27.03.1984
Sameinað þing: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4215 í B-deild Alþingistíðinda. (3589)

184. mál, friðarfræðsla

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur till. til þál. um friðarfræðslu. Kjarni hennar er sá að hefja eigi undirbúning að frekari fræðslu um frið á dagvistarstofnunum, í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Það er nú svo. Ekki veit ég hverju þeir sem þetta sömdu telja að þurfi að breyta í starfsháttum skóla og í námsskrá skóla. Ef ég lít yfir þau tímabil sem ég hef stundað kennslu er fyrst og fremst tvennt sem kemur upp í hugann þegar árásarhvöt hefur verið fullnægt. Það eru annars vegar busavígslur á Íslandi og hins vegar kappleikir milli skóla. Leggja menn til að busavígslur verði aflagðar, já eða nei? Þær eru ofbeldi, grímulaust ofbeldi oft á tíðum. Leggja menn til að kappleikir milli skóla verði aflagðir þar sem þeir vissulega veita árásarhneigð útrás? Þessar spurningar hljóta að vakna þegar menn spyrja hverju menn vilji breyta. Því aðalatriðið er að gera sér grein fyrir því um hvað menn raunverulega eru að tala þegar þeir vilja breytingar á núverandi ástandi. Eru það þessi atriði sem á að taka fyrir?

Ég hygg að Chamberlain hafi verið jafneinlægur friðarsinni og þeir flm. eru sem hér eru. Ég hef enga ástæðu til að efa það og sennilega hefur ekki annar þjóðhöfðingi talið sig hafa merkari boðskap að flytja sinni þjóð en þegar hann tjáði Bretum eftir viðræður við Hitler að hann gæti ábyrgst frið um vora daga. Friður um vora daga var það sem hann boðaði. Okkur er tjáð að friðarfræðsla sé hafin í Bretlandi, en sennilega hefði hún bjargað hefði hún verið til í Þýskalandi eða Rússlandi á sínum tíma. Hvað brást með Falklandseyjastríðið? Höfðu þessir menn aldrei fengið neina friðarfræðslu í Bretlandi sem þangað voru sendir? Er breska skólakerfið svona götótt? Hvað brást? Skutu þeir ekki hiklaust menn skv. fyrirskipun? Veit nokkur um liðhlaupa í þeim sveitum sem þangað voru sendar? Er þessi friðarfræðsla í Bretlandi ekki betri en þetta? Er verið að tala um að það eigi að innleiða friðarfræðslu á Íslandi að svipaðri gæðakröfu? Er réttlætanlegt að við hér í þinginu ættum að fara að dæma þýsku þjóðina fyrir skort á menningu eða þá rússnesku vegna þess að Hitler og Stalin stóðu að fjöldamorðum? Hvert stefnum við í umræðunni? Hvert stefnum við? Erum við að halda því fram að þýska þjóðin og sú rússneska hafi verið svo gjörspillt vegna skorts á friðarfræðslu í skólum að það sé þessum þjóðum að kenna að gyðingarnir voru leiddir í gasklefana og drepnir og að Stalin slátraði kúlökkunum eins og hann gerði? Ég veit ekki hvert þetta leiðir, en mér finnst að þetta leiði til ofmetnaðar, drambs og hroka og viðleitni til að upphefja sjálfan sig í einhverjar himnahæðir eins og hræsnarinn forðum, þ. e. fariseinn sem baðst fyrir og sagði: „Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og þessi maður.“

Ég fyrir mína parta get ekki dæmt þýsku þjóðina. Ég get ekki heldur dæmt þá rússnesku. Engu að síður vil ég frið. Skólinn hefur til þessa kennt um stríð og frið. Hann hefur reynt að gera það á hlutlausan hátt og ég er sannfærður um að uppeldishlutverk skóla í þágu friðar hefur verið mjög mikið, ég er ekki í neinum vafa um það. En mér er ekki ljóst hverju þarf að breyta í íslenska skólakerfinu. Hvar er þessi mikla hernaðarhyggja sem þessir menn ætla að útrýma út úr skólunum?

