04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4466 í B-deild Alþingistíðinda. (3802)

218. mál, útvarpslög

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig róttæk breyting í átt til þróunar útvarps þar sem gert er ráð fyrir þeim nýmælum að fleirum en ríkinu verði veittur réttur til útvarps að uppfylltum ákveðnum skilyrðum — ég endurtek — að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. En það er samt sem áður fáránlegt að við skulum yfirleitt vera hér að ræða um það hvort, hvernig og hvenær við ættum að rýmka þessa einkaréttarlöggjöf á meðan löndin í kringum okkur eru sem óðast að undirbúa sig undir að taka sem best á móti þeirri tæknibyltingu sem tölvuvæðing almennt er. Þær þjóðir gera sér grein fyrir því hvað það er sem er framundan og vinna að því og skipuleggja sig í samræmi við það.

Samhliða því sem ég fjalla um frv. mun ég reifa brtt. þá sem fyrir liggur á þskj. 534 frá Kristínu S. Kvaran og Guðmundi Einarssyni. 1. kafli frv. fjallar ítarlega um það með hvaða skilyrðum leyfi verði veitt til stofnunar og reksturs útvarpsstöðvar. Til þess að kóróna verkið er nú lagt til að sjö menn, kjörnir af Alþingi, skipi útvarpsréttarnefnd. Það á að vera hlutverk þessara sjö manna að vega og meta hverjir skuli taldir hæfir til að stunda útvarpsrekstur og hverjir skuli útskúfaðir frá hnossinu. Um þetta atriði mun ég fjalla nánar síðar en tek nú til við að ræða einstakar greinar.

Við 1. gr. er að okkar mati ekkert sérstakt að athuga, enda er nauðsynlegt að hafa þar hugtakaskýringu á því hvað er átt við með útvarpi, sjónvarpi og hljóðvarpi. Öðru máli gegnir hins vegar þegar kemur að 2. gr., en í brtt. okkar er lagt til að greinin orðist svo, með leyfi forseta: „Ríkisútvarpið annast útvarp í samræmi við ákvæði 2. kafla laga þessara. Öðrum aðilum er heimilt að annast útvarp skv. skilyrðum 3.–6. gr. þessara laga.“

Svo mörg voru þau orð. Hér er lagt til að hægt sé að stofna útvarpsstöð alveg á sama hátt og sett eru á laggirnar dagblöð og án þess að þar þurfi að koma til kasta einhverrar nefndar sem veiti leyfi eða hafni leyfisbeiðni. Ég álít að með greininni, eins og hún stendur í frv., sé verið að ganga á rétt tjáningarfrelsis manna. Því til skýringar álít ég sambærilegt ef um væri að ræða einhverja nefnd er ákvæði hvort mönnum skuli heimilað að stofna dagblað. Það mundi hiklaust vera túlkað sem verið væri að ganga á rétt manna til ritfrelsis. Því er með brtt. lagt til að útvarpsréttarnefnd verði ekki með í þessu frv. Þetta getur verið svo sáraeinfalt að Póstur og sími úthluti viðkomandi bylgju til þess að senda út á. Það þarf enga útvarpsréttarnefnd til ess að vega það og meta.

Í brtt. er einnig lagt til að 1. mgr. 3. gr. falli niður, enda fjallar hún um það áframhaldandi hvernig útvarpsréttarnefndin eigi að hefta frelsi manna til útvarpsreksturs. Fyrsta liðnum leggjum við hins vegar til að verði haldið óbreyttum eins og hann er í frv.

Í samræmi við framangreint er 2. og 4. liður óþarfur þar sem fram og til baka er verið að reifa hvernig þrengja megi að leyfisveitingum, auk þess sem 4. liðurinn gerir það útilokað fyrir alla, nema ef vera skyldi mjög svo fjársterka aðila, að stofna og reka útvarp. Með þessu á ég við það ákvæði þar sem stendur orðrétt í frv., með leyfi forseta:

„Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum.“

Það er vart annað hægt en að hlæja að þessu og þó er þetta um leið mjög svo háalvarlegt mál vegna þess að þetta takmarkar mjög svo getu manna til útvarpsreksturs. Vil ég þar bara taka sem dæmi stöðvar sem flytja vilja efni sem er trúarlegs eðlis. En skv. þessari mgr. í 3. gr. þyrftu þær alltaf að sjá til þess að allar skoðanir á trúmálum fengju komið fram.

Annar liður brtt. er því í samræmi við 3. lið frv. 3. liður brtt. er í samræmi við 5. lið frv. 4. liður brtt. er einnig í samræmi við 6. lið frv., við fellum þessa liði ekki út.

5. liður brtt. kveður svo á um að væntanlegar útvarpsstöðvar skuli kosta sína dagskrárgerð sjálfar að öllu leyti. 7., 8. og 9. lið 3. gr. leggjum við til að falli niður vegna þess að eina ferðina enn er verið að þrengja að frelsi manna og setja mönnum skorður, auk þess sem 9. liðurinn beinlínis stuðlar að því að verið sé að setja lög um það að nú eigi að fara að hnýsast ofan í fjárreiður manna sem hafa með útvarpsstöðvar að gera. Ef þörf krefur á slíku á það að vera hlutverk viðkomandi skattayfirvalda.

