25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4871 í B-deild Alþingistíðinda. (4286)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að tryggja menntun þegnanna. En það hvarflar einna helst að manni að barnadauði og dauði við barnsfarir sé stórkostlegt vandamál hér á landi, þegar maður les það frv. sem hér er lagt fram. Og maður spyr sjálfan sig hvort ástandið sé virkilega svona slæmt. Ég hygg að það sé Alþingi nokkuð hollt að fara að gera það upp við sig hvort stéttir eru að leggja til lengingu á skólagöngu af þörf fyrir menntunina eða hvort það er liður í því að koma á framfæri kaupkröfum og byggja þannig múra gagnvart þeirri æsku sem tekur við. Það væri t. d. fróðlegt að fá það upplýst hér hvaða nám ljósmæður, þær sem í starfi eru, hafa þurft að hafa til þess að ná þeim réttindum að mega kallast ljósmæður. Ég hygg að það sé lengi hægt að halda áfram að bæta ofan á kröfur um skólagöngu. Það er hægt að halda áfram svo lengi að það verði kannske aðeins nokkur ár úr miðbiki ævinnar sem fara í það að vinna, hinn hlutinn fari í það að vera í skóla og svo að komast á eftirlaun.

Það hlýtur að vera rétt að menn geri sér grein fyrir því, þegar þeir taka fyrir frv. til l. eins og hér er á ferðinni, að við erum að fjalla um stórkostleg útgjöld fyrir ríkið, í fyrsta lagi í formi skóla og í öðru lagi í formi miklu hærri launa. Við erum að leggja byrðar á ákveðna þegna í þjóðfélaginu með frv. eins og þessu, mjög miklar byrðar, og við höldum stöðugt áfram.

Heilbrigðiskerfið er gífurlega þungt eins og allir vita. Heilbrigðis- og tryggingakerfið tekur meiri fjármuni til sín en nokkuð annað á fjárlögum ríkisins. Auðvitað viljum við stuðla að því að heilbrigði sé gott í landinu. En ég veit ekki betur, ráðh. leiðréttir mig þá ef svo er ekki, en að barnadauði sé minni hér á landi en í flestum öðrum löndum heims. Ég veit ekki betur en að ef fæðingar ganga illa þá sé kallað á lækni til að vera til staðar og tryggja það að áhættan sé sem minnst. Er það virkilega álit ráðh. að sú lenging skólagöngunnar sem hér er verið að leggja til sé í einhverju samræmi við nauðsyn — eða er það staðreynd að hér er verið að láta undan þrýstingi, þeim þrýstingi að það eigi að koma öllu námi á háskólastig?

Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi að það er verið að veita mönnum undanþágur mjög grimmt á íslenska fiskiskipaflotanum, mönnum sem bera ábyrgð á lífi manna. Og ég veit ekki betur en þar sé mikið um slys. Megum við þá eiga von á því að tekin verði ákvörðun um að með einu pennastriki skuli bannaðar allar undanþágur og jafnframt ákveðið að slíkt nám verði sett á háskólastig? Það hlýtur einhvern tíma að koma að því að menn spyrji sjálfa sig: Hvað er nauðsynlegt að menn læri til þess að þeir geti sinnt ákveðnu starfi og hvað er umframlærdómur sem stefnir að því markmiði einu að koma mönnum hærra upp þjóðfélagsstigann í meiri launakröfum? Hvar eru þessi landamæri?

Ég geri mér fulla grein fyrir því að frv. eins og þetta, sem fer inn í heilbr.- og trn., mun koma út úr nefndinni með stuðningi þeirra aðila sem þar eru. Þeir líta ekki svo á að þeir séu að fjalla um fjármál. Þeir líta ekki svo á að þeir séu að leggja skatta á þjóðina. Þeir líta fyrst og fremst svo á að þeir séu að tryggja menntun án þess að hugleiða hvað það kostar. Ég fyrir mína parta tel að við séum komnir út á alranga braut. Við erum hér með kröfur sem eru langt út fyrir eðlilegar þarfir. Ég vænti þess að ráðh. geri grein fyrir því tölfræðilega hvernig þessi mál standi hér á landi miðað við önnur lönd í nágrenninu, t. d. Norðurlöndin, Bretland og Bandaríkin, og jafnframt verði upplýst hvaða skólagöngu er krafist í Bandaríkjunum, í Bretlandi og á Norðurlöndum í hliðstætt starf.