25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4877 í B-deild Alþingistíðinda. (4292)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég stend upp til að bera af mér sakir. Það er alrangt hjá hv. 7. landsk. þm. að ég hafi talað af óvirðingu um ljósmæður. Það hef ég aldrei gert og mun aldrei gera. Ég tel að þær hafi leyst sín störf það vel af hendi að ekki þyrfti að auka menntunarkröfur. Þær hafa skilað fullkomnum störfum, þeim bestu í heimi að Svíum einum undanskildum. Því var einnig að mér dróttað að e. t. v. væri ég að leggja til að það ætti að fara að veita undanþágur frá því að það þyrfti að hafa ljósmæðramenntun til að mega sinna þessum störfum. Ég hef aldrei haldið slíku fram.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég aftur á móti segja að það getur vel verið að það sé ábyrgðarhluti að konur fæði börn við Þistilfjörð. Hitt væri nú meiri ábyrgðarhluti ef það yrði bannað.