04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (3799)

218. mál, útvarpslög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þrettán ár voru liðin í síðasta mánuði frá því að útvarpslög voru síðast endurskoðuð og margt hefur breyst síðan, ekki síst á sviði fjölmiðlunar. Því var fyllilega tímabært að taka lög þessi til endurskoðunar, eins og ákveðið var í tíð síðustu ríkisstj. með skipun sérstakrar nefndar til að undirbúa tillögur um lagabreytingar. Það er afrakstur af því starfi sem hér liggur fyrir til umr. í því frv. sem hæstv. menntmrh. hefur mælt hér fyrir.

Undirbúningur þessa máls er hins vegar með nokkuð sérstæðum hætti af hálfu hæstv. núv. ríkisstj. Fyrir liggur að milli ríkisstjórnarflokkanna er verulegur ágreiningur um þetta mál varðandi veigamikil atriði. Af blaðaummælum má ráða að þingflokkur eða þm. Sjálfstfl. séu í mörgum atriðum ósammála tillögum útvarpslaganefndar, eins og þær birtast í fyrirliggjandi frv., sem menntmrh. Sjálfstfl. hefur þó lagt fram sem stjfrv., og eins kann því að vera varið með þinglið Framsfl. í heild eða að hluta til. Þá hafa komið hér fram nú þegar brtt. frá tveimur hv. þm. Sjálfstfl. Það er því ekki að undra þótt tekið sé fram í upphafi athugasemda með frv. að það kunni að taka breytingum í meðförum Alþingis.

Veruleg óvissa hlýtur að ríkja um niðurstöðu þessa máls þegar þannig er háttað um afstöðu þeirra er það bera fram. Alþb., sem er ósammála nokkrum mikilsverðum atriðum í þessu frv., þarf vissulega ekki að harma þessa stöðu málsins, þar eð von getur verið um að fá fram æskilegar breytingar á því í meðferð þingsins.

Áður en vikið er að einstökum þáttum þessa máls er ástæða til að minnast á nokkur grundvallaratriði. Alþb., sem berst fyrir eflingu lýðræðis og opnu þjóðfélagi, þar sem mismunandi skoðanir fái óhindrað að njóta sín, tekur að sjálfsögðu undir kröfu um að þau viðhorf endurspeglist í fjölmiðlun í landinu. Við gagnrýnum þá þróun þar sem fjármagn verður drottnandi afl og ráðandi um útbreiðslu áróðurs og viðhorfa eins og gerist í vaxandi mæli í blaðaútgáfu. Alþb. er því fylgjandi að raddir sem flestra fái að heyrast, jafnt í rituðu og töluðu máli, óháð fjármunalegum og viðskiptalegum hagsmunum. Flokkurinn er jafnframt þeirrar skoðunar, að hlúa beri að frumkvæði smærri eininga og einstaklinga í sköpun og miðlun efnis, svo fremi slík miðlun verði ekki með beinum eða óbeinum hætti háð fjármagni og efnahagslegum hagsmunum fárra, m. a. í krafti auglýsinga.

Alþb. fagnar dreifðu frumkvæði almennings, hvort sem það birtist í staðbundinni útgáfu blaða og annars ritaðs máls eða í útvarpi, jafnt hljóðvarpi og sjónvarpi, sem telja má óháð í reynd og byggir ekki fjárhag sinn á viðskiptaauglýsingum né heldur á aðkeyptu efni að meiri hluta til.

Íslenska ríkisútvarpið hefur í mörgum efnum staðið vel í stykkinu, þrátt fyrir tiltölulega þröngan fjárhag lengst af og bágan aðbúnað. Það hefur verið sæmilega lýðræðislegt tæki í reynd, opið öllum landsmönnum og tekið tillit til ólíkra viðhorfa. Á þetta ekki síst við um hljóðvarpið. Nýmæli eins og svæðisstöðin á Akureyri sýna einnig ljóslega að margt má bæta að óbreyttum lögum á vettvangi Ríkisútvarpsins og raunar mikil þörf á því að haldið verði áfram með nýbreytni eins og hún birtist í svæðisútvarpi á Akureyri sem taka þarf til annarra landshluta með hliðstæðum hætti.

