggja þyngstar. Nú er það svo; eins og ég gat um í framsögu minni og tel að sé rétt skilið hjá mér, að það er ekki hlutverk Alþingis eða alþm. að hanna námsefni handa börnum landsins, og því eðlilegt að þessi fræðsla og hönnun og val námsefnis fyrir hana verði tekin upp í tengslum við þá námsefnisgerð og það þróunarstarf í skólum sem nú er .unnið að. Að þessari kennslu hlýtur að verða staðið eins og annarri sem við treystum kennurum fyrir að miðla til barna okkar. Ég sé ekki meiri ástæðu til að vantreysta þeim í þessum efnum en öðrum. Námsefni til þessarar fræðslu þarf að hanna sem fyrst og það er síðan að sjálfsögðu háð samþykki þeirra sem bera ábyrgð á vali og gerð annars námsefnis handa börnum og unglingum.

Þm. spyr hvort ég telji rétt að skýra í skólum og þá hve snemma tilgang Atlantshafsbandalagsins og það sem stofnun þess hefur leitt af sér. Það hlýtur að vera eðlilegur og sanngjarn hluti af námsefni í friðarfræðslu að kynna fyrir nemendum hvernig þjóðir heimsins hafa talið og telja öryggi sínu best borgið. Það hlýtur að vera eðlilegt að kynna börnum þá valkosti sem menn hafa búið við og það ástand sem ríkir og hefur ríkt.

Ég hef ekki haldið því fram, eins og hv. þm. gefur í skyn, að friðarfræðsla í íslenskum skólum geti orðið einhver örlagavaldur um það hvort kjarnorkuvopn haldi áfram að vera í heiminum eða ekki. En eins og ég sagði í framsögu minni, hvert og eitt okkar skiptir máli til að mynda það almenningsálit sem leyfir ekki stjórnmálaleiðtogum eða öðrum valdhöfum að grípa til hernaðarlausna eða halda áfram uppteknum hætti í umgengni við þessa jörð.

Þm. ræddi um gönguferð sem ég tókst á hendur í Bandaríkjunum s. l. sumar ásamt norrænum konum og sagðist mundu verða mjög ánægður yfir því ef ég gerði mér sams konar gönguferð fyrir austan tjald. Til þess er ég svo sannarlega fús og tel einmitt að það sé afar nauðsynlegt að gera þannig friðsamlega „innrás“ til að auka skoðanaskipti og tengsl milli almennings austan hafs og vestan og reyna að hafa áhrif á valdhafa. Til upplýsingar vil ég segja þm. að fyrsta friðarganga norrænna kvenna var farin sumarið 1981 frá Kaupmannahöfn til Parísar. Eftir þá göngu sögðu menn: Ykkur væri nær að ganga til Rússlands. Konurnar gerðu þessi orð að veruleika og næsta sumar, árið 1982, fóru þær frá Stokkhólmi um Helsinki til Moskvu og Minsk. Árið 1983 lá svo beint við að heimsækja hitt stórveldið. Það var þriðja friðarganga norrænna kvenna sem við tvær íslenskar konur tókum þátt í; frá New York til Washington. Í sumar ætla svo norrænar konur að reka friðarbúðir í nágrenni Stokkhólms og í tengslum við Stokkhólmsráðstefnuna.

Hv. þm. Halldór Blöndal talar um, með leyfi forseta, fyrstu „uppgjöf friðarfræðslunnar þegar hún segir í sinni skilgreiningu að ekki megi reyna að hafa áhrif á að breyta þjóðfélagsgerð einstakra landa. Því að með ,því erum við í raun og veru að segja að okkur varði ekkert um það þó að menn séu píndir, deyddir, þeim sé tortímt í öðrum þjóðlöndum.“ En þm. má ekki gleyma því að hann sjálfur mundi ekki sætta sig við óskahugmyndir Jóhannesar úr Kötlum, þar sem hann skilgreindi fyrirmyndarríki, hvað þá ýmissa annarra skoðanabræðra hans. Og þm. mundi ekki vilja að friðarfræðsla miðaði að því að koma yfir hann slíku skipulagi. En það að ólíkir skoðanahópar séu í kallfæri og geti talast við skapar frumskilyrði fyrir víxlfrjóvgun hugmynda: Þannig verður kannske virkasta leiðin til að forða fólki frá pyntingum, dauða og tortímingu.

