10.05.1984
Sameinað þing: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5620 í B-deild Alþingistíðinda. (4923)

295. mál, útvarp frá Alþingi

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hérna fyrir till. til þál., sem er 295. mál á þskj. 574, um beint útvarp frá Alþingi. Hún er flutt af þm. Bandalags jafnaðarmanna og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta hefja beina útsendingu útvarps frá daglegum fundum Alþingis í ársbyrjun 1985.“

Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa grg.:

„Í þessari þáltill. er lagt til að útvarpað verði beint, á sérstökum bylgjulengdum, frá fundum Alþingis, þ. e. fundum deilda og sameinaðs þings. Með þessari skipan gæfist landsmönnum kostur á beinna og skilvirkara lýðræði.

Almenningur á Íslandi fær mjög takmarkaðar upplýsingar um störf Alþingis frá degi til dags. Það er algerlega undir hælinn lagt hvort, og þá hvernig, málgögn flokkanna segja frá umr. um einstök mál á þingi. Ríkisfjölmiðlunum er í þessum efnum þröngur stakkur sniðinn. Þessir fjölmiðlar velja og hafna. Þeir ákveða fyrir fólkið hvað er rétt og hvað ekki. Til að fylgjast beint með umr. á þingi verða menn að gera sér ferð í Alþingishúsið. Það er fjarri því að allur almenningur hafi tök á að koma á áheyrendapalla þingsins vegna vinnu sinnar og búsetu. (HBl: Þeir kæmust raunar ekki fyrir.)

Flm. eru þeirrar skoðunar að það sé í anda nútíma upplýsingastefnu að gefa landsmönnum kost á að fylgjast með umr. á Alþingi um leið og þær fara fram. Þannig yrði umr. á þinginu flutt jafnóðum inn á almenna vinnustaði og heimili landsins.

Flm. vænta þess að þetta fyrirkomulag gæti veitt alþm. heilbrigt aðhald og verið upplýsandi fyrir umbjóðendur þeirra. Þannig er þess vænst að beint alþingisútvarp auki almenna virkni landsmanna í þjóðmálaumræðu sem er nauðsynleg undirstaða nútíma lýðræðis.“

Í framhaldi af þessu langar mig til að fara um málið nokkrum orðum.

Menn geta spurt sig: Hvers vegna ættum við að vera að setja upp beint útvarp frá Alþingi? Það er margt sem kemur þar til greina. Í fyrsta lagi vil ég víkja að þeirri upplýsingaskyldu sem ég tel raunar að þingið hafi við landsmenn. Ég held að lýðræði verði ekki nema hálfgerður skrípaleikur án upplýsinga til alls fólks um hvað stjórnvöld hafast að, hvaða stefnur stjórnmálahreyfingar hafa í einstökum málum og hvernig þeim stefnum er framfylgt. Við sjáum þetta í raun og veru gerast í kringum okkur. Við sjáum þetta úti í heimi þar sem ýmsar hugmyndir, öðruvísi hugmyndir en hafa ríkt á síðustu áratugum, eru að gera vart við sig í framkvæmd lýðræðis. Þeirri skoðun vex víða fylgi að fólkið sem ákvörðun hefur áhrif á eigi að taka ríkan þátt í að taka þá ákvörðun. Þannig eigi fólkið í landinu að taka þátt í framvindu lýðræðisins á mjög virkan hátt. Þetta hefur tengst umr., sem við þekkjum öll núna, um tölvuöldina, tölvubyltinguna og þá möguleika sem við vitum að eru uppi um upplýsingamiðlun og samband manna á milli á mjög fullkominn hátt.

Fulltrúalýðræði eins og við þekkjum það núna er víða á undanhaldi. Það á uppruna sinn aftur í öldum þegar það tók langan tíma að komast til þings og sambandsleysi var mikið milli fólks og milli landshluta. Það var raunar kannske ekki ætlast til þess þá að þm. stæðu í sífelldu sambandi við kjósendur sína. Þeir fóru til þings og sátu þar og tóku ákvarðanir, sem talið var að taka þyrfti, án samráðs við umbjóðendur sína af eðlilegum ástæðum. Þetta var hátturinn í öllum löndum og kannske því greinilegra sem löndin voru stærri. En þau sjónarmið sem í síauknum mæli taka við af þessari framkvæmd eru svokallað þátttökulýðræði þar sem fólkið sem ákvörðun hefur áhrif á tekur þátt í að taka ákvörðunina. Við sjáum þess erlendis greinilegust merki t. d. um ýmislegt sem varðar ákvarðanatöku á heimastóð. Við sjáum þetta í mörgum löndum í breytingum á stjórnarháttum sveitarfélaga þar sem fólk tekur á beinan hátt þátt í að ákveða þjónustu og framkvæmdir í byggðartaginu. Það kýs kannske í kosningum um einstaka embættismenn byggðarlagsins eða sveitarstjórnarinnar eða framkvæmdir. Það getur kosið á milli golfvallar og sundlaugar. sama gildir víða um samtök sveitarfélaga. Bein þátttaka fólks fer því vaxandi. Þetta sést raunar líka í minni einingum innan sveitarfélaga, þar sem hverfasamtök, íbúasamtök ýmiss konar, taka sífellt meiri þátt í ákvarðanatöku um sitt nánasta umhverfi.

