13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4776 í B-deild Alþingistíðinda. (4184)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Það voru kannske ekki svo ýkja margir í salnum og eru það reyndar ekki enn þegar hv. 2. landsk. þm. kom á framfæri upplýsingum um hvað frv. þetta til l. um tekjustofna sveitarfélaga felur í sér. Þær upplýsingar voru sannast sagna mjög athyglisverðar. Þær voru á þá leið að frv. felur í sér innheimtu útsvara, sem nemur tæplega 900 millj. kr. hærri upphæð en á s. l. ári, þar af 433 millj. kr. umfram tilefni launahækkana milli ára, en þetta jafngildir hækkun útsvarsgreiðslna að meðaltali á hverja vísitölufjölskyldu í landinu sem svarar til um 5 þús. kr. Jafnframt kom fram í máli hv. þm. skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar að skattbyrði vegna útsvars og fasteignaskatta til sveitarfélaga hefði aldrei verið jafnhá á s. l. 10 árum.

Nú er það alkunna að hér hefur verið efnt til ekki færri en 7 eða 8 umræðna um breytingar á tekjusköttum til ríkisins og snar þáttur þeirra umr. hefur verið mat á skattbyrði. Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að í aths. og grg. með frv. til fjárlaga og síðar tekjuskattsfrv. lofaði ríkisstj. út af fyrir sig ekki öðru en að skattbyrði tekjuskatta skyldi verða óbreytt milli ára. Þá er hins vegar ekki nema hálf sagan sögð. Þegar tekið er tillit til þeirra upplýsinga sem hér liggja fyrir um útsvar þá liggur það fyrir að skattbyrði opinberra beinna skatta til hins opinbera mun þyngjast mjög verulega. Af því tilefni langar mig til þess að vekja athygli hv. þm. á eftirfarandi:

Á sínum tíma birti Þjóðhagsstofnun upplýsingar um hvað sveitarfélögin þyrftu að lækka útsvarsprósentu sína mikið til þess að ná því markmiði að skattbyrði í heild milli ára hækkaði ekki og komst þá að þeirri niðurstöðu að ekki mætti miða við hærri útsvarsprósentu en um 9%. Af því tilefni leitaði ég m. a. upplýsinga frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um afstöðu þeirra til málsins. Ég fékk þá þær upplýsingar að stjórnin hefði lýst þeirri skoðun sinni við fulltrúa ríkisvaldsins, að fremur en að leggja þrýsting á sveitarfélögin um að lækka útsvarsprósentuna með þessum hætti kæmi til álita hvort Alþingi vildi ekki í staðinn breyta tekjustofnalögum að því er útsvar varðar á þann veg að skattfrelsismörk útsvars yrðu hækkuð þannig að ekki væri verið að leggja útsvar á hreinar nauðþurftatekjur. Þetta studdist auðvitað við allar þær ræður sem hér voru fluttar um nauðsyn þess að tryggja eins konar lágmarkslaun, lágmarksafkomu eða tekjutryggingu þeirra sem verst kjörin hafa.

Nú er það um þetta mál að segja að. það fór athugasemdalaust frá félmn. Ed. Þegar málið kom fyrst til þessarar deildar minntist ég þess að hér urðu nokkrar umr. um það og m. a. var þessu sjónarmiði þá hreyft og því eindregið beint til félmn. hvort hún vildi ekki í umfjöllun sinni um málið taka til athugunar þá leið sem hv. 2. landsk. þm. var hér að lýsa, að hækka skattfrelsismörkin að því er útsvarið varðaði, sem auðfærari leið til þess að þyrma lægstu laununum, bæði lægstu atvinnutekjum og bótagreiðslum almannatrygginga við þessum skatti. Ef ég man rétt, þá var tekið undir þetta sjónarmið m. a. af hv. þm. Páli Péturssyni og farið þar góðum orðum um að þetta væri hugmynd sem vissulega væri þess virði að athuga nánar. Og ef ég man rétt, þá var líka tekið undir þetta sjónarmið af hæstv. félmrh.

Nú kom það fram í máli hv. 2. landsk. þm., um leið og hún boðaði flutning frv. um þetta efni síðar á þinginu, er tæki gildi frá og með næstu áramótum, að eina ástæðan fyrir því að slíkt frv. væri ekki lagt fram nú væri að það væri orðið um seinan, þar sem sveitarstjórnir hefðu auðvitað flestar gengið frá sínum fjárhagsáætlunum, og það væri að koma aftan að þeim nú að breyta þessu. Þetta gefur mér tilefni til að álykta sem svo, að þetta sé dæmi um það að nefndir þingsins, sem hér hafa fjallað um þetta mál, hafi ekki staðið í stykkinu. Ég verð að játa að það vekur óneitanlega furðu mína að mál eins og þetta skuli hafa runnið ágreiningslaust í gegnum félmn. Ed. og fulltrúar stjórnarandstöðunnar, t. d. fulltrúar Bandalags jafnaðarmanna, Kvennalista og Alþb., skuli ekki hafa gert neinar aths. við það. Að því er varðar félmn. Nd., þá hefur þar verið fyrst og fremst eitt stórmál til umfjöllunar, sem sé frv. til l. um húsnæðismál, og þetta mál var ekki tekið þar til alvarlegrar umr. fyrr en nú fyrir nokkrum dögum. Þess vegna var í raun og veru þá þegar orðið of seint að taka málið til gagngerðrar endurskoðunar þar. Þetta ber að harma. Og þetta er dæmi um það, að mál, tæknileg mál, skattamál, geta greinilega runnið í gegnum þingnefndir án aths. Jafnvel stjórnarandstæðingar, sem ekkert fer á milli mála að mundu gjarnan vilja fylgja slíkum breytingum, gerðu í þessu tilviki engar aths. Þetta er að mínu mati víti til að varast í starfi þingnefnda framvegis.