29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4306 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

186. mál, takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir undirtektir hans varðandi þessa till. Ég skil utanrrh. þannig að hann vilji stuðla að því að þessi till. fái umr. og meðferð í utanrmn. og hann sé efnislega ekki ósamþykkur till. eins og hún liggur hér fyrir, þó hann hafi gert ýmsa fyrirvara sem fram komu í máli hans.

Ég gæti vissulega gert ýmsar athugasemdir við það sem fram kom hjá hæstv. ráðh. varðandi þær hugleiðingar sem hann hafði hér um þessi mál og lagt fyrir hann nokkrar spurningar. Ég ætla þó að takmarka það að þessu sinni, þar sem ég geri ráð fyrir að málið verði til vandlegrar meðferðar í utanrmn. Þar sem ég er varamaðurinn. gefst mér e. t. v. kostur á að fylgjast með umr. um till. í utanrmn. og meðferð af hennar hálfu.

Ég vil í fyrsta lagi ítreka það, sem ég taldi að hefði komið fyllilega skýrt fram í mínu máli, hvaða tillögur og hugmyndir ég hefði um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða. Ég heyrði líka að hæstv. ráðh. hafði eftir því tekið og það var enginn misskilningur sem þar var á ferðinni. Ég tel að það sé gagnkvæmnisjónarmiðið sem eigi að vera meginviðhorf í sambandi við þær reglur sem setja eigi, bæði varðandi fjölda starfsmanna, varðandi húsnæði fyrir starfsmenn erlendra sendiráða hér og varðandi starfsaðstöðu erlendra sendiráða hérlendis. Varðandi alla þessa þætti tel ég tvímælalaust að ríkja beri gagnkvæmnisjónarmið. Vissulega er hægt að hugsa sér að þar sé á einhver sveigjanleiki, eins og ég vék að í máli mínu, og það sé t. d. ekki nákvæmlega höfðatalan sem látin sé ráða varðandi fjölda sendiráðsstarfsmanna, en ég nefndi þau efstu mörk sem ég gat hugsað mér að gætu komið þar til álita, tvöfaldur, í allra mesta lagi þrefaldur fjöldi starfsmanna í heild sinni, og vil þó engan veginn setja það fram sem mína skoðun að svo mikinn sveigjanleika eigi að sýna í sambandi við fjölda erlendra sendiráðsmanna umfram það sem er í sendiráðum Íslands í viðkomandi löndum.

Það er eitt atriði varðandi þetta sem ég tel nauðsynlegt að fá fram skýrar en kom hér fram hjá hæstv. utanrrh., en það snertir fjölda íslenskra starfsmanna við hin erlendu sendiráð. Hæstv. ráðh. taldi að ég hefði verið að halla á varðandi samanburð milli sendiráða Sovétríkjanna og Bandaríkjanna með því að taka heildarstarfsmannafjölda hinna erlendu diplómata og hinna íslensku og hefði fengið þar með hærri starfsmannafjölda hjá hinu bandaríska. Það er alls ekki minn hugur að vera að hagræða þar neinu. Það liggur fyrir hver þessi fjöldi er. Hann er mun meiri hjá Sovétríkjunum, sem hafa enga íslenska starfsmenn í þjónustu sinni, en að meðtöldum hinum íslensku fastráðnu starfsmönnum er fjöldi starfsmanna við bandaríska sendiráðið meiri en við hið sovéska. Það liggur fyrir. En vegna þess mikla greinarmunar sem hæstv. ráðh. virðist gera á þessu tvennu og ég vil engan veginn staðhæfa að ekki sé munur á t. d. varðandi diplómatísk réttindi, það er mér alveg ljóst, spyr ég : Telur hæstv. utanrrh. þar með að ekki sé þörf á að setja takmörk á fjölda íslenskra starfsmanna, sem hin erlendu sendiráð hafa í sinni þjónustu eða teldu sér hagkvæmt að ráða til sín? Telur hæstv. ráðh. að það eigi að vera algerlega opið og eftirlitslaust? Ég á afar erfitt með að ímynda mér að það sjónarmið geti talist gilt því að þeir starfsmenn, þótt Íslendingar séu, sem erlent sendiráð ræður til sín eru að sjálfsögðu að sinna verkum í þess þágu, eru starfsmenn þess sendiráðs, ráðnir til þess og hljóta að gegna þeim verkum sem þeir eru ráðnir til. Því tel ég að þetta sjónarmið geti ekki verið gilt, að þar geti hið erlenda ríki fjölgað hömlulaust.