Þegar ég lít yfir flm. verð ég að segja eins og er að ekki hvarflar að mér að þarna séu 100% hörðustu friðarenglarnir í þinginu. (Gripið fram í: Hvað á hv. þm. við með því?) Hvað á hv. þm. við með því? Ég hygg að mjög auðvelt sé að skilja það. Þetta er ekki torskilið mál. (Gripið fram í: Eru friðarenglar harðir?) Það var það sem hefur valdið misskilningnum. Við skulum breyta þessu, mestu friðarenglarnir í þinginu, þannig að orðið harður verði ekki til þess að rugla menn í ríminu. Það kom inn í þessa umr. — (EG: Ætlar ekki hv. þm. að skýra út hvað hann átti við með þessari fullyrðingu?) Ég er búinn að varpa fullyrðingunni fram og við hana stend ég. Ég tel að þarna séu ekki frekar friðarsinnar en aðrir þó þeir vilji í dag skreyta sig með svona fjöðrum. Ég lít þannig á málið.

Talað var um það áðan að atferlisfræðin væri merk fræði til að leiða í ljós ýmsa hluti varðandi hegðun mannanna og árásarhneigð. Atferlisfræðin er vissulega merk fræði og segir okkur mjög mikið um hegðunareinkenni. Eitt af því sem þar kemur fram er tvímælalaust að kvendýrin eru sennilega grimmari en karldýrin. (Gripið fram í: Hvenær?) Hvenær, er spurt. Bæði þegar verja þarf líf og eins og þegar afla þarf fæðu.

Ég hygg að þegar menn vilja varpa því fram í dag að skólarnir eigi að taka upp þetta mótunarhlutverk og ná þar miklum árangri hljótum við að spyrja okkur fyrst og fremst að því hvort ekki séu til staðar einhver öfl í þjóðfélaginu sem sannarlega skv. félagsfræðilegum rannsóknum stuðla að ofbeldi í ríkum mæli.

Búið er að framkvæma mikið af félagsfræðilegum rannsóknum í þessum efnum. Það er sannáð mál og það hljóta flm. að vita, að ofbeldiskvikmyndir leiða til ofbeldis. Er till. um það að banna Hrafninn? Er það ekki ofbeldi sem þar er sýnt? Er það ekki morð á morð ofan? Hvað haldið þið að skólinn virki mikið ef börnin geta á hverju einasta kvöldi horft á ofbeldismyndir í sjónvarpi? Hvort haldið þið að sé sterkara í mótuninni? Mér finnst að verið sé að varpa þeirri kröfu á skólann að hann eigi að ábyrgjast uppeldið. En samfélagið, eins og hv. 5. þm. Reykv. réttilega gat um, er hinn sterki mótunaraðili í þessum efnum og skv. félagsfræðilegum rannsóknum eru foreldrarnir langsterkustu mótunaraðilarnir.

Mér finnst að sú túlkun að óttinn við kjarnorkusprengjuna sé eitthvað sem við eigum að koma á framfæri alveg sérstaklega við æskuna og óhörðnuð börn sé e. t. v. mál sem mjög hæpið sé að bera á borð. Það er yfir höfuð í andstöðu við kristna trú að ala á ótta. Eitt af því sem fer verst með mennina er kvíðinn og óttinn, eilífðar kvíði og eilífðar ótti. Trúin, ekki bara kristna trúin heldur flest önnur trúarbrögð, reynir að draga úr þessum ótta og úr þessum kvíða.

Guðmundur Kamban segir á einum stað:

Gegn svo mörgu sem guð þeim sendir

menn gera kvíðann að hlíf,

og kvíða oft því sem aldrei hendir,

og enda með kvíða sitt líf.

Ég hygg að við getum öll verið sammála um það að við viljum stuðla að friði. Okkur greinir trúlega á um leiðir. Ég gat þess áðan að ég er sannfærður um að Chamberlain hefur verið jafnmikill friðarsinni og hver og einn einasti sem skrifar undir þessa till. hér. Engu að síður gerði hann samning við einræðisherra sem átti sér önnur markmið og annan tilgang. Það skiptir engu máli þó að Chamberlain vildi frið, Hitler ætlaði sér að ná vissum löndum undir Þýskaland, hversu mörgum vitum við ekki.