Þm. lauk máli sínu með því að segja, með leyfi forseta:

„Ég get undir það tekið að margt af því sem hér er sagt sem markmið friðarfræðslu eigi rétt á sér. En ég er á hinn bóginn í miklum vafa um að hægt sé að gera þessu öllu skil sem þarna er talið upp. Ég held,“ segir þm., „að aðeins lestur þessara níu liða, sem þarna eru til tíndir, sýni okkur að þarna er færst of mikið í fang ef hugmyndin er að koma þessu öllu til skila á barnaheimilum landsins eða í grunnskólum. Ættu flestir erfitt með að skilja til fulls það sem þarna er talað um, þó að þeir eyddu ævi sinni í að reyna að skýra það svo að viðunandi væri.“

Þm. talaði um kristna trú. Þó að Biblían sé bæði stór og erfið bók, full af boðskap sem gerir miklar kröfur um skilning manna og hegðun, hafa menn ekki látið það fæla sig frá því að kenna þessa bók og boðskap hennar, jafnvel litlum börnum. Hefur þar hver staðið að eftir sínum skilningi og getu, jafnt foreldrar sem skólar auk kirkju, og hefur þetta þótt sjálfsagt og gott atferli. Ég tel að sú heimsmynd og siðfræði sem fram kemur í Biblíunni sé mun viðameiri og erfiðari í framkvæmd en þeir níu liðir sem tíndir eru til sem hugsanleg markmið friðarfræðslu. Og menn hafa sannarlega eytt ævi sinni í að reyna að skýra Biblíuna svo að viðunandi væri. Ég held því að engin ástæða sé fyrir hv. þm. að bera kvíðboga fyrir því þótt verkið sé erfitt. Eins og hann sjálfur sagði, með leyfi forseta: „Auðvitað fæst ekki friður án fyrirhafnar.“

Hv. þm. Árni Johnsen taldi mig hafa borið brigður á það að kennarar hafi sinnt friðarkennslu. Því fer fjarri. Og ég vil vekja athygli hans á því sem stendur í grg. þáltill. um friðarfræðslu, með leyfi forseta:

„Það er því full ástæða til þess að vekja athygli á því sem þegar hefur verið gert í þessum efnum, styðja það og efla þannig að kennurum sé gert kleift að sinna þessu verkefni svo sem þeim ber skylda til.“ Jafnframt vil ég benda hv. þm. á ályktun frá stjórn og skólamálaráði Kennarasambands Íslands, sem hafa fjallað um þessa þáltill., en ályktun þeirra hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn og skólamálaráð Kennarasambands Íslands styðja heils hugar þáltill. þá um friðarfræðslu sem lögð hefur verið fram á Alþingi af fulltrúum úr öllum stjórnmálaflokkum. Fræðslan sem hér um ræðir hefur að sjálfsögðu farið fram í þeim stofnunum sem nefndar eru í till., en skort hefur á að hún væri tengd öðru námi og tekin fyrir á markvissan hátt. Stjórn og skólamálaráð Kennarasambands Íslands harmar þær hártoganir og rangtúlkanir sem heyrst hafa um till. þessa.