Þá vék utanrrh. að því að Ísland hefði takmarkað bolmagn til að halda uppi sendiráðum erlendis og starfsmannafjölda við þau. Það hefur verið alveg ljóst að stærð okkar og efnahagsgeta sníður.okkur þar stakk sem og á öðrum sviðum. Ráðh. taldi að það væri vel hægt að líta svo á, ef ég hef skilið hann rétt, að hagsmunum Íslendinga væri þjónað með því að vega upp þessi takmörk smæðarinnar að nokkru leyti með því að hið erlenda ríki, sem við skiptum við, hefði hér öflugri starfsemi. Þetta er röksemdafærsla sem ég á dálítið erfitt með að skilja. Ég tel að Ísland hljóti að halda uppi sendiráðsstarfsemi og öðrum þeim þáttum í sinni utanríkisþjónustu gagnvart viðkomandi ríkjum með tilliti til þarfarinnar og beri að gera það. Það er fráleitt að ætla erlendu ríki að fara að rækja þau samskipti með því að fjölga hér í viðkomandi sendiráðum. Það er tiltölulega auðvelt að reikna sig niður í það eftir þessari röksemdafærslu að það sé alveg nóg að hafa einn sendiherra t. d. í Washington og kannske einn skrifstofumann við hliðina á honum og bæta við í sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík til þess að vega þar upp á móti, hafa þá ekki 41, heldur kannske 60 með sömu hlutfallsfjölgun eða þaðan af meira. Ég fæ ekki séð að þetta gangi upp og ég sé ekki að það sé fært að hafa í frammi slíka röksemdafærslu — ég tala nú ekki um ef menn fallast á gagnkvæmniviðhorfið sem grundvallarviðhorf í sambandi við takmörk á umsvifum erlendra sendiráða.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér við hæstv. utanrrh. á þeim nótum sem hann vék að um bakgrunn þessa till.flutnings. Það finnst mér fyrir neðan virðingu okkar að fara að ræða þau efni með þeim hætti sem hæstv. ráðh. vék hér að. Ég held, hæstv. ráðh., að eðlilegra sé að láta orð og till. hér á Alþingi og verkin tala og ég bendi hæstv. ráðh. á að það er einmitt það sem felst í þessari till., að ekki verði látið sitja við orðin tóm í sambandi við gagnrýni á umsvif erlendra sendiráða. Við höfum haft mikið af gagnrýni í orði, t. d. á umsvif sovéska sendiráðsins hér á Íslandi, en við höfum haft sáralítil tilþrif á borði til að takmarka þessi umsvif, svo sem tímabært er fyrir löngu, og sníða þeim eðlilegan stakk. Það er á valdi hæstv. ráðh. að gera þetta. Hann þarf ekki að spyrja mig um hugrenningar mínar í þessu efni. Hann má hafa hvaða skoðun sem hann vill á því hvaða sjónarmið liggja að baki þessum till.-flutningi. En ég skora á hæstv. ráðh. að beita valdi sínu sem ráðh. og að sjálfsögðu út frá íslenskum hagsmunum og íslenskri hagsmunagæslu. Það hlýtur ráðh. að hafa í huga, ég treysti því að hann geri það, þegar hann metur þetta og beiti þeim takmörkunum sem t. d. hann og hans flokkur hafa látið að liggja að nauðsynlegar væru í þessu efni. Lög eru til staðar, alþjóðasamningar eru til staðar, sem hæstv. ráðh. sagði að Sovétríkjunum t. d. væri ekki stætt á að hafna, þó að þau hefðu gert við þá sínar athugasemdir. Ég treysti því að ráðherrann tefli út frá þessari stöðu og vinni að því með tilstyrk Alþingis, eftir að till. þessi væri samþykkt sem ályktun Alþingis, að grípa til eðlilegra takmarkana.

