10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5607 í B-deild Alþingistíðinda. (4906)

Um þingsköp

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar um þingreynslu ætlaði ég aðeins að segja það, að ef það er þingreynsla að læra að sitja á málum, þrjóskast við að halda fundi vegna prívatskoðana, þá tel ég að þingreynsla hljóti að vera til trafala lýðræðinu í landinu. Ég held að þetta sé ekki þingreynsla heldur misbeiting valds nefndarforseta. Það er ótrúlegt að þeir sem við kusum til formennsku í nefndum í haust, til að veita formennsku þeim starfsnefndum sem við vinnum í, þeir líta þar á stöðu sína sem aðstöðu til að móta þingstörfin prívat, ráða því hvaða mál koma til afgreiðslu og hver ekki, og koma þannig í veg fyrir að vilji okkar þm. nái fram að ganga.