Þá er spurningin: Hverjar eru forsendur? Hvers vegna eru þessar nýju hugmyndir uppi um vinnubrögð valddreifingar og lýðræðis? Mikilvægasta forsendan er kannske sú að menntun kjósenda hefur aukist. Samband fólks innbyrðis og samband fólks milli landa hefur batnað og upplýsingastreymi milli stjórnvalda og kjósenda hefur aukist til muna. Eins og ég sagði áðan veldur þessu m. a. ýmiss konar ný tækni sem gerir fólki kleift að menntast og fræðast á markvissari og fjölbreytilegri hátt en það hafði möguleika til áður. Öll þessi þátttaka fólksins gerir kröfur til þess að það sé á hverjum tíma vel upplýst um gerðir þm. og gerðir stjórnvalda og geti þannig tekið afstöðu til áætlana þeirra eða verka.

Til þess að landsmenn geti á raunverulegan hátt tekið þessa afstöðu þurfa þeir að vera um þetta upplýstir. Og hvernig gerist þetta helst núna hjá okkur á Íslandi? Þetta gerist helst á tvennan hátt, annars vegar í gegnum dagblöð og hins vegar í gegnum útvarp eða sjónvarp.

Ef við tökum dagblöðin fyrst, þá eru þau flest eða öll beint eða óbeint flokksbundin og taka í allt of mörgum tilfellum ekki málefnalega afstöðu til einstakra mála, heldur afstöðu sem er sett saman af flokkspólitískum þörfum eða flokkspólitískum sjónarmiðum. Þetta er fyrsta atriðið sem dagblöðin varðar.

Í öðru lagi er augljóst að sá þegn sem ætlar sér að nota dagblöðin til hlutlægrar upplýsingar neyðist til að kaupa þau öll til að geta lesið þau, borið þau saman og tekið síðan af þeim einhvers konar meðaltal. Ég hef ekki reiknað það nákvæmlega, en það mundi líklega kosta á mánuði langt í 10 eða 20% af ráðstöfunartekjum þeirra sem lægst eru launaðir ef þeir ætla að kaupa öll dagblöðin og reyna síðan að mynda sér skoðun á þessum málum.

Í þriðja lagi er það því miður takmarkað efni sem dagblöðin flytja um þessi mál. Núna í vetur gerðist sá hörmulegi atburður að Morgunblaðið felldi niður einu nothæfu þingfréttasíðuna sem var á dagblaðamarkaðinum hérna. Það er mikill atburður. Við erum því kannske ver stödd en nokkru sinni fyrr.

Varðandi útvarp og sjónvarp, ríkisfjölmiðlana, þá er því til að dreifa að þar er í fyrsta lagi lítill tími á dagskrám fyrir mál sem varða stjórnmál.

Í öðru lagi virðist málsmeðferð, kannske af eðlilegum ástæðum, ég þekki ekki svo nákvæmlega til þessara hluta, en ég harma það þó oft að fréttir eru frekar notaðar til uppsláttar einstakra fréttapunkta frekar en að reyna að meta heildarstöðu mála og gera sér ákveðna grein fyrir því sem er að gerast. Þannig er lítið kafað ofan í mál og lítið skyggnst á bak við tjöldin, væntanlega vegna tíma- og mannaskorts.

Þetta eru nokkur atriði sem ég tel að varði það að athuga ætti mjög vandlega hvort ekki kæmi til greina að útvarpa beint frá fundum þingsins.

Hér eru haldnir opinberir fundir. Það eru gefnar út ritaðar upplýsingar um allt sem fer fram á fundum þingsins. En það er óumflýjanlega gefið út þó nokkru eftir að atburðir og umr. verða. Í öðru lagi eru þessir fundir opnir fyrir almenning sem hefur til þess tækifæri að koma hingað og hlýða á. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu í grundvallaratriðum að umr. hérna væri útvarpað til allrar þjóðarinnar. Það er í anda upplýsingastefnunnar, sem nú er farin sífellt meira að ryðja sér til rúms, að upplýsingum sé komið á virkan hátt út til fólks, en það þurfi ekki endilega að sækja þær. Það er sem sagt virk dreifing upplýsinga sem skiptir þarna miklu máli.

Ég held að í grundvallaratriðum sé ekkert því til fyrirstöðu að útvarpað sé frá fundum þingsins. Það sem menn þyrftu að láta athuga í framhaldi af slíku væri kostnaður, en ef menn á annað borð væru búnir að gera upp við sig í fyrsta lagi þörfina og í öðru lagi það góða sem af þessu gæti hlotist hlytu menn að komast að samkomulagi í sambandi við kostnaðinn. Það er dýrt að halda uppi upplýstu lýðræði og menn verða að greiða það gjald sem það þarfnast. En það mætti vel hugsa sér að í vandræðum gætu menn kannske sæst á einhvers konar hlutaaðgerðir í byrjun, þar sem þetta væri kannske ekki tekið upp alla vikuna fyrstu árin, en gerðar væru í þessu sambandi tilraunaútsendingar.