Ég tel tvímælalaust að það eigi að beita gagnkvæmnisjónarmiðum einnig varðandi starfsaðstöðu erlendra sendiráða. Ríki sem býr við þá kosti eins og t. d. íslenska sendiráðinu eru búnir í Moskvu á að sjálfsögðu ekki að leyfa hinum sovésku starfsmönnum sendiráðs þeirra hér að frílysta sig eftir hentugleikum varðandi ferðalög og búa um sig varðandi húsnæði með öðrum hætti en stakkurinn er sniðinn þar fyrir austan. Það gæti verið að Sovétmenn færu að hugsa sig um í sambandi við aðbúnað að sendiráði Íslands þar eystra og annarra ríkja ef þau gengju fram með hliðstæðum hætti. Það er einmitt mikið talað um, að það þurfi að beita þrýstingi til þess að fá sovéska aðila — af því að við erum að ræða um þá hér — til að virða t. d. mannréttindareglur og eðlilega samskiptahætti. Hér er vissulega verk að vinna að þessu leyti og ég gæti vel trúað að það hefði nokkur áhrif ef Ísland riði á vaðið með myndarlegum hætti að þessu leyti.

Við megum hins vegar ekki vera haldnir einsýni í þessum efnum, eins og mér fannst því miður gæta nokkuð hjá hæstv. ráðh., þegar hann fór að líta til sendiráða risaveldanna beggja. Mikið úr máli hans gekk út á það að leita réttlætingar á stærð bandaríska sendiráðsins hér og leiða að því líkur og leita raka fyrir því, að það væri nú kannske ekki ástæða til að þrengja að því, e. t. v. ekki neitt, ekkert verulega, ef ég hef skilið orð og röksemdafærslu hæstv. utanrrh. rétt. Það er sjónarmið sem ég get ekki fallist á. Við hljótum að sjálfsögðu að beita gagnkvæmnisjónarmiðinu, óháð því hver í hlut á, af sanngirni og út frá okkar hagsmunum, og þá hagsmunum sem fullvalda ríkis, en ekki ríkis sem vill láta hið erlenda ríki leysa fyrir sig utanríkisþjónustuna með því að halda uppi sendiráðsstarfsemi hérlendis sem eigi að koma í staðinn fyrir þá þjónustu sem eðlilegt er að við sjáum um og höldum uppi með sendiráðsstarfsemi í viðkomandi landi.

Varðandi vegabréfsáritanirnar, sem ég nefndi vegna ferðalaga Íslendinga til Bandaríkjanna, er það alkunna að þar er einhliða kvöð á Íslendinga að fá vegabréfsáritun þangað, en bandarískir þegnar geta gengið hér út og inn út á sitt vegabréf án áritunar, miðað við þriggja mánaða dvöl sem ferðamenn. Að sjálfsögðu nær ekki nokkurri átt að líða að þegnum sé mismunað með þeim hætti, og að bera fyrir sig hagsmuni ferðamennsku til að réttlæta slíkt tel ég fráleitt. Hvaða ástæða er til þess að líða bandarískum stjórnvöldum að setja íslenska þegna undir einhverja sérstaka smásjá, á meðan við heimilum þeim að ganga hér út og inn, eins og eðlilegt væri að gilti um Íslendinga sem ferðast vildu til Bandaríkjanna? Það er auðvitað rýmkun á ferðafrelsinu sem þarf að verða niðurstaðan. Við þurfum að beita tiltækum ráðum til að knýja slíka rýmkun fram. Það er ekki góð latína að telja rök fyrir því, að Bandaríkin haldi hér uppi sendiráði, sem er álíka stórt eða ekkert langt frá því að vera eins stórt og bandaríska sendiráðið í Stokkhólmi, ef frúa má Morgunblaðinu, vegna þess að þeir hafi svo mikið að gera við að sigta úr Íslendinga sem leita eftir vegabréfsáritun vestur, þeir hafi svo mikið að gera við að vinna úr umsóknum um vegabréfsáritanir, að þess vegna sé réttlætanlegt að þeir haldi hér uppi svo fjölmennu sendiráði.