Ég hef horft á það eftir heimsstyrjöldina að útbreiðsla kommúnismans til nágrannalanda með vopnum hefur átt sér stað jafnt og þétt. Í dag er það Afganistan. Þegar ég var í skóla, heimavistarskóla, bárust okkur fréttirnar frá Ungverjalandi. Ég er sannfærður um að mannkynssagan út af fyrir sig boðar það eitt að vopnlaus mótspyrna hefur ekki dugað til þess að vinna sigur gegn harðstjórum. Flm. gat þess að fræða ætti börnin um .það hvernig farið hefði fyrir friðarsinnum. Ég er sammála henni um að fróðlegt er að kynna sér það hvernig mannkynið hefur farið með friðarsinnana. Því miður er það heldur óhugnanleg meðferð sem þeir hafa fengið hjá jarðarinnar börnum.

Vilhjálmur frá Skáholti sagði: „Úr því að þeir krossfestu þig, Kristur, hvað gera þeir þá við ræfil eins og mig?“

Ég er ekki viss um að það mundi auka mjög á öryggistilfinningu hjá börnunum að kynna sér það hvernig farið hefur verið með friðarsinna á þessari jörðu. Ég hygg aftur á móti að þessi umr. sem slík hafi verið gagnleg. Hún opnar vissulega þá miklu gjá sem virðist vera í afstöðu manna til þess hvernig hægt sé að tryggja frið á jörðinni. Ef ég teldi að hægt væri að tryggja hann með því að auka friðarfræðslu í íslenskum skólum og samþykkja þessa till. skyldi enginn kátari styðja hana. En mér er ekki ljóst hvort hugmyndin á bak við hana byggist á þeim sem kallaðir hafa verið nytsamir sakleysingjar eða hvort menn í alvöru trúa því að vopnlaus mótspyrna eða friðarfræðsla hefði komið í veg fyrir þær ógnir sem gengið hafa yfir mannkynið á þessari öld. Ef menn trúa því, þá er það mikil og björt trú. Ég á hana ekki. Ég er sannfærður um það að Gandhi hefði fengið aðra meðferð bæði hjá Stalin og Hitler. Ég er sannfærður um að ef gyðingarnir hefðu átt að sleppa lifandi í meiri mæli en þeir gerðu hefðu þeir fyrst og fremst þurft að grípa til vopna undir ríki nasismans til að verjast, því miður.

Auðvitað stendur öllum mönnum ógn af þeirri staðreynd að í vopnabúrum heimsins eru kjarnorkuvopn sem mundu duga til að eyða ekki einu sinni heldur oftar lífinu á jörðinni. Auðvitað vonum við að valdhafarnir sem hafa þessi vopn undir höndum muni bera gæfu til að láta ógert að nota þau. En spurningin sem vestrænar þjóðir standa frammi fyrir í dag er: Vilja þeir afsala sér vopnum einhliða? Nei, segir friðarfræðsluaðilinn sýnist mér. (Gripið fram í.) Það er vissulega til umræðu í hinum vestræna heimi hvort menn eigi einhliða að afsala sér vopnum. Vilja menn gagnkvæma afvopnun? Ef menn trúa að gagnkvæm afvopnun sé eini möguleikinn verða menn að þreyja þorrann og góuna og bíða og vona hvort hægt er að ná samkomulagi um slíka afvopnun. En því miður sjást þess engin merki að líkur séu á að slík gagnkvæm afvopnun sé á næsta leiti.

Vopn eins og eiturgas, sem ekki var notað í heimsstyrjöldinni síðari, er notað í hernaði í dag. Ég hygg að alþjóðastjórnmál muni halda áfram að glíma við það jafnlengi og við lifum að reyna að ná samkomulagi um stjórnun á þessari jörð. En ég er jafnsannfærður um hitt að meðan jafnmikið óréttlæti er í heiminum og er í dag, meðan auðnum er jafnmisskipt, meðan aðstöðumunur manna innan þjóðfélaganna, milli þjóðlandanna, er jafnmikill og hann er í dag er engin von um að sá hópur sem er undir uni því og muni virða frið. Þess er engin von.

Ég hef e. t. v. að dómi flm. þessarar till. verið helst til gagnrýninn. En ég kom hér upp fyrst og fremst til að leggja fram þá spurningu: Hvað er það í starfsemi íslenskra skóla sem menn telja að breytist, verði þessi till. samþykkt? Er eitthvað í námsskránni, í hinum skrifaða texta, sem menn telja að þurfi að fjarlægja til þess að hægt sé að líta svo á að skólinn sinni og hafi sinnt því hlutverki að koma nemendum út í lífið þann veg þenkjandi að þeir væru friðarsinnar?