Til upplýsinga skal á það bent að kennarar hafa sýnt máli þessu áhuga, t. d. með stofnun samtaka kennara um friðaruppeldi sem nú bætist í hóp annarra friðarsamtaka í landinu og friðarsamtaka kennara á Vesturlöndum.“

Ég skil ekki hvernig nokkrum manni, sem hefur haft afskipti af 4ra, 5, 6, eða 7 ára börnum, dettur í hug að eðlilegt geti verið að kenna þeim harðvítuga pólitík hversdagslífsins í alþjóðamálum, eins og hv. þm. Árni Johnsen orðar það. Ég taldi mig hafa vikið nægilega skýrt að mögulegu námsefni fyrir slíka aldurshópa í framsögu minni til að fyrirbyggja svo fjarstæðukennda útúrsnúninga. Þm. talaði um friðarkjaftæði og friðarhjal með nokkurri lítilsvirðingu. Hann studdist mikið við Biblíuna í máli sínu og vil ég í þessu sambandi benda honum á ritningargreinina Matt. 5.9. Sömuleiðis vil ég minna hv. þm. á það hver urðu endalok friðarhöfðingjans Jesú Krists í þessum heimi og biðja hann að hugleiða hvaða eiginleikar og hvatir samtímamanna Jesú réðu úrslitum um afdrif hans.

Friðarfræðsla er ekki útilokun eða gagnrýni á kristnifræðslu nema síður sé. Þó að mannseðlið sé svipað nú og á dögum Krists eru vandamál okkar að ýmsu leyti ólík vegna þeirrar tækniþekkingar sem við búum yfir. Þess vegna er okkur nauðsynlegt að breyta áherslum og nálgun í samræmi við það.

Það er rétt hjá hv. þm. að það er óviturlegt að vekja fyrst og fremst ótta með litlum börnum gagnvart einhverju sem þau skilja ekki og ráða ekki við. En því má ekki gleyma að óttinn kemur til þeirra úr umhverfinu fyrr en síðar og besta vörnin gegn óttanum er þekkingin. Og það er hún sem þarf að miðla í samræmi við þroska og getu barna til að skilja. En fyrst og fremst miðar friðarfræðsla barna að því að gera þeim kleift að ráða friðsamlega við vandamál í nánasta umhverfi en ekki að kynna þeim neinn Stórasannleika um alþjóðastjórnmál eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson minntist á.

Árni Johnsen vitnar í orð mín þar sem ég lýsi vísindamanni sem finnur upp drápsvélar á daginn, fer síðan heim og lifir eðlilegu fjölskyldulífi á kvöldin, án þess að setja framtíðaröryggi fjölskyldu sinnar í samhengi við eigið dagsverk. Síðan segir þm., með leyfi forseta:

„Hvað meinar þm. með slíku hjali? Hvað liggur á bak við það lífsmynstur sem Kvennalistaþm. stillir þarna upp til lítillækkunar karlmanninum? Við hvaða sjálf er þm. að berjast og hvað er það sem truflar? Væri ekki í anda friðar að benda þá á eitthvert atriði sem væri jákvætt fyrir karlmanninn, t. d. það að það munu vera karlmenn sem hafa fundið upp öll þau heimilistæki sem notuð eru í þessu landi og víðar um heim? Er ástæða til að kyngreina mistök á þennan hátt?“

