12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4737 í B-deild Alþingistíðinda. (4120)

287. mál, kennslugagnamiðstöðvar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta mörgu við þá ágætu framsögu sem 1. flm. þessarar till. hafði hér fyrir henni. En eins og fram kemur eru hér flm. úr öllum þingflokkum svo að við gerum okkur von um að þessi till. fái góðan byr á hv. Alþingi. Eins og fram kemur í texta hennar og fram kom í máli hv. 1. flm. er meginmarkmiðið að skapa börnum í landinu og skólafólki í grunnskólum alveg sérstaklega sem jafnasta aðstöðu. Væntanlega geta slíkar miðstöðvar hins vegar einnig orðið framhaldsnámi vítt um landið til styrktar og fræðsluskrifstofurnar í fræðsluumdæmunum láta sig raunar nú þegar málefni framhaldsskólans nokkru skipta.

Ég vildi vekja athygli á því að ég hygg að það sé víðtækur stuðningur við þetta mál hjá því fólki sem gerst ætti að þekkja til, starfsfólki skólanna, fræðsluskrifstofa og innan ráðuneytis að ég hygg líka. Það var árið 1981, 29.–30. okt., að menntmrn. efndi til sérstakrar ráðstefnu í Munaðarnesi til að fjalla um endurskoðun laga um grunnskóla, laganna frá 1974. Á þeirri ráðstefnu starfaði sérstakur starfshópur einmitt að því að fara yfir X. kafla laganna sem varðar skólasöfn og bókasöfn. Skilaði hann álitsgerð þar sem einmitt var vakin athygli á nauðsyn þess að upp rísi þjónusta af því tagi sem lagt er til í þessari þáltill. úti um landið í tengslum við fræðsluskrifstofurnar. Í þeim starfshópi, sem vann að tillögugerð á þessari ráðstefnu, voru auk forstöðumanns Kennslumiðstöðvar Námsgagnastofnunar, Ingvars Sigurgeirssonar, sem við flm. till. höfðum sérstaka ástæðu til að þakka fyrir aðstoð okkur veitta og góðar ábendingar, einnig námsgagnastjóri, Ásgeir Guðmundsson, tveir námsstjórar, einn fræðslustjóri og bókafulltrúi ríkisins. Það liggur fyrir frá þessari ráðstefnu álit þessara aðila varðandi þetta mál og raunar drög að brtt. varðandi X. kafla grunnskólalaganna „um kennslu- og skólasafnamiðstöðvar og skólasöfn“ eins og þátttakendur í þessum starfshópi notuðu sem yfirskrift yfir hugmyndum sínum um breytingar á grunnskólalögunum.

Ég vænti þess að þessi till. skili árangri fyrr en seinna. Þetta er ekki aðeins jafnréttismál fyrir nemendur. Þetta er líka byggðamál, þ. e. að efla fræðsluskrifstofurnar í landshlutunum með þeim hætti sem hér er lagt til. Það er mikið atriði fyrir byggðaþróun í þessu landi að þeir þættir sem skynsamlegt er að færa út í landshlutana komist þangað fyrr en seinna. Þar á hið opinbera að sjálfsögðu að hafa forgöngu og hér er einn slíkur þáttur á ferðinni, en þeir eru margir fleiri sem mættu fylgja í kjölfarið og þyrftu að komast út á landsbyggðina fyrr en seinna.