Það er auðvitað öllum ljóst, að langt er seilst af ríki sem beitir slíkum vinnubrögðum og leggur fyrir þá sem þangað vilja koma spurningalista, sama hver er. Allir fá held ég sama listann a. m. k. í fyrsta umgang, sem gengur út frá því að menn geti almennt séð verið í hópi glæpamanna eða misindismanna. Ég veit að hæstv. ráðh. kannast við þá lista. Hann hefur sjálfsagt fyllt þá út eins og ég, þegar sótt hefur verið um ferðaleyfi vestur.

Ég nefndi að það væri ekki allur munur á starfsmannafjölda bandaríska sendiráðsins hér og bandaríska sendiráðsins í Svíþjóð. Ef hæstv. forseti leyfði mér að ná í blað sem ég hef á borði mínu ætla ég að rökstyðja það.

Ég les það í Morgunblaðinu frá 29. febrúar 1984, haft eftir Magnúsi Brynjólfssyni, fréttaritara blaðsins í Stokkhólmi, að í bandaríska sendiráðinu í Svíþjóð séu 26 diplómatar og að auki 35 stjórnar- og tæknimenn. Ég bið menn að taka eftir þessu. Hér á Íslandi eru 22 útlendingar starfandi við bandaríska sendiráðið, 21 Bandaríkjamaður og einn af öðru erlendu þjóðerni, á sama tíma og í Stokkhólmi eru 26 bandarískir diplómatar. Hvernig stendur á þessum fjölda hér á Íslandi miðað við Svíþjóð? (Utanrrh.: Má ég skjóta inn spurningu? Eru þetta ekki allt Bandaríkjamenn, sem þarna er um að ræða, og þá eru ótaldir Svíar sem eru í þjónustu sendiráðsins?) Nú veit ég ekki. Nú er best að hæstv. utanrrh. leiti upplýsinga gegnum sína utanríkisþjónustu eða leiti til Morgunblaðsins. Ég tek þessar upplýsingar eins og þær koma frá fréttaritara Morgunblaðsins í Stokkhólmi. Þar er þetta tíundað þannig, að það séu 26 diplómatar og að auki 35 stjórnar- og tæknimenn, sem ég tek svo að séu bandarískir, sem þarna starfa. Þar fyrir utan komi Svíar svipað og hér starfa margir Íslendingar við bandaríska sendiráðið. (Gripið fram í.) Ég skal ekki fara út í þessar tölur nákvæmlega. Vissulega stingur í augu að það skuli ekki vera meiri munur á starfsmannafjölda í þessum löndum þar sem fólksfjöldinn er svo mismikill sem við þekkjum. Ætli sé ekki 20 faldur eða eitthvað nálægt því munur á fólksfjölda í þessum löndum, Íslandi og Svíþjóð, án þess að ég vilji fara alveg með þær tölur hér úr ræðustól.

Herra forseti. Ég hef hér vikið að nokkrum atriðum sem ég taldi ástæðu til að nefna eftir að hafa hlýtt á hæstv. utanrrh. Ég ítreka að ég tók eftir að hann taldi till. þessa vera gagnlega og nauðsynlegt að hún fengi þinglega meðferð. Ég vænti þess fastlega að hún fái afgreiðslu hér á Alþingi, þannig að vilji Alþingis í þessu mikilvæga máli liggi skýrt fyrir og hæstv. ráðh. fái þannig styrk, til viðbótar þeim heimildum sem hann hefur lögum samkvæmt, til að setja reglur til takmörkunar á umsvifum erlendra sendiráða hérlendis út frá gagnkvæmnisjónarmiðum og íslenskum hagsmunum.