Ég er ekki viss um að hv. þm. hafi skilið orð mín eins og þau voru meint. Þm. talar um að ég kyngreini mistök og minnist ekki á öll þau góðu tæki sem karlar hafi fundið upp handa konum til að létta þeim heimilisstörfin. En þm. hlýtur að vera sammála mér um það að það eru ekki saumavélar og ryksugur sem ógna afkomu lífs á þessari jörð, heldur kjarnorkusprengjur. Ef karlar hafa í reynd fundið upp heimilistæki fyrst og fremst handa konum, þá hafa þeir líka fundið upp vopn og kjarnorkusprengjur fyrst og fremst handa sjálfum sér. Þessari kyngreindu áherslu bera karlar því fyrst og fremst ábyrgð á. Það vakti ekki fyrir mér að leggja áherslu á kyn þess vísindamanns sem ég lýsti í framsögu minni, heldur vildi ég undirstrika þann hættulega skort á tengslum milli huga og hjarta sem ég held að ríki í fari hans. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það við hv. þm. að það eru ekki karlmenn eða hugvit þeirra sem Kvennalistakonur berjast gegn. Það eru miklu fremur þeir eiginleikar árásargirni og valdbeitingar sem lögð hefur verið meiri áhersla á í fari karla en kvenna og komið hafa ríkar fram hjá mörgum körlum, einkanlega þeim sem farið hafa með völd. Barátta okkar er m. a. gegn því að þessir eiginleikar fái að ráða gangi mála.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því yfir að honum þætti eiginlega í aðra röndina hálfleiðinlegt að lýsa efasemdum sínum um ágæti þessarar þáltill. Ég fagna því að honum skuli a. m. k. hálfleiðast þessi afstaða sín. En hv. þm. efast um getu skóla sem uppeldisstofnunar og getu einstaklinganna til að rísa gegn valdbeitingu og ofbeldi valdhafa. Hann kemur víða við í mannkynssögunni máli sínu til stuðnings og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé erfitt að vera friðarsinni andspænis ofbeldi heimsins. Hann minnist á þær milljónir sem lágu í valnum að ráði fjöldamorðingja eins og Hitlers og Stalins og vitnar til ritgerðar Orwells um Gandhi og hinn vopnlausa mótþróa sem hann beitti. Orwell kemst að þeirri niðurstöðu að Gandhi hefði ekki sætt jafnmannúðlegri meðferð hjá þeim Hitler og Stalín og hjá Bretum. Þeir fyrrnefndu hefðu einfaldlega tekið hann af lífi áður en honum hefði tekist að koma kenningum sínum áleiðis eða beita þeim lengi. Það má rétt vera. En einu má ekki gleyma. Hitler og Stalin voru ekki einir við þessi dráp sín. Þeir fönguðu hugi og hendur annarra til að framkvæma verk sín. Alveg eins og Orwell dregur þá ályktun að Gandhi hefði ekki getað boðið veldi Hitlers og Stalins byrginn leyfi ég mér að draga þá ályktun að Hitler og Stalin hefðu að öllum líkindum ekki komið áformum sínum í framkvæmd ef þýska þjóðin og rússneska þjóðin hefðu notið friðarfræðslu. Menn hefðu þá e. t. v. ekki reynst eins ginnkeypt fórnarlömb fyrir áróðri eins og raun bar vitni, né heldur orðið handbendi slátrara í skjóli hlýðni og með því að firra sig persónulegri ábyrgð. Einir hefðu Hitler og Stalin ekki áorkað miklu.

Hv. þm. lýsir því hvernig hann haldi að skóli í lýðræðisþjóðfélagi hljóti að vera og vitnar í námsskrá grunnskóla. En hann efast um getu skólans til að sinna uppeldishlutverki gagnvart börnum þar sem samtvinnuð tengsl margra aðila koma til við að móta skoðanir, ráða uppeldinu; t. d. heimili, aldursfélagar, fjölmiðlar, umhverfið allt og tíðarandinn. En ég spyr: Getur skólinn gefist upp fyrir fram, dæmt sig úr leik vegna þess að hann hefur ekki afgerandi hlutverk til mótunar? Verður ekki skólinn jafnt sem aðrir uppeldisaðilar að mæta þessu hlutverki, að búa einstaklingana undir lífið? Og sé það rétt, sem hv. þm. heldur fram, að skólinn sé ekki áhrifamikill aðili til uppeldismótunar miðað við marga aðra þætti, sem þar koma til mótvægis, hvernig dettur þá þm. í hug að skólinn geti orðið svo einráður í áróðri eins og hann óttast?

Hv. þm. spyr eins og aðrir á undan honum: Hvað er friðarfræðsla og hvernig á að koma henni á framfæri? Má ég taka dæmi úr námsefni sem sniðið var fyrir skóla í Nottinghamhéraði í Englandi. Eitt af tilgreindum markmiðum friðarfræðslu, sem kemur fram í umræddri þáltill., er að skilja þýðingu og hlutverk friðar og rækta hæfileika til að leita friðar í samskiptum einstaklinga, hópa og þjóða. Í þessu sambandi má spyrja eftirfarandi spurninga:

1. Fá nemendur tækifæri til að kanna merkingu og hin ýmsu skilyrði þess að friðarástand geti ríkt á mismunandi sviðum samfélagsins?

