24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4818 í B-deild Alþingistíðinda. (4240)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi taldi að það væri lítið eða ekkert á þeim svörum sem ég gaf að græða. Kannske er mín afsökun að ég skil ekki almennilega hvað hv. fyrirspyrjandi er að fara í sínum spurningum. Ég vil þó strax láta í ljós furðu mína á því hvernig hér hefur verið talað um starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem hafa þó stundað þessi störf um langt skeið og hafa held ég ekki aðrir meiri reynslu í þessum málum heldur en þeir. Það er furðulegt að halda því fram að ekki hafi komið fram álit þeirra sem mesta reynsluna hafa. En ég skýrði frá því að ríkisstj. hefði talið rétt að skoða þessi mál betur, þ. e. hvaða gerð eða hvers konar þyrlu væri heppilegast að kaupa með tilliti til flugrekstrar ríkisins almennt. Og ef ég á að fara að gefa einhverjar yfirlýsingar um það hér hvernig málum verður hagað, áður en niðurstaða af þeirri athugun liggur fyrir, þá finnst mér það sé til of mikils mælst af hv. fyrirspyrjanda. Ég vil hins vegar að það liggi skýrt fyrir að ég tel æskilegt að þetta mál sé skoðað frá sem flestum hliðum og ítarlegast. Ég hélt að það hefði komið fram í máli mínu, og mér skildist einmitt að það væri það sem hv. fyrirspyrjandi væri að leggja áherslu á, að það yrði athugað nánar en þegar hefði verið gert, en á meðan yrði útveguð þyrla sem gæti gegnt svipuðu hlutverki og þyrlan gerði sem fórst, þannig að það yrði ekki of langt hlé á þessari starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Ég held að hv. fyrirspyrjandi og eins hv. 4. þm. Suðurl. séu hér að gera ráð fyrir ágreiningi okkar á milli. Ég held að það sé a. m. k. að verulegu leyti á misskilningi byggt. Ég held að það vaki það sama fyrir okkur öllum: að fá þau tæki sem heppilegust eru, en til þess þurfi málið þá ítartegri skoðun.