02.04.1984
Efri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4321 í B-deild Alþingistíðinda. (3687)

196. mál, lausaskuldir bænda

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég sagði nokkur orð við 1. umr. þessa máls og ætla síður en svo að tefja það að málið nái fram að ganga. Ég lýsti þá yfir stuðningi við meginefni þess, en lýsti jafnframt yfir vonbrigðum mínum með það að málið skyldi ekki vera betur úr garði gert hvað snertir fjármögnun og ýmsar þær spurningar sem vakna hljóta við yfirlestur þess, þó mér sé það ljóst að bændur geta ekki beðið eftir því að við afgreiðum þetta hér. En bændur geta enn síður beðið eftir því að ríkisstj. taki til höndum og útvegi það fjármagn sem er forsenda þess að nokkuð verði úr þessu og að þetta verði ekki markleysa ein.

Málið snýr nefnilega þannig við í dag að það stendur fyrst og fremst á því að upplýst sé núna við lokaafgreiðslu málsins hvernig fjármagna skuli þessa breytingu á lausaskuldum bænda, hvernig að henni skuli staðið. Við vitum einnig að það eru aðrir aðilar sem ákveða skulu um það hvernig frá lánstíma og kjörum skuli gengið. Óljóst er um kaup skuldabréfanna, hvort menn losna við bréf sín þó annað sé í lagi og óljóst er um þá bændur — nokkra tugi trúlega — sem sakir ónógrar veðhæfni ná ekki landi með þessari breytingu.

Ég ætla hins vegar ekki að fara út í almenna umr. um landbúnaðarmál og kjör og aðstæður bænda yfirleitt, það gerði ég við 1. umr. og læt það duga. Enn síður ætla ég að fara út í karp við hv. 11. landsk. þm. um það hversu flokksbróðir hans, hv. þm. Pálmi Jónsson, hafi reynst sem landbrh. og hversu vel hafi tekist til í hans landbúnaðarstefnu. Um það munum við geta átt orðastað síðar. Ég nefni hins vegar núna vegna þess að það er alveg nýtilkomið að við höfum heyrt nýjustu fréttir um áburðarverðshækkun til bænda upp á 43% nú á þessu vori. Ég spái því að það komi allharkalega við þá stétt og verði ekki til þess að greiða fyrir vanda hennar nema síður væri. En út í það efni ætla ég ekki heldur að fara nánar, þó óneitanlega slái sú tala mann talsvert einmitt þessa dagana þegar við erum að fjalla um þessi mál hér.

Málið stendur fyrst og fremst þannig í þessari hv. deild að við eigum eftir að fá skýr svör um það hversu mikið fjármagn skuli vera í reiðufé, hversu mikið fjármagn skuli vera í peningum, hvað mikið í skuldabréfum, talað hefur verið um allt að 40%. Ég vona að hæstv. landbrh. geti hér á eftir gefið okkur frekari upplýsingar en hann gat gefið okkur við 1. umr. um það hvernig þessi fjárútvegun stendur gagnvart þessum 80 millj. kr. eða kannske mun hærri upphæð því að ekki eru öll kurl komin til grafar enn þá eins og hv. 11. landsk. þm. kom réttilega inn á.

Lokakönnun þessa máls er alveg eftir, hve margir þurfi í raun og veru á þessari skuldbreytingu að halda og einnig hvernig leysa eigi vanda þeirra bænda sem allra verst eru settir og ná ekki landi með þessari skuldbreytingu vegna þess að þá skortir til þess veð. Hvað skal fyrir þá gera? Hv. formaður landbn. lýsti því yfir að hann teldi óvarlegt að lýsa nokkru yfir um hjálp við þá bændur í dag. Ég minni hv. þingdeild á að hæstv. landbrh. kom inn á vanda þessara bænda í framsöguræðu sinni og lýsti þar yfir að það mál yrði skoðað sérstaklega. En gott væri að fá frekari og enn skýrari yfirlýsingar um það frá hæstv. ráðh. á hvern hátt það yrði gert. Vissulega þarf að leysa vanda þeirra bænda sem fullljóst er. Þar er um nokkra tugi bænda að ræða sem eru þannig settir að þessi skuldbreyting er útilokuð þeim til bjargar. Veðhæfni þeirra er hreinlega ekki sú að hún dugi þeim til þess að taka þær skuldbreytingar sem hér er um að ræða.

Við skulum svo ekki tefja þetta mál lengur í stjórnarandstöðu með málþófi um það hvernig staðið er að landbúnaðarmálum í dag almennt. Hér munu aðrir koma upp og gera grein fyrir þeim hugmyndum sem fram komu í landbn. en við höfum leyft okkur að endurflytja till. sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon flutti í Nd. varðandi það að ný grein komi á eftir 1. gr. sem verður 2. gr. og þegar hefur verið útbýtt. Sú till. er flutt ásamt mér af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur. Hér er um að ræða að lánveitingar skv. lögum þessum skulu sérstaklega miða að því að leysa fjárhagsvanda þeirra bænda sem hafa nýlega hafið búskap, staðið í gagngerðri uppbyggingu eða endurbótum á bújörð sinni eða búið við sérstaklega erfiðan fjárhag vegna fjölskylduástæðna.

Skýrt skal fram tekið svo að ekkert fari á milli mála að í þessu er í engu um það að ræða að möguleikar annarra í þessum efnum séu þrengdir á nokkurn hátt. Hér er aðeins lögð viss áhersla á að þessir aðilar hafi ákveðinn forgang þegar tekið verður til við þessa skuldbreytingu. Þessir menn þurfa svo sannarlega sérstaklega á þessu að halda. Þó að við skyldum ætla að þeir kæmu inn í þessa mynd hvort sem væri sakar ekki að hafa fyrir því ákveðna lagastoð þegar farið verður að fjalla um þessi mál inni í stjórn veðdeildar Búnaðarbankans sem er í raun og veru bara bankaráðið, þó í samráði við fulltrúa Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands sé.

Lausn þeirra bænda, sem þessi lög munu ekki bjarga var til umræðu hjá hv. 11. landsk. þm., formanni landbn. Ég veit að hæstv. landbrh. vill mæta vanda þessara aðila. Ég spyr, til viðbótar við fyrri spurningar mínar, um það hvernig að fjármögnun skuli staðið, hvernig fjármagn skuli tryggt til þessara aðgerða þannig að við rennum ekki alveg blint í sjóinn með það við lokaafgreiðslu málsins. Hvernig hugsar hæstv. landbrh. sér að mæta vanda þessara manna þegar það er fullljóst að þeir leysa sín mál ekki með þeim hætti sem hér er ráð fyrir gert.

Ég ætla svo að vona að þessi hraða og góða afgreiðsla okkar í hv. landbn. verði til þess að hæstv. ríkisstj. geti farið að standa við sinn hlut í málinu. Það stendur nefnilega ekki á Alþingi varðandi afgreiðslu þessa máls út úr þinginu. Það stendur á hæstv. ríkisstj. að útvega fjármagnið. Þá hefur hún ekki þá afsökun lengur að þingið eða einstakir þm. tefji fyrir, þá á hún sjálf og ein leik.