02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Vestf. Ég hafði ekki hugmynd um það í gær að þetta bréf hefði verið skrifað. Ég hélt að um væri að ræða þetta eina afmarkaða dæmi eða atvik, stöðvun flugvélar á Súgandafirði, þegar ég ræddi við flugmálastjóra hér í síma úr þinghúsinu. Þá minnti hann aftur á fjármálavandann og ég sagði honum að það mál væri til afgreiðslu og hann sagði þá aftur að hann vildi fá það skriflegt að það væri að leysast. Ég sagðist ekki senda bréf héðan úr þinghúsinu, það mundi verða tekið fyrir í morgun, en þá lá þetta fyrir, svo að ég er búinn að svara því með öðrum hætti eins og fram hefur komið. Mér er ekki kunnugt um að flugmálastjórn, sem heitir flugráð, hafi fjallað neitt um þetta bréf flugmálastjóra. Hins vegar fullyrði ég ekkert um það fyrr en ég hef talað við formann flugráðs. En ég veit ekki til þess og finnst það mjög ólíklegt að flugráð hafi fjallað um þetta, enda kemur það fram í bréfinu að þetta er bréf og ákvörðun flugmálastjóra.