04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4475 í B-deild Alþingistíðinda. (3806)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir meirihlutaáliti sjútvn. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52 28. apríl 1983, um útflutningsgjald af sjávarafurðum.

Grg. með þessu frv. er svohljóðandi:

„Í framhaldi af ákvörðun fiskverðs og vegna hins alvarlega þorskaflabrests á þessu ári, svo og vegna nýrra reglna um stjórn botnfiskveiða, er nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir í sjávarútvegi og er frv. þetta annað af tveimur sem flutt eru í þessu skyni.

Frv. gerir ráð fyrir að útflutningsgjald af saltfiski verði ákveðið 4% á árinu 1984 til þess að jafna þann mikla mun sem er á afkomu söltunar og frystingar og draga úr taprekstri saltfiskverkunar.

Á undanförnum árum hefur saltfiskverkun sætt því að frá henni væri fært fé til annarra greina. Nú á þessi grein við sérstök — vonandi tímabundin — vandamál að stríða. Vegna þess er frv. þetta flutt í því skyni að lækka útflutningsgjöld af saltfiski um 1.5% af framleiðslu ársins 1984. Áætlað er að þessi breyting lækki tekjur af útflutningsgjaldi um 38 millj. kr. á árinu 1984 en auki tekjur vinnslunnar að sama skapi. Eftir sem áður eru horfur á hallarekstri í saltfiskverkun á þessu ári, eins og fram kemur í fskj.“

Nefndin fjallaði allítarlega um þetta mál og óskuðu hagsmunaaðilar skreiðarverkenda eftir sameiginlegum fundi með sjútvn. beggja deilda til þess að lýsa áhyggjum sínum út af erfiðleikum þeirrar atvinnugreinar. Nefndin tók því þá ákvörðun að fjalla sérstaklega um þann þátt og fannst eðlilegt að fella það inn í þetta álit.

Einnig barst nefndinni bréf frá sjútvrn. um útflutning á lifrarlýsi og segir f upphafi bréfsins: „Útflutningur lifrarlýsis, þ. e. meðalalýsis og fóðurlýsis, hefur átt í vök að verjast vegna samkeppni við tilbúin vítamín. Eftirspurn eftir fóðurlýsi hefur minnkað á mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum og sumpart má rekja hann til íhaldssemi notenda sem vilja heldur gefa skepnum nútímalegt vítamín en tilbúin vítamín þótt það kosti meiri vinnu. Vegna þessa hefur Lýsi hf. haft markaðskönnun á Taiwan í þessu sambandi og reynt að afla þar markaðar fyrir fóðurlýsi.“

Í þessu bréfi er nefndin beðin að skoða þennan möguleika hvort hægt væri að gera eitthvað fyrir þessa grein einnig.

Nái. okkar meiri hluta sjútvn. á þskj. 521 er þannig: „Nefndin hefur haft frv. þetta til umfjöllunar og kynnt sér efni þess eftir föngum. Fulltrúar frá skreiðarframleiðendum óskuðu eftir fundi með sjávarútvegsnefndum beggja deilda þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum með erfiða afkomu atvinnugreinarinnar. Sjávarútvegsnefnd barst einnig bréf þar sem vakin var athygli á nauðsyn þess að efla markaðsleit fyrir fóðurlýsi. Að athuguðu máli taldi meiri hluti nefndarinnar rétt að gera brtt. við 1. gr. frv. og flytur hana hér á sérstöku þskj.

Undir þetta rita Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Gunnar G. Schram, Ingvar Gíslason, Halldór Blöndal og Friðrik Sophusson.

Brtt. við frv. er þannig frá meiri hl. sjútvn.:

„1. gr. frv. orðist svo:

Á eftir 15. gr. laganna komi nýtt ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skal útflutningsgjald af saltfiski, framleiddum á árinu 1984, vera 4% af fob-verðmæti. Sama gildir um skreið sem framleidd var fyrir 31. des. 1983 og ógreidd var á þeim degi.

Jafnframt er ráðh. heimilt að lækka eða fella niður útflutningsgjald af fóðurlýsi sem framleitt er á árinu 1984 og 1985, enda flytji framleiðendur það út undir íslensku vörumerki.“

Hv. alþm. Guðmundur Einarsson skilar minnihlutaáliti á þskj. 557. Þar er lagt til að útflutningsgjaldið af skreiðinni lækki einnig til samræmis við það sem á við saltfiskinn, úr 5.5% í 4.5%, og að ráðh. sé gefin heimild til þess að fella niður útflutningsgjald af fóðurlýsi sem framleitt er á árinu 1984 og 1985.