11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5712 í B-deild Alþingistíðinda. (5031)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh., 1. þm. Reykv., kom hér í ræðustól einhverju sinni og kvartaði yfir því að undirritaður, 8. þm. Reykv., segði alltaf það sama þegar hann kæmi í ræðustól. Hæstv. fjmrh. verður að þola það að 8. þm. Reykv. kvarti nú um slíkt hið sama hjá fjmrh. Við erum æði oft búin að heyra ræðuna um það hvaðan gatið kom og að verið sé að gera eitthvað til þess að fylla upp í það og vitum það eitt að það gengur býsna illa.

Ég verð að segja það að hv. 3. þm. Norðurl. v. er mjög hæverskur maður og ekki mikið fyrir að taka mjög stórt upp í sig. Ég verð að viðurkenna það að ég hef ekki lengi heyrt eins hressandi rugl um skattamál og banka hér inni í deild eins og í þetta sinn og um samhengi milli skatta og fyrirtækjareksturs yfir höfuð. Ég get einhvern veginn alls ekki samrýmt það í mínum huga að hæstv. fjmrh., 1. þm. Reykv., sé kominn hér inn á þing til þess að berjast fyrir hagsmunum einkarekstrar og sjálfstæðs framtaks, standi svo hér uppi í stól og telji það hlutverk sitt og ríkisins — því að í augnablikinu er hann allavega hluti af því — að bjarga hverju fyrirtækinu á fætur öðru með einhverjum sértækum aðgerðum og að líta á þessi frv. tvö sem hér eru til umr. sem eins konar björgunaraðgerðir vegna rekstrarörðugleika þessara fyrirtækja. Þetta er fáheyrð röksemdafærsla. Það hlýtur hvert mannsbarn að skilja að ef þessir bankar eru ekki í stöðu til þess að greiða skatta eins og hvert annað fyrirtæki eða þegn þessa þjóðfétags þá er það af einhverjum allt öðrum ástæðum en þeim að skattarnir séu í raun og veru of háir því að ekki eru þessir skattar svo háir að það geti í raun og veru staðist að þeir séu forsenda þess að rekstur fyrirtækjanna gengur illa. Reksturinn gengur náttúrlega fyrst og fremst illa vegna þess að þessum bönkum eru ætluð ákveðin hlutverk sem ríkisfyrirtækjum sem þeir ekki standa undir. Vandamálin í rekstri þessara fyrirtækja stafa af öðrum aðgerðum á öðrum sviðum. Þau stafa einfaldlega af því að þessir bankar eru í ríkiseign en ekki vegna þess að það á að skattleggja þá.

Ég verð líka að taka undir með hv. 3. þm. Norðurl. v. að það er ákveðið virðingarleysi að koma hér upp í stól og svara ekki jafneðlilegum og beinum fsp. og því hvort ríkissjóður megi virkilega missa þær tekjur sem þarna er um að ræða. Þegar umr. fer hér fram um afnám tekjuskatts á laun segir einn af frsm. þáltill. um það mál úr flokki hæstv. fjmrh. að ekki hafi verið hægt að nema tekjuskatt af launatekjum vegna þess að ríkissjóður hefði ekki mátt missa þessar tekjur. Hvers vegna má ríkissjóður allt í einu missa frekar tekjur af skattlagningu á banka en á einstaklinga? Hver svo sem okkar þjóðfélagsskoðun er almennt erum við hérna í þessum sal, allavega að því er ég tel, sammála um að leikreglur skuli vera jafnar fyrir alla aðila, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða aðra. Það er þess vegna sem ég er á móti þessu lagafrv. að ég tel hér um ákveðna mismunun að ræða sem ekki verði með nokkru móti rökstudd, sérstaklega þegar við horfum til þeirra byrða sem fólki er almennt gert að bera í landinu og þess að fólkinu er sagt að þessar byrðar verði það að bera vegna þess hve ríkissjóður standi illa.