2. Er skólinn stofnun sem ræktar friðsamlegt samstarf og anda persónulegrar ábyrgðar?

3. Eru nemendur hvattir til að sviðsetja og leika atriði sem skipta máli fyrir friðsamlega sambúð, t. d. ýmsar mögulegar úrlausnir deilna?

Hugsanlegt námsefni til að nálgast þetta markmið gæti verið:

a. Tungumálakennsla, annaðhvort eigið mál eða erlent. Skilgreining hugtaka á því máli.

b. Athugun á stofnunum sem hafa það verkefni að leita friðar og leysa deilur innan fjölskyldna, í persónulegu lífi einstaklingsins, á vinnumarkaðnum, á þjóðar- og alþjóðamælikvarða.

c. Rannsaka hina ýmsu þætti deilna og leika hlutverk málsaðila. Prófa ýmsar lausnir á þessum deilum.

d. Skoða Mannréttindaskrá sameinuðu þjóðanna.

e. Söguleg athugun á þeirri staðreynd að ekki hefur tekist að varðveita frið í heiminum.

f. Athugun á hlutverki hinna ýmsu trúarbragða heimsins við að leita friðar.

— Þarna mætti t. d. hv. þm. Árni Johnsen tengja friðarfræðslu og kristnifræðslu, eins og minnst hefur verið á. —

Annað markmið friðarfræðslu er tilgreint að glæða ábyrgðartilfinningu fyrir eigin ákvörðunum og gerðum. Og þarna komum við aftur að þeim sem framkvæmdu áform Hitlers og Stalins t. d.

Í þessu sambandi mætti spyrja eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða tækifæri er nemendum boðið upp á til að bera persónulega ábyrgð?

2. Hvaða stefnu tekur skólinn gagnvart árásarhvöt, kúgun og öðrum tegundum ofbeldis eða andfélagslegrar hegðunar?

3. Að hve miklu leyti geta nemendur valið um námsferil sinn?

Viðeigandi námsefni til að ná þessu markmiði gæti verið:

a. Athugun á fjölskyldulífi til að koma auga á ábyrgðarhlutverk og hvernig á að skilgreina þau.

b. Athuga hvaða tækifæri gefast til að stunda lýðræði innan skólans, t. d. stofnun nemendaráðs sem tæki virkan þátt í mátefnum skólans.

c. Athugun á friðarsinnum og afdrifum einstakra friðarsinna, þar með talin dæmi úr mannkynssögunni.

d. Athugun á hugmyndum um lagalegan rétt og ábyrgð og siðferðilegan rétt og ábyrgð.

e. Hlutverk og ábyrgð vísindamannsins við þróun nýrra vopnakerfa.

Fimmti liður í upptalningu markmiða friðarfræðslu er að þekkja ýmsa líffræðilega og félagslega þætti sem hafa áhrif á mannlega hegðun. Þennan lið taldi hv. þm. Halldór Blöndal geta orðið töluvert flókinn að skilja og gæti tekið töluverðan tíma að koma honum til skila. I tengslum við þennan lið mætti spyrja eftirfarandi spurninga:

1. Eru einhverjar aðferðir sem má nota til að hvetja nemendur til að fá útrás fyrir árásarhvöt?

2: Hvaða ráðleggingastefnu hefur skólinn tekið upp til þess að hafa áhrif á hegðun í skólanum?

