08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

395. mál, staðgreiðslukerfi skatta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 71 leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. um staðgreiðslukerfi skatta:

„1. Hvað líður áformum um staðgreiðslukerfi skatta?

2. Af hvaða orsökum hefur þetta mál tafist?

3. Hve miklum fjármunum hefur verið varið til undirbúnings þessa máls?"

Það eru liðin allmörg ár síðan fyrst var farið að ræða um að koma á staðgreiðslukerfi skatta, en lítið hefur frést af hvar í stjórnkerfinu það mál er nú statt. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að ræða um réttlæti eða ranglæti þess að koma slíku kerfi á, en fýsir að vita hvar það er statt og hver áform eru um framhald þess.