04.05.1984
Neðri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5367 í B-deild Alþingistíðinda. (4665)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi brtt. gengur út á það að húsnæðissamvinnufélög fái rétt skv. kaflanum um félagslegar íbúðabyggingar, enda sé tryggt handa þeim sérstakt fjármagn á fjárlögum í útlánaáætlun Byggingarsjóðs verkamanna. Þannig er alveg skýrt að hér er gert ráð fyrir að sérstakt fjármagnsátak þurfi til að tryggja aðild húsnæðissamvinnufélaganna að þessum lagakafla skv. þessari brtt. Hæstv. félmrh. gaf hér yfirlýsingu áðan um að húsnæðissamvinnufélögin ættu að eiga möguleika á að komast inn í félagslega íbúðabyggingakerfið skv. lögunum eins og ríkisstj. lagði fram frv. um að þau yrðu. Hér er flutt till. sem hæstv. félmrh. ætti að styðja ef hann er samkvæmur sjálfum sér. Annars er málflutningur hans markleysa vegna þess að hv. frsm. meiri hl. félmn., Halldór Blöndal, hefur greint frá því að það sé mat meiri hl. félmn. að húsnæðissamvinnufélögin eigi ekki aðgang að þessu félagslega íbúðabyggingakerfi. Þess vegna er ljóst að hæstv. félmrh. á í þessari atkvgr. kost á því að standa við orð sín, en dæmast ómerkur ella. — Herra forseti. Ég segi já.