13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Það er nú ekkert nýtt að fyrrv. hæstv. félmrh. láti gamminn geysa hér á Alþingi. Hann er kannske ósáttur við að vera allt í einu orðinn óbreyttur hv. þm. Mig minnir að hann hafi orðið ráðh. svo til strax og hann var kosinn til þingsetu, þannig að það kemur fram viss beiskja að þurfa að tala sem óbreyttur. Sú beiskja hefur komið fram í flestum ef ekki öllum hans gjörðum frá því að síðustu kosningar fóru fram þar til að Alþingi kemur nú saman og ræðustóllinn opnast loksins. Já, honum var orðið mikið mál.

Á dagskrá er samkomudagur Alþingis. Inn í þessar umræður hefur ýmislegt annað, sem ekki er á dagskrá, slæðst. Það hefur verið talað um brot ríkisstj. á lýðræðislegum hefðum og að lýðræðið væri í hættu. En hvað segir stjórnarskráin um þetta atriði? Það var kosið í apríl, ríkisstj. kemur saman í maí. 24. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga áður en tveir mánuðir séu liðnir, frá því að það var rofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en átta mánuðum eftir að það var rofið.“

Þannig er það sem hér hefur gerst fullkomlega í samræmi við þær reglur sem settar eru samkv. stjórnarskrá lýðveldisins. Og þetta svarar allri þeirri munnræpu um þetta mál sem komið hefur frá fyrrv. hæstv. félmrh.

En það var annað sem hann gerði að umræðuefni, sem var utan við dagskrárefnið, og, herra forseti, ég sé fulla ástæðu til að fá að dvelja svolítið við það sem þar kom fram.

Ríkisstjórnin er að segja sundur friði — líklega við þjóðina. Nú vill svo til að hér er átt við að heimilisfriðnum hér á landi sé stofnað í hættu vegna brbl. ríkisstj. Það vill nú svo til að þessi brbl. ríkisstj. eru mildari en brbl. þau sem sett voru af fyrrv. ríkisstj. að því leytinu til að báðar ríkisstjórnirnar hafa skert vísitölu launa, báðar ríkisstjórnirnar voru með gengislækkun, báðar ríkisstjórnirnar notuðu hluta af gengislækkuninni til að hlaupa undir bagga með útgerðinni. En síðan koma mildandi aðgerðir hjá þessari ríkisstj. með hækkandi barnabótum, með persónufrádrætti og ýmsu öðru sem kostaði um 400 millj. kr. og léttir á fólkinu í landinu.

Eitt er það atriði sem er þó þyrnir í augum margra, bæði stjórnar og stjórnarandstæðinga, og það er skerðing á samningsrétti. Þar er rangtúlkað frá upphafi til enda í málflutningi Alþb. — og ég vil segja kommúnistadeildar Alþb. því ég lít ekki á Alþb. sem kommúnistaflokk, heldur þann hluta sem kom úr Kommúnistaflokknum. Það er kommúnistadeild og hættulega deildin í Alþb.

Þar er talað um að verið sé að fella niður samningsréttinn. Það er verið að fresta samningsrétti til janúarloka til að ríkisstj. hafi svigrúm til að gera þær hreinsunarráðstafanir sem engan furðar á eftir stjórnarþátttöku Alþb. Og þær eru sko ekki litlar, eins og kemur fram í þeim aðgerðum sem hafa verið gerðar, og engin málefnaleg rök hafa komið fram frá neinum þeim sem tekið hafa til máls um þetta mál á opinberum vettvangi, nema um þessa svokölluðu skerðingu á samningsrétti hagsmunaaðila.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég þekki þá illa verkalýðshreyfinguna ef verkalýðshreyfingin, óáreitt af áróðursaðilum Kommúnistaflokks Íslands sem er falin innan Alþb., vill ekki leggja það á sig að bíða í nokkra mánuði með að fá frjálsan samningsrétt aftur svo að hægt verði að koma þeirri skikkan á efnahagsmál sem gæti dugað þjóðinni — og er þó ekkert víst að það dugi vegna þess að ástand og horfur eftir að Alþb. loksins var flæmt í burtu úr ríkisstj. eru þannig.

Það hljómar illa í mínum eyrum þegar menn sem koma úr þessum armi Alþb. tala um frelsi einstaklingsins og að þeir sem hafi þau orð hvað mest á vörum séu að koma óorði á starfsemi Alþingis — ég hef skrifað orðrétt hér eftir hv. þm. — og að ríkisstj. sýni almenningi tillitsleysi með því að reyna að taka á málum af kjarki og dugnaði en ekki af ótta við guð má vita hvað. — Líklega það að missa þingsæti, sem er þá kannske eina lifibrauð þeirra sem svona tala. Á ég þá náttúrlega við menningardeild Alþb. Því að verkamaðurinn í Alþb. kemur hvergi nærri stjórnmálum nema þá helst forustumaðurinn, og það er sá eini held ég, Guðmundur J. Guðmundsson, og hann sést nú ekki oft í andstöðu við forustuna í þingsölum.