Svo sem segir í 7. lið 3. gr. frv. á að fara að ritskoða, þ. e. orðrétt, með leyfi forseta:

„Útvarpsstöðvar, er leyfi fá til útvarps skulu gera útvarpsréttarnefnd grein fyrir þeirri dagskrárstefnu sem fyrirhuguð er.“

Gott og vel, svo kemur rúsínan:

„Ef óskað er skal einnig láta í té dagskrá af böndum.“ Hvað er þetta annað en hefting á tjáningarfrelsi manna? Ég spyr. Hitt er svo annað mál að ef eitthvað reynist hafa verið athugavert við dagskrár viðkomandi stöðva og þær hafi ekki haldið sig innan ramma laganna ætti ekkert að vera auðveldara en að sækja slík mál fyrir dómstólum. Því að við verðum auðvitað að hafa það hugfast, eins og segir einhvers staðar, að enginn er frjáls sem ekki er eigin herra. Hugtakið frelsi má aldrei nota sem yfirvarp fyrir kúgun eins og mér virðist einna helst vera stefnt að hér. En það er sem sagt hvert atriðið á fætur öðru í þessu frv. sem hindra á eðlilegan framgang fjölbreyttari útvarpsreksturs. Stöðvar þurfa að fá að starfa í friði fyrir afskiptum hins opinbera rétt eins og dagblöð.

Þá er komið að 4. gr. frv. Það er gefið leyfi til þess að útvarpsstöðvar megi afla fjár til dagskrárgerðar með auglýsingum. En þar eins og alls staðar annars staðar fær útvarpsréttarnefnd að hafa puttana með í spilinu. Hún á skv. frv. að ákveða auglýsingataxta, m. a. með hliðsjón af gildandi töxtum Ríkisútvarpsins. Ég sé nú ekki betur en að þetta brjóti í bága við lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Í brtt. minni og Guðmundar Einarssonar hljóðar 4. gr. hins vegar svo með leyfi forseta:

„Útvarpsstöðvum er heimilt að afla fjár til dagskrárgerðar með auglýsingum.“

Það er álit okkar að eins og 4. gr. stendur í frv. stuðli hún að því að útvarpsréttarnefnd geti haldið uppi óeðlilegu verðlagi og verðþróun. Vitaskuld eiga stöðvarnar að ákveða verðlagningu auglýsinga sjálfar. Auglýsingataxtinn hlýtur að eiga að miðast við mat auglýsenda á gildi þess að auglýsa hjá viðkomandi stöð.

Í 5. gr. brtt. eru 3. og 4. tölul. felldir niður í samræmi við þær breytingar sem áður voru gerðar á 3. og 4. gr. frv. 6. gr. verður óbreytt að öðru leyti en því að síðasti málsliður 3. mgr. fellur brott, enda er það að okkar mati óraunhæft að setja slík ákvæði sem ómögulegt verður að fylgjast með og/eða framfylgja.

Að síðustu leggjum við til að 7. gr. frv. falli niður af ástæðum sem að framansögðu munu vera ljósar. Hvað varðar seinni hluta frv. er auðvitað margt hægt að segja. En við munum að svo stöddu ekki gera brtt. við þá hluta.

Ég vil þá að síðustu geta um nauðsyn þá sem breyting á útvarpslögum felur í sér í þá átt að tryggja fjárhag Ríkisútvarpsins sjálfs alltaf sem best einmitt til þess að frjálsræðið geti orðið sem mest hjá öðrum stöðvum. Það þarf að tryggja fjárhaginn sem best þannig að það geti ætíð sinnt lagalegum skyldum sínum og að það geti aukið áfram við þá grósku og þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Að lokum vil ég aðeins minna á atriði sem fram komu í útvarpserindi sigfúsar Björnssonar verkfræðings og kennara í tölvufræðum við Háskóla Íslands þann 25. þ. m. Þar bendir hann á að nýkomið stjfrv. um fjarskipti stangist á við útvarpslagafrv. hvað varðar rétt einstaklinga eða félaga til að starfrækja kapalkerfi og önnur fjarskipti. Útvarpslagafrv. gerir ráð fyrir afnámi einkaréttar ríkisins á þessu sviði á meðan frv. um fjarskipti gerir þennan einkarétt ríkisins ótvíræðari en nokkru sinni fyrr. Sigfús sagði að í frv. um fjarskipti væri felld niður heimild til ráðh. um að veita öðrum aðilum en ríkinu leyfi til reksturs minni háttar fjarskiptakerfa. Þar með yrði lokað þeirri smugu á ný að sjálfstæðir aðilar geti rekið gagnvirk kapalkerfi, smugu sem opnast verði útvarpslagafrv. samþykkt og hefði ráðherraheimildinni í fjarskiptalagafrv. verið haldið óskertri.