Krafan um að fleiri fái að spreyta sig í útvarpsrekstri er hins vegar eðlileg, m. a. í ljósi tækniþróunar og þó enn frekar vegna þess hve nærtækt er fyrir einstaklinga að eiga hlut að mótun og miðlun staðbundins útvarpsefnis. Um það vitnar leikni ungs fólks og tilraunir með eins konar staðbundið hljóðvarp á heimilum og í skólum. Svipuðu máli gegnir í vaxandi mæli með sjónvarpsefni á myndsnældum, kapalkerfum fjölbýlishúsa og í heilum sveitarfélögum.

Þessi þróun hefur leitt til skjótra viðhorfsbreytinga, sem valda því að æ fleiri efast um réttmæti þess að leyfa Ríkisútvarpinu einu, undir forræði fárra aðila, að standa að útvarpssendingum.

Af öðrum toga er áhugi og þrýstingur framleiðenda tækja og annars búnaðar á þessu sviði, iðnaðarsamsteypa og auðhringa á Vesturlöndum sem ráða miklu um markaðinn. Tengist því einnig samkeppni milli landa um framleiðslu og sköpun atvinnu í þessum vaxtargreinum iðnaðar. Um þann þátt, svo mikilvægur sem hann er, mun ég hins vegar ekki ræða frekar að þessu sinni, en víkja hér að einstökum liðum þessa máls sem tengjast fyrirliggjandi frv.

Meginbreytinguna frá gildandi útvarpslögum er að finna í 1. kafla frv., um rétt til útvarps, þar sem gert er ráð fyrir heimild til að veita öðrum aðilum en Ríkisútvarpinu leyfi til útvarpsrekstrar, sbr. 2. gr., og með þeim takmörkunum sem er að finna í 3. gr. frv. Hér er grundvallaratriði á ferðinni sem skylt er að taka sem skýrasta afstöðu til.

Ég minni í þessu sambandi á að flokksráð Alþb. ályktaði um þessi efni í nóv. 1982 í sérstakri ályktun um fjölmiðla. Þar kemur fram að Alþb. telur tímabært að sett verði lög um tilraunir með svæðaútvarp, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Skilyrði fyrir stuðningi Alþb. við slíkar breytingar er hins vegar m. a. skv. þessari ályktun að „auglýsingar eða hvers konar önnur verslun með útsendingartíma verði óheimilar utan Ríkisútvarpsins“. Þessi flokksráðsfundur Alþb. hvatti sérstaklega verkalýðshreyfinguna og aðrar lýðræðislegar fjöldahreyfingar að íhuga aðild að svæðaútvarpi.

Jafnframt því að minna á þessa samþykkt Alþb. frá í nóv. 1982 vísa ég til sérálits fulltrúa Alþb. í útvarpslaganefnd, Ólafs R. Einarssonar, við álit útvarpslaganefndar, sem prentað er í viðauka með frv. á þskj. 387, bls. 22. Þar tekur hann mið af ofangreindum viðhorfum og telur rétt að afnema einkarétt Ríkisútvarpsins með ákveðnum skilyrðum, m. a. varðandi auglýsingar.

Ég vil hér leggja sérstaka áherslu á tvennt varðandi þetta atriði:

1. Að þau kerfi, sem upp verða sett til dreifingar á útvarpsefni, verði í opinberri eigu, þannig að allir sem uppfylla sett skilyrði til útvarpsrekstrar eigi kost á að hagnýta sér kerfin og þannig verði komið í veg fyrir einokun. Þessu atriði eru ekki gerð skil í áliti útvarpslaganefndar og í fyrirliggjandi frv., en hér er um slíkt grundvallaratriði að ræða að kveða verður skýrt á um það í lögum.

2. Að verslunar- og viðskiptaauglýsingar verði ekki heimilaðar öðrum en Ríkisútvarpinu, en hins vegar verði rúm fyrir tilkynningar er varða þjónustu, félagslíf og menningarstarfsemi. Er þetta mun meira takmarkandi en ákvæði frv. um auglýsingar skv. 4. gr.

Hér er um grundvallaratriði að ræða, sem ráða í reynd úrslitum um það hvort um frjálsa og óháða útvarpsstarfsemi verði að ræða, eða hvort slík starfsemi verður viðfangsefni fárra og fjársterkra aðila í krafti auglýsinga eða einokuð með einkaeign á dreifikerfum. sú mótbára kann að heyrast varðandi hið síðarnefnda að nú þegar sé búið að leggja kapalkerfi til dreifingar á sjónvarpsefni. Þar er hins vegar að jafnaði um svo ófullkomnar rásir að ræða að til endurnýjunar kemur fyrr en varir og þá þarf að huga að lagningu fjölþráðakapla sem verði í opinberri eigu.

