05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4515 í B-deild Alþingistíðinda. (3844)

236. mál, niðurfelling aðflutningsgalda og söluskatts hitaveitna

Páll Pétursson:

Herra forseti. Eins stendur á um þessa þáltill. á þskj. 415 og þá á þskj. 413 að hún er flutt af hv. þm. Sverri Sveinssyni, Jóni Sveinssyni, Ingvari Gíslasyni og Þórarni Sigurjónssyni, en mér hefur verið falið að mæla fyrir henni. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af aðveituæðum og dreifikerfum hitaveitna.“

Grg. fylgir með till. og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á síðustu tíu árum hefur verið gert stórátak í nýtingu jarðvarma til upphitunar húsa hér á landi og á þeim tíma hefur hlutur jarðvarma í húshitun aukist úr 50% í tæp 80%. Er nú svo komið að um 77% þjóðarinnar búa við upphitun með jarðvarma. Á sama tíma hefur hlutur olíunotkunar minnkað úr 45% í 6%.

Á landinu eru starfandi 28 hitaveitur en kostnaður við upphitun frá þessum hitaveitum er allt frá því að vera innan við 10% og upp í 70% af kostnaði við upphitun með olíu. Orkustofnun vinnur að athugunum á aukinni nýtingu jarðvarma til upphitunar og iðnaðarnota. Á s. l. ári komu tvær skýrslur frá Orkustofnun um þetta efni. „Húshitunaráætlun, l. og II. hluti“. Þar eru kynntar hugmyndir um aukna nýtingu jarðvarma og frumáætlanir um 28 nýjar hitaveitur. Gerðar hafa verið kostnaðaráætlanir um jarðhitarannsóknir, boranir, lagningu aðveituæða og dreifikerfa og orkuverð fundið út frá áætluðum rekstrarkostnaði.

Á síðasta löggjafarþingi var samþykkt breyting á orkulögum, nr. 58/1967. Við 53. gr. var bætt svohljóðandi ákvæði:

„Eigi skal innheimta aðflutningsgjöld og söluskatt af borverkum og aðföngum Jarðborana ríkisins vegna orkurannsóknarborana og borana til vinnslu jarðhita.“

Ljóst er að þetta hefur lækkað verulega kostnað við nýtingu jarðvarma til upphitunar þar sem stór hluti kostnaðarins er við virkjun jarðvarmans.

Flm. þessarar þátill. benda á að ef tækist að lækka flutnings- og dreifingarkostnað heita vatnsins með því að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af aðveituæðum og dreifikerfum hitaveitna kynni að skapast grundvöllur fyrir sumar þær hitaveitur sem þegar hafa verið gerðar frumáætlanir um.

Á það skal einnig bent að fjármögnun nýrra hitaveitna hefur að langmestu leyti verið með erlendum lánum og teljum við í fyllsta máta óeðlilegt að taka erlend lán til greiðslu aðflutningsgjalda og söluskatts sem rennur svo til óskiptur í ríkissjóð.“

Ég held að hv. alþm. hljóti að fallast á að aðveituæðar og dreifikerfi hitaveitna eru nauðsynlegur hluti til virkjunar hitaorkunnar og þess vegna sé eðlilegt og sjálfsagt að fella aðflutningsgjöld og söluskatt af öllum þáttum mannvirkisins, ef á annað borð er eðlilegt að fella söluskatt og aðflutningsgjöld niður af einhverjum hluta. Við leggjum til að það verði fellt niður af öllu mannvirkinu.

Ég vil leyfa mér að fara þess á leit að þegar þessari umr. verður frestað í dag verði till. vísað til hv. allshn. til athugunar.