14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5847 í B-deild Alþingistíðinda. (5224)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að ástæða væri til að halda langan fund hér í kvöld þó ekki væri nema til að ræða þetta eina mál, sem nú er á dagskrá, þ. e. frv. til l. um gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta, og svo önnur mál sem því tengjast og liggja hér einnig fyrir í þessari hv. deild.

Það má segja að hæstv. ríkisstj. velji tímann vel þegar hún lætur taka þessi mál hér á dagskrá því við höfum rétt nýlokið við hér í hv. Nd. að ræða frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem glímt var við hið margfræga gat og voru það einkum peningavandræði í ríkissjóði landsmanna sem þar voru til umfjöllunar. Þess vegna kemur manni það nokkuð spánskt fyrir sjónir, svo ekki sé nú meira sagt, herra forseti, að daginn eftir skuli tekið til við að ræða það hér í þessari hv. þingdeild hvernig megi létta með ýmsu móti álögum af þeim stofnunum landsmanna sem að sögn kunnugra gera það hvað best þessa dagana, þ. e. bönkunum. Nú hafa þeir, sem fylgst hafa með fréttum undanfarið og fylgst með því þegar hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir skila inn sínum ársreikningum fyrir árið 1983, eflaust tekið eftir því að í þeim hópi hafa gjarnan verið bankar, sparisjóðir og innlánsdeildir og aðrar slíkar stofnanir. Og yfirleitt hefur það verið á eina bókina lært, að þar hefur verið um dálaglega útkomu að ræða, gróða svo milljónum skiptir jafnvel hjá hinum smæstu í þessum hópi. Má segja að ekki finnist nú í landinu svo aum bankastofnun að hún skili ekki dálaglegum hagnaði.

Þess vegna er það ærið kyndugt að standa nú frammi fyrir þessu frv., sem eru 305. og 306. mál Ed., þar sem gerðar eru till. um það að létta stórlega álögum af þessum sömu stofnunum.

Nú hefur því verið haldið fram að þær álögur sem hér um ræðir kæmu í raun beint frá viðskiptamönnum bankanna, þ. e. þeir skattlegðu sína viðskiptamenn sem því næmi sem þeir þurfa að greiða hinu opinbera, og kann svo að vera að verulegu leyti. En þá má spyrja: Telja menn einhverja tryggingu fyrir því að þeir hinir sömu njótendur að þjónustu bankanna fái þessa fjármuni til baka ef bankarnir sjálfir hætta að greiða þessi gjöld inn í ríkissjóð? Ég leyfi mér að draga það í efa, herra forseti, þekkjandi þær ágætu stofnanir. Ég bendi á að í aths. við þetta lagafrv., neðst á bls. 2, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Með niðurfellingu gjaldsins er þess að vænta að mismunur kaup- og sölugengis erlends gjaldmiðils verði ákveðinn með hliðsjón af breyttum aðstæðum svo og ýmis gjöld vegna þessara viðskipta endurskoðuð.“

Það er m. ö. o. ekki kveðið fastara að orði en svo í þessum aths. að þess sé að vænta að neytendur muni þá fá lækkaðar álögur sem þessu nemur. Þess er að vænta. Það er góðlátleg vænting þeirra, sem hér flytja frv. til laga, að bankarnir verði nú svo góðir að láta þetta renna til viðskiptavina sinna. Ég spyr: Er einhver trygging fyrir því nú, á þessum tímum hins ótakmarkaða frelsis á öllum sviðum, þar sem allt skal vera himinfrjálst, er einhver trygging fyrir því að bankarnir noti sér ekki frelsið til að ráðstafa þessum fjármunum, þessum hundruðum milljóna, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að færa þeim á næstu árum, einhvern veginn öðruvísi en að láta þá renna beint til viðskiptavina sinna? Ég leyfi mér að spyrja með fullri virðingu fyrir þessum ágætu stofnunum: Eru einhverjar tryggingar fyrir því að þetta fari ekki í marmara eða málverk? Er hæstv. ríkisstj. tilbúin að lýsa því yfir hér við þessa umr. að svo verði búið um hnútana að þessir peningar skili sér þá til viðskiptamanna bankanna? Því hér er vissulega um mikla fjármuni að ræða. Ég fyrir mitt leyti teldi það mjög vel athugandi að þessum álögum yrði létt að einhverju leyti af bankakerfinu ef þannig yrði um hnútana búið í staðinn að þeir fjármunir rynnu frá þeim sömu bönkum til einhverra annarra þarfra málefna hér í landinu. Ég nefni sem dæmi húsnæðismálin. Ef það yrði í sömu andrá bundið að það aukna fjármagn sem bönkunum er ætlað að fá hér á næstu árum rynni þá til uppbyggingar í húsnæðismálakerfinu. Þá væri þetta vissulega athugandi. Það má nefna einnig undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Ef þjónusta bankanna við undirstöðuatvinnuvegina ykist þá sem þessu næmi þeim til styrktar væri þessi tilhögun vissulega athyglisverð. En það er alveg forkostulegt, ég verð að segja það með leyfi herra forseta, það er alveg stórfurðulegt að jafnskítblankur fjmrh. og Albert Guðmundsson er þessa dagana, fyrirgefið orðbragðið, skuli gera um það till. að létta svona álögum af bönkunum. Ég verð að segja að mér finnst það stórforkostuleg athöfn af hans hálfu og hefur hann þó oft í gegnum tíðina getið sér frægðarorð fyrir annað en að vera sérstakur vinur t. d. Seðlabankans og ríkisbankanna. Það er nú það.