Þótt þetta sé hér fyrst talið og á það lögð sérstök áhersla eru mörg önnur atriði sem skýra þarf nánar eða breyta að mínu mati í þessu frv. Verða hin helstu hér rakin.

Í 2. lið 3. gr. er kveðið á um að skilyrði fyrir veitingu leyfis til útvarps skuli háð samþykki sveitarstjórna á viðkomandi svæði. Skv. 1. tölul. 5. gr. er kveðið á um að sveitarstjórn þurfi að heimila lagningu þráðar til útvarpssendinga um lönd sín. Er það eðlilegt ákvæði en að sama skapi óeðlilegt að sveitarstjórn geti haft neitunarvald um útvarp um slíkan þráð. Ætti því aðeins að áskilja umsögn sveitarstjórnar í því efni. Hins vegar er eðlilegt að setja það skilyrði að aðilar, sem búa utan þess svæðis sem leyfið skal taka til, megi ekki vera þátttakendur í félagi til útvarpsrekstrar.

Í 3. tölul. 3. gr. er kveðið á um að óheimilt sé að veita erlendum aðilum leyfi til útvarpsrekstrar. Rétt verður að telja að sams konar ákvæði gildi um aðild að útvarpsrekstri og komi þá sem viðbót við sama lið.

Í 8. tölul. 3. gr. er ákvæði um að óheimilt sé að aðrir en útvarpsrekstrarfélag kosti almenna dagskrárgerð viðkomandi stöðvar, en þó gildi það bann ekki um einstaka dagskrárliði. Hér er afar varhugaverð undanþága á ferðinni sem í raun opnar fyrir utanaðkomandi aðila að hafa mikil áhrif á dagskrárgerð viðkomandi útvarps. Ég tel því rétt að orða þennan lið eitthvað á þessa leið: Óheimilt er að aðrir aðilar en félag það sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar kosti dagskrá viðkomandi útvarpsstöðvar. Þá er ekki óeðlilegt að inn verði sett ákvæði þess efnis að ekki minna en helmingur útsends efnis sé tekinn saman af starfsliði leyfishafa, þ. e. viðkomandi útvarpsfélagi.

Vert er að vekja athygli á að hvergi er að finna í frv. ákvæði er geri ráð fyrir að til samstarfs geti komið milli útvarpsstöðva. Þarf í því sambandi að gera ráð fyrir hugsanlegri myndun bandalaga eða „networks“, eins og það er kallað á ensku máli, slíkra stöðva sem víða eru fyrirferðarmikil í útvarpsrekstri erlendis.

Hins vegar ætti að athuga um stuðning opinberra aðila eins og Ríkisútvarpsins, t. d. í tengslum við upptökuver eða upptökuaðstöðu, og greiða þannig fyrir gerð innlends efnis.

Varðandi 4. gr. hef ég þegar gert athugasemdir um heimild til auglýsinga. Við það vil ég bæta ábendingum um að alvarlega verði athugað að fella með öllu niður auglýsingar í sjónvarpi Ríkisútvarpsins. Í athugasemdum með frv. kemur fram að auglýsingatekjur sjónvarpsins eru innan við fjórðungur heildartekna og er þá um brúttótekjur að ræða. Vitað er að til frádráttar má reikna allverulegan kostnað sjónvarpsins af vinnu við skeytingu auglýsinga en slíkt mundi sparast væru auglýsingar aflagðar. Einnig er vert að nefna þann mikla aðstöðumun sem innlendir framleiðendur, sem auglýsa vörur sínar í sjónvarpi, búa við í samkeppni við erlenda aðila varðandi tilkostnað af gerð auglýsingaefnis. Væri af þeim sökum einum eðlilegt að fella sjónvarpsauglýsingar niður. Þá má og benda á að auglýsingar í sjónvarpi hér eru viss þrándur í götu væntanlegs alþjóðlegs samstarfs um sjónvarpssendingar, t. d. skv. NORDSAT-áætluninni. Af öðrum Norðurtöndum eru það aðeins Finnar sem heimila auglýsingar í sjónvarpi það best ég veit.