3. Hver er stefna skólans gagnvart ofbeldishneigðri og árásargjarnri hegðun nemenda utan skólans? Mögulegt námsefni til að nálgast þetta markmið gæti verið:

a. Athugun á árásargirni og samstarfi meðal annarra dýrategunda. Getur árásargirni einhvern tíma vérið réttlætanleg? Og þá dettur mér í hug — þarna skyldu þó aldrei komnir bavíanarnir sem urðu hv. fyrrv. þm. Sighvati Björgvinssyni svo hugleiknir í skrifum hans um samfélagsfræði.

b. Athugun á hegðunarmynstrum og goggunarröð, t. d. í bekknum eða á leikvelli.

c. Samanburður á kjarnafjölskyldu og stórfjölskyldu og áhrif þeirra á samfélagið.

d. Athugun annarra þátta eins og húsnæðis, félagslegrar velferðar, atvinnu, heilsugæslu, menntunar og hefða.

e. Kynhlutverk í ýmsum þjóðfélögum, t. d. kúgun og frelsisbarátta kvenna.

f. Hergagnaiðnaður og atvinna.

Þessi dæmi sem ég hef nefnt hér eru engan veginn tæmandi eða algild, en þau gefa e. t. v. hugmynd um það hvernig hægt er að framkvæma friðarfræðslu.

Mér þykir það athyglisvert að þeir þrír hv. þm. sem ég hef reynt að svara virðast allir óttast og hafa meiri áhyggjur af friðarfræðslu en kjarnorkuvopnum. Hjá mér er þessu þveröfugt farið. Ég er miklu hræddari við kjarnorkuvopn en friðarfræðsla. Og ég er ekki ein um þann ótta. Hann hefur þegar rekið marga á fætur og opnað munn þeirra til andmæla. Sú hætta sem þessi vopn bjóða mannlífi og öðru lífi þessarar jarðar upp á er slík að við hana er ekki hægt að sættast.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði að það væri erfitt að vera friðarsinni. Það má vera. Þó hlýtur að vera enn erfiðara hlutskipti að skilja ógn kjarnorkuvopna en andæfa þeim ekki. Við verðum að sameinast um útrýmingu þessara vopna úr vopnabúrum heimsins. Hér er enginn að tala um einhliða afvopnun. Slík afvopnun yrði vitaskuld að vera gagnkvæm og að henni verðum við að stuðla á hverjum þeim vettvangi sem okkur býðst. En jafnvel þótt við útrýmum öllum þeim kjarnorkuvopnum sem nú eru til þá getum við ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að með okkur býr þekkingin um það hvernig á að smíða slík vopn. Þess vegna segi ég: Mannkyn, sem kann að smíða kjarnorkuvopn, þarfnast friðarfræðslu til að kunna að forðast sinn eigin dauðadóm.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig að biðja hæstv. menntmrh. að lýsa afstöðu sinni til þessarar þáltill. þegar ég hef lokið máli mínu.

En að lokum ætla ég að lesa með leyfi forseta, ljóðið Friður eftir finnska konu Anneli Pääkkönen:

