14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5805 í B-deild Alþingistíðinda. (5137)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég vil út af orðum hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar taka það fram að um málið varð samkomulag í sjútvn. Nd. eftir að þær breytingar voru gerðar sem fram hafa komið og vænti ég þess að þær breytingar hafi verið ræddar í þingflokkunum. Ég vænti þess að um málið sé allgott samkomulag hér á Alþingi. Þær breytingar voru m. a. gerðar vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðu töldu að það þyrfti að taka af öll tvímæli m. a. varðandi starfsvettvang fiskmatsráðs.

Ég vil taka það fram, vegna þess að það hefur oft komið fram í umr. á Alþingi og m. a. hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni að með þessu falli niður óháð mat, að slíkt tel ég vera rangan málflutning og beinlínis hættulegan. Það er alls ekki tilgangur þessa frv. að fella niður óháð mat. Satt best að segja skil ég ekki hvers vegna menn geta haft á móti því að samstarf við aðila í sjávarútvegi sé styrkt þannig að eðlilegt og gott samband sé þar á milli.

Það var m. a. fullyrt í Nd. af hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna væri á móti þessu frv., sem mér var þá ekki kunnugt um áður. Mér varð að orði að það styrkti mig í þeirri trú að þeir aðilar sem hafi starfað í fiskmatsráði hafi starfað þar algerlega óháð sem fagmenn og án nokkurs þrýstings frá sínum samtökum, hafi þar tekið afstöðu án tillits til þess hvað þeir hafa starfað.

Varðandi þær tilraunir og þær breytingar sem gerðar voru á matsreglum í vetur er þess að geta að með þeim aðgerðum var verið að samræma matið um land allt, sem er mjög mikilvægt mál og að allra dómi nauðsynlegt. Hins vegar er eðlilegt að það taki nokkurn tíma og þarf að fá fram skilning á slíkum breytingum. Slíkar breytingar geta ekki gerst í einu vetfangi. Þær munu hins vegar fara fram og ég tel að undirbúningur þess máls sé á mjög góðum vegi. Það var mjög mikill mismunur á matinu. Það gat verið verulegur munur þar á eftir því í hvaða verstöð var landað. Þannig hljóta allir að telja eðlilegt að tekið yrði til hendi og reynt að samræma matið sem allra best. Það punktakerfi sem hér hefur verið talað um átti einmitt að tryggja að samræmi ætti sér stað á milli matsstöðva og matsmanna.