Það er ekkert tillitsleysi við almenning sem hér á rétt á sér í umræðum. Það er þveröfugt. Það er verið að reyna að koma ríkisfjármálum og ríkismálum almennt á réttan grunn á fullkomlega löglegan hátt samkvæmt þeirri stjskrgr. sem ég sem ég las hér upp. Ef menn þurfa, í hvaða verkefni sem er, að hafa ákveðinn aðlögunartíma til að taka á nýjum verkefnum. Það veit fyrrv. hæstv. félmrh. Það tók hann miklu lengri tíma að komast inn í það starf en það hefur tekið þessa ríkisstj. eða einstaka ráðh. að gera.

Og það er langur vegur og hálfgert blótsyrði af vörum þessara manna þegar þeir bera saman hugsjónir Jóns Sigurðssonar og stefnuskrá kommanna innan Alþb. og ætti alls ekki að gera, og sýnir það nú hvað miklu meira málfrelsi er hér en þar sem hugsjónir þeirra eiga sér fæðingarstað.

Ég vil aðeins benda á, að þegar fyrrv. ríkisstj. var að gera sínar ráðstafanir með brbl. heyrðust engin mótmæli frá almennum félagsfundum innan verkalýðshreyfingarinnar. Það voru kallaðir saman stjórnarfundir og þaðan komu veik mótmæli. Þegar þessi ríkisstj. gerir sínar efnahagsráðstafanir, sem eru þó mildari en hinar, - við skulum segja að frátekinni þessari samningsréttarskerðingu — er kallaður saman almennur félagsfundur í öllum verkalýðsfélögum, allt reynt til þess að gera starfsemi ríkisstj. sem erfiðasta. En ekkert af þessu kemur fram — og ég vil biðja fólk um að hlusta vel — ekkert af þessu kemur fram fyrr en Alþb. kallar saman fund. Ég held að það hafi verið miðstjórnarfundur. Það kom mynd frá þeim fundi af formanni kommúnistadeildar Alþb., sem er einnig formaður Alþb., og formanni ASÍ, þar sem þeir voru, samkvæmt upplýsingum í Þjóðviljanum sem fylgdu þessari mynd í grein, að ræða um aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar gegn þessari ríkisstj. og gegn þessum skerðingarákvæðum. Það var sem sagt búið að taka í Alþb. og á miðstjórnarfundi hjá Alþb. ákvarðanir um aðgerðir til að fella þessa ríkisstj. áður en hún hafði séð dagsins ljós, má segja, orðin þriggja mánaða gömul eða svo.

Eftir þær ákvarðanir, sem þar eru teknar, fara af stað aðgerðir með krafti, þó árangurinn sé lítill, undirskriftasöfnun og fleira, undir forustu Alþb. með fundi hér og fundi þar, eins og mátti sjá í fjölmiðlunum. Það var meira sýnt frá þeim í sjónvarpi en frá fundum forsætisráðherra landsins hingað og þangað. Fram kemur hjá einum stærsta atvinnurekanda og útgerðarmanni í þeim landshluta þar sem einn fundurinn var að nú skuli fella ríkisstjórnina sem fyrst. Skiljið þið ekki af hverju? — Sem atvinnurekanda er mér ekki nokkur leið að skilja það, því að batnandi tíð með minnkandi verðbólgu, lækkandi vöxtum og lækkandi útgerðarkostnaði og vinnslukostnaði hlýtur að vera honum í hag.

En þá vil ég segja: Hvað á það að þýða að Alþýðusambandið, þó forustumaður þess sé meðlimur Alþb., sé að sækja svona ákvarðanir um aðgerðir gegn ríkisstjórnarmönnum á fund til Alþb.? Vill fólk í verkalýðshreyfingunni virkilega sem ein heild lúta slíkri forustu Alþb., kommúnistadeildar Alþb., almennt? Í verkalýðshreyfingunni eru sjálfstæðismenn, Alþfl.-menn, framsóknarmenn og kannske óflokksbundnir sem hafa engar taugar til Alþb. eða annarra stjórnmálaflokka. Vill þetta fólk virkilega lúta forustu Alþb. á þjóðmálasviðinu? Ég segi nei. Og það vita forustumenn verkalýðssamtakanna allra. Og þess vegna er það sem ég sagði: Hafið þið leynilegar atkvæðagreiðslur meðal meðlima almennt, en ekki skriflegar atkvæðagreiðslur þar sem fólk er hrætt við að skrifa ekki undir af ótta við að vera talið óstéttvíst eða að það verði sagt frá því í forustusveit viðkomandi stéttarfélags. Ég fékk tólf upphringingar frá aðilum sem eru meðlimir í BSRB og sögðu þeir mér að þeir þyrðu ekki annað en skrifa undir af ótta við ummæli sem trúnaðarmenn höfðu haft á vinnustað.