Friður

Á landabréfi einhvers

erum við öll óvinir

ég og hún Helsinki mín prjónum stungnar

staðir væntanlegrar eyðileggingar

þú og brýrnar þínar í París

hann og ljósin hans í Istanbul

torgin í Moskvu og bílastæðin í Washington

bjórkrúsirnar á kránum

frýsandi hestar í fjölleikahúsinu konurnar á leið í brauðbúðina

fjarlæg þorp við jaðar eyðimerkurinnar

hinir þyrstu sem safnast saman við brunninn

við erum öll óvinir

við

með heimilin okkar börnin okkar kettina okkar

við erum óvinir í augum þeirra

sem trúa á hjálpræði eyðileggingarinnar

þeirra sem eta dag hvern

af skilningstrénu með guði sínum

við erum óvinir í augum þeirra

sem trúa að þeir geti greint milli valds

hins rétta og ranga

það eru þeir sem hafa skipt heiminum

alveg eins og eitrið skiptir

klofinni tungu höggormsins

sem hafa stungið í okkur prjónum

á landabréfum sínum

í börnin okkar eldhúsið kaffikönnuna

söngvar okkar og faðmlög eru óvinir þeirra

þeir sjá okkur ekki

niðri í jörðinni stara þeir á landabréfin sín

á skjáina sína og á deplandi ljós huggara sinna

þeir sjá okkur ekki

en augnalausir og hjartalausir

einblína kjarnoddar eldflauga þeirra á okkur

þeir eta af skilningstrénu á hverjum degi

og trúa því að manninum vaxi sverð í annarri hendi

og rós í hinni

þeir trúa því að sverðið geti rétt rósinni hönd sína

án þess að höggva hana

sérhver þeirra trúir því

að hann geti hamið höggorminn

sérhver þeirra trúir því að hann sé sá eini

sem sitji með guði sínum í hinum vitra skugga

skilningstrésins

hið blindandi vald siðfræði sinnar

hafa þeir hamrað í glitrandi mynt

þeir geta ekki séð

rétt eins og barnið verður ekki séð

handan við skýjakljúfinn

rétt eins og sólin og stjörnurnar verða ekki séðar

úr neðanjarðarbyrgjum

lífverðir þeirra varna því

að þeir geti faðmað ástvini sína

nifteindahugsanir þeirra undir skotheldum vestum

eyðileggja hið lifandi

með banvænu bleki skrifa þeir í dagblöðin

að við séum óvinir

að við höfum hættulegar hugsanir

séum undarleg í háttum

höfum brenglaðar tilfinningar

og sýnum fáránlegan einfaldleika

að við séum hjákátleg að rækta rósir í hverjum lófa

þeir fá okkur til að trúa því

að við verðum að búa okkur undir það

að verða fórnarlömb

svo að þeir geti haldið áfram í friði

að eta af skilningstrénu með guði sínum

þeir eiga dagblöðin og fyrirsagnirnar

þeir eiga verksmiðjurnar og brauðgerðirnar

en þeir eiga okkur ekki

við getum rétt fram hönd og rós við

getum grafið sverðið og neitað

að hneigja okkur fyrir nifteindum og atómum

við getum hrópað yfir öll landamæri þeirra

til annarra sem eru í okkar mynd:

við erum vinir!

við getum veifað hvítum fánum og rauðum rósum

við getum hafið á loft rauða fána og hvítar rósir

við getum sameinað litina

og saumað hlýtt teppi handa hverju barni

hlustið!

hlustið á hlátur hvaðanæva úr heiminum

hlustið á söngvana í öngstrætunum á þjóðvegunum

á ökrunum og út um opna gluggana

sendu friðarkveðju

rétt eins og þú ferð í skóna á hverjum morgni

orð friðarins tilheyra jafnt þeim sem eiga skó

og þeim skólausu

við eigum vini alls staðar

hvaðanæva úr heiminum heyrist ómur

af fótataki barna

sem eru að læra að ganga eftir hljómfalli friðarins

að ganga erinda friðarins

börnin skipta ekki heiminum niður

í veggjuð valdasvæði

þessi börn deila heiminum með hverjum og einum

eins og þú deilir hlýjunni undir teppinu þínu

með ástvini

börnin bera með sér frið

eins og morgunninn ber með sér dagsbirtuna

og jörðin ber grasið

eins og þú deilir brauði þínu með svöngum gesti

þess vegna segi ég þér

þér sem heldur nú að þú sitjir með guði þínum

við sama borð

ég aðvara þig

ef þú skipar þessum börnum

ef þú skipar þeim að beina kjarnaoddum dauðans

að heimilum og sólskininu í bakgarðinum

að mér og öllum í minni mynd þá munu börnin segja: Nei

á öllum tungumálum munu þau segja: Nei

megi það orð lama hendur ykkar

og verk þeirra sem þið skiljið ekki

megi hótanir ykkar falla þöglar

megi andlit sannleikans ljóma fyrir þræla ykkar

andlit sannleikans

einfalt og opið

og einmitt hér: andlit mitt

andlit þitt

andlit barna okkar

lifandi andlit

andlit svo nálæg

að þú getur kysst þau

það er ekki hægt að deyða andlit

sem hafa verið kysst.