14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5829 í B-deild Alþingistíðinda. (5164)

298. mál, áfengislög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Nú heyrði ég það að hv. þm. héldu það að ég ætlaði að fara að mæla fyrir þessu frv. hér og var það mjög að vonum að mönnum dytti það í hug, en ég ætla ekki að vera hér með efnislega umfjöllun um þetta mál, aðeins benda á atriði sem ég tel að sé rétt að benda á við þessa 1. umr. Það er sjálfsagt margt í okkar áfengislögum sem má endurskoða á ýmsan veg en öll viðleitni sem er nú í þá átt virðist muni vera til aukinnar undanlátssemi og þá sérstaklega við þá aðila, sem á einhvern hátt tengjast gróðastarfsemi af ýmsu fagi í kringum áfengissölu og ég held að þetta afmarkaða mál sé nú vissulega tengt því, en ég skal ekki ræða um það frekar hér. Hins vegar vil ég benda þeirri hv. n. sem fær málið til meðferðar að til er þingkjörið ráð sem á skv. lögum að vera Alþingi til ráðuneytis um öll þessi mál. Þetta ráð á l. skv. að vera umsagnaraðili sem þingnefndir eiga að leita til. Ég segi þetta að gefnu tilefni frá hv. Nd. og veit það að hv. Ed. vill vinna öðruvísi. Áfengisvarnaráð á sem sagt að vera ráðgefandi og til þess er það kjörið af Alþingi. N. eiga að leita umsagnar Áfengisvarnaráðs og hvað sem menn vilja í öllum fordómum sínum oft segja um þetta ráð þá eru lagaákvæðin ljós.

Ég vil svo aðeins mega benda á það einnig að Alþingi hefur samþykkt þál. um stefnumótun í áfengismálum og n. er þar að störfum og vinnur ágætavel, hefur þegar skilað áfangaályktun til ráðh. og vinnur ötullega að heildarmótun þessara mála. Og mitt álit er það að í raun ætti Alþingi að bíða álits þessarar n., hinna fjölmörgu sjónarmiða sem þar eru ríkjandi og samræmingar þeirra, áður en það gerir breyt. hér á þessum meginlögum í hvaða átt sem þær breyt. eru. Ég fer sem sé fram á það að n. leiti til Áfengisvarnaráðs um umsögn varðandi mál þetta og eins bendi ég á ályktun Alþingis um stefnumörkun þessara mála í heild og hvort ekki sé ráðlegt að bíða þess. Ég hygg að það álit liggi fyrir snemma á næsta þingi.