Segjum að þetta sé allt gott eitt og blessað. Það getur vel verið að fólk vilji þetta. Mér þykir það ótrúlegt. En það sem kemur á eftir er áróðurinn, það er áróðurinn í fjölmiðlum hér og fjölmiðlum þar, á dýrustu stöðum, í sjónvarpi, í útvarpi, sem dynur allan daginn, í fréttatímum og öllum auglýsingatímum. Hver borgar þennan kostnað? Kom fyrirskipun frá miðstýringu í Reykjavík um að verkalýðsfélög út um land allt skyldu auglýsa í sjónvarpi og auglýsa í útvarpi og öllum dagblöðum? Og hver borgar þennan kostnað? Það skyldi þó aldrei vera að þetta komi af styrk sem Alþingi samþykkir á fjárlögum til starfsemi stjórnmálaflokkanna. Það skyldi þó aldrei vera af þessum svokallaða blaðastyrk. (SvG: Er fjmrh. lítið um að kjósandinn borgi starfsemi verkalýðsfélaganna?) Forseti. Hvor okkar hefur orðið, ég í ræðustól eða ...? (Forseti: Ræðumaður hefur orðið.) Hver borgar þetta? Það er kannske hægt að fá orðið aftur og svara því. Það væri gaman að fá að vita það. Hver borgar slíkar auglýsingar? Og hver borgar þá fundahöldin út um allt? Það er sagt að blöðin séu alveg að deyja út vegna fjárhagsörðugleika. Ég er búinn að gera tillögur á Alþingi um að leggja þessa styrki niður allt frá því að þeir fyrst komu á dagskrá hér sem tillaga. Það hefur aldrei fengist samstaða um það af ótta við blað sem ekki er flokksblað Sjálfstfl. þó að þeir menn sem reki það hafi sömu hugsjónir, þ.e. Morgunblaðið. Það hefur engan blaðastyrk, en fær greitt fyrir þau blöð sem það afgreiðir.

Svo er spurt: Hver borgar kostnaðinn við að koma á framfæri til fólksins skýringum á þeim aðgerðum sem réttkjörin ríkisstj. þarf að gera hverju sinni? Það skyldi þó aldrei vera að það fylgi kvöðum ráðh. að borga það af eigin launum? Ég held að það sé alveg augljóst, að ef ríkisstjórn þarf að koma einhverju á framfæri, hvort sem það er í sérprenti eða á annan hátt, yrði ríkissjóður að borga það. Það verður að gera ráð fyrir því. Og það veit hv. þm., sem hefur verið hæstv. ráðh. þó það sé fyrrverandi, að samþykktir innan ríkisstj. hljóta að vera bornar uppi af sameiginlegum sjóði. Hann veit því svarið áður en hann spyr.

Ég harma að það var farið út í umræður um þessi mál núna, en það er oft á Alþingi að mönnum liggur á að koma því á framfæri sem liggur þeim mest á hjarta undir öðrum dagskrárliðum en vera ber. Hér er á dagskrá umræða um samkomudag Alþingis. Það hefur verið fullyrt hér. — Með leyfi forseta, er það ekki málið á dagskrá, samkomudagur Alþingis? (SvG: Eru ekki utandagskrárumræður?) (Forseti: Hv. 5. landsk. þm. hélt framsöguræðu í þessum umræðum og gerði grein fyrir því.) Já, að dagskrárliðurinn væri samkomudagur Alþingis? (Forseti: Það er miklu víðtækara.) (EG: Ég baðst hljóðs utan dagskrár, hæstv. fjmrh.) Já, það er ágætt. Ég stóð í þeirri meiningu, mér var sagt það fyrir þennan fund, að það hefði verið beðið um orðið út af samkomudegi Alþingis. Ég vissi ekki að önnur mál væru á dagskrá, en það var mér sagt og ég tek það sem heilagan sannleika. (Forseti: Ég vil taka fram til þess að það valdi engum misskilningi, að hv. 5. landsk. þm. batt ekki fyrirspurn sína við samkomudag Alþingis. En meginkjarninn í því sem hann sagði varðaði þá staðreynd að Alþingi hefði ekki komið saman í sumar.)

Ég var að svara hv. 3. þm. Reykv., sem taldi það brot á lýðræðinu að Alþingi skyldi ekki hafa verið kallað saman, og ég vil svara honum með því að vitna í stjórnarskrá lýðveldisins og eins svara þeim fullyrðingum sem hann hefur verið með um brbl. og skerðingu á kjarasamningum. Ég vona að hann gefi sér tíma til svara aftur. — Það er ólíkt honum ef hann langar ekki til að taka til máls aftur. Ég ætla ekki að fara að mana hann hingað upp eins og hann var að mana ýmsa aðra þm. upp í ræðustólinn. Það er taktík sem hann hefur tamið sér. En ég vil þá gjarnan, ef hann kemur upp aftur, spyrja hann: Hver greiðir kostnað við alla þá miklu herferð sem farin var til að fella ríkisstj.?, eins og kom fram í sjónvarpsþætti sem sjónvarpað var frá Akranesi og á röngum forsendum að mínu mati, — og ætla að reyna að bíða eftir svari frá honum.