Varðandi 5. gr., sem snertir útvarp um þráð, mætti ýmislegt vera skýrara og gefur ástæðu til nánari athugunar í nefnd. Ég nefni sem dæmi ákvæði 4. töluliðar um undanþágu frá ýmsum takmarkandi ákvæðum 3. gr., sé móttaka bundin við 36 íbúðir. Hvers vegna hér er miðað við 36 íbúðir en ekki einhverja aðra skilgreiningu er harla óljóst og svo er einnig um efni í 2. og 3. tölulið um fjármál o. fl.

Kemur þá að kaflanum um Ríkisútvarpið. Hann hefur ekki að geyma nýmæli eða jafnmörg álitamál og I. kafli frv., en þó þarf ekki síður til hans að vanda. Ríkisútvarpið verður eftir sem áður burðarás í útvarpsfjölmiðlun, væntanlega um langa framtíð, og að Ríkisútvarpinu þarf að búa sem best.

Fulltrúi Alþb. í útvarpslaganefnd gerði tillögu um það að lögleitt yrði ákvæði um starfsmannaráð við Ríkisútvarpið og undir það vil ég sérstaklega taka. Slík starfsmannaráð eiga að vera starfandi í hverri ríkisstofnun. Á það lagði Alþb. áherslu m. a. í tíð dr. Gunnars Thoroddsens og þá var gefin út reglugerð af Ragnari Arnalds sem fjmrh. um réttindi og skyldur slíkra starfsmannaráða.

Á sama hátt fellur það að stefnu Alþb. að forstjórar ríkisstofnana séu ráðnir tímabundið til fjögurra eða fimm ára í senn, en ekkert ákvæði er að finna um það varðandi útvarpsstjóra. Sama ætti raunar einnig að gilda um framkvæmdastjóra deilda Ríkisútvarpsins skv. 15. gr.

Í 18. gr. er kveðið á um innheimtu afnotagjalds af útvarpstækjum sem yrðu áfram ásamt auglýsingatekjum aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins. Í því sambandi er vert að kannað verði sérstaklega að kvótaskipta afnotagjaldi þannig — svo notuð sé orðmynd sem oft ber á góma um sjávarútvegsmál um þessar mundir — að hluti af því rynni til svæðisútvarps eða í sérstakan sjóð til eflingar slíkri starfsemi, t. d. 1/4 hluti gjaldsins. Gætu menn t. d. valið þá svæðisstöð sem þeir vildu styðja. Með þessu móti yrði innheimta einfaldari í sniðum og unnt að tryggja svæðisstöðvum lágmarkstekjur, er kæmi í stað þess sem gert er ráð fyrir skv. frv. að aflað yrði með viðskiptaauglýsingum. Upphæð heildarafnotagjalds yrði að sjálfsögðu að taka mið af slíkri skiptingu, þannig að Ríkisútvarpið bæri ekki skarðan hlut frá borði.

Herra forseti. Ég hef hér stiklað á ýmsu því sem ég tel vanta í þetta frv. til útvarpslaga og jafnframt greint frá meginviðhorfum þingflokks Alþb. til málsins.

Ýmis álitamál og spurningar vakna við lestur þessa frv., umfram það sem ég hef hér gert að umtalsefni, bæði tæknilegs eðlis og varðandi menningarstefnu og fræðstu tengda útvarpsrekstri. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær mál þetta væntanlega til meðferðar. Ég mun þar leita svara við ýmsum áleitnum spurningum og fylgja eftir þeim sjónarmiðum og hugmyndum um breytingar á frv. sem ég hef hér gert að umtalsefni eða með brtt. áður en frv. fer til n. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að athuga þessi mál ásamt mínum þingflokki í samvinnu við aðra sem standa vildu að breytingum sem samstaða gæti orðið um.

Um leið og ég ítreka fylgi Alþb. við tímabundnar tilraunir með svæðaútvarp minni ég á eftirfarandi úr ályktun flokksráðsfundar Alþb. frá því í nóv. 1982. Þar segir:

„Flokksráðsfundurinn leggur ríka áherslu á ómetanlegt hlutverk Ríkisútvarpsins til að viðhalda og efla íslenska menningu. Ríkisútvarpið er og verður áfram sameiningarafl í þjóðfélaginu, frjáls fjölmiðill, opinn öllum landsmönnum. Ekkert má gera sem teflir þessu hlutverki Ríkisútvarpsins í hættu.“