Það væri ástæða til, herra forseti, að ræða nokkuð hið sérkennilega samspil ástandsins í kassanum fræga hjá hæstv. fjmrh. og Seðlabankans, sem einnig hefur birst okkur í frv. því um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem við fjölluðum hér um fyrir helgina. Þar voru uppi till. um að létta stórlega af skyldum Seðlabankans við atvinnuvegina með því að heimila honum að lækka afurðalánin. Á móti eða til viðbótar ætlaði Seðlabankinn að krefjast aukinnar bindiskyldu af öðrum innlánsstofnunum. Það er kannske með þessu frv. verið að rétta eitthvað á merinni, þannig að ekki hallist á vegna þeirrar þjónustu sem viðskiptabönkunum er ætlað að standa undir við Seðlabankann með frv. sem nú er komið til hv. Ed. Vel má vera að þetta sé allt eitt allsherjarhrossaprang sem hafi það meginmarkmið, þegar til kastanna kemur, að borga upp hallarekstur hæstv. fjmrh. á ríkissjóði og hygla ofurlítið Seðlabankanum, eins og smá vinargreiði við Seðlabankann vegna þess að hann hefur tekið að sér að reka ríkissjóð og húsnæðismálakerfið m. a. þar með, þar sem þeir safna nú skuldum í gríð og erg hvor um annan þveran, hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh.

Þegar fjárlög voru afgreidd í desember var rætt um að mjög álitlega liti út með það að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson yrði þegar á sínu fyrsta valdaári skuldakóngur Íslandssögunnar, honum tækist þegar á sínu fyrsta valdaári að slá út flokksbróður sinn og fyrrv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen (Fjmrh.: Það er óhjákvæmilegt.) sem fram að þessu hafði gengið einna vasklegast fram í því allra manna, sem farið hafa með fjármál á Íslandi, að safna skuldum við Seðlabankann. Það er nú löngu sannað mál að hinn mikli keppnismaður Albert Guðmundsson fór létt með þetta, og þurfti ekki einu sinni árið til, því eins og fróðir menn vita hefur þessi ríkisstj. ekki náð því að streitast við að sitja í eitt ár. Það vantar nokkra daga upp á það.

Samhengið, sem birtist mönnum í þessari efnahagsmálastjórn hæstv. ríkisstj., er nokkuð kostulegt. Ríkisstj. er út og suður með sparðatíning við að ná inn nokkrum millj. hér og nokkrum millj. þar, af öryrkjum, af fötluðum o. s .frv., og má lengja þann lista mikið. Á sama tíma er hún að hygla jafnilla stöddum litlum mönnum eins og bönkunum. Þar hefur þessi hæstv. ríkisstj. loksins fundið sinn litla mann, í bönkunum eins og þeir leggja sig. Hann er nú sá minnsti af vorum samfélagsþegnum sem mest ríður á að hygla. Það birtist okkur í þessu frv. um ráðstöfun gengismunar og umboðsþóknunar og frv. um skattskyldu innlánsstofnana, sem er 306. mál Ed. og liggur einnig fyrir hv. Nd. að ræða.

Þessi sérkennilega áhersluröð hæstv. ríkisstj. hefur reyndar birst okkur oft í vetur og er svo sem ekkert nýnæmi fyrir okkur. Hún á sér þá einföldu skýringu, þó mönnum kunni að finnast það merkilegt, að þessi ríkisstj. fjandskapast blygðunarlaust við fjölmennar stéttir í þjóðfélaginu. Þetta er ekki svo furðulegt, þegar betur er að gáð, því hæstv. ríkisstj . er nefnilega mynduð í þeim tilgangi að vernda og verja hagsmuni hinna fáu útvöldu í þjóðfélaginu, fjármagnseigendanna og bankanna þar með. Hún gerir það dyggilega. Það má segja um hana, hvað svo sem að öðru leyti er hægt að taka sér í munn um hæstv. ríkisstj., að þessu hlutverki sínu er hún trygg og trú. Það birtist okkur dag eftir dag í aðför að ýmiss konar félagslegri þjónustu, í niðurskurði á námslánum, í lækkuðum niðurgreiðslum til neytenda og svo mætti lengi telja. Sumt er þar sparðatíningur, annað stærra og alvarlegra. Á sama tíma er þessi ríkisstj. að létta álögum af bönkum. Hún er að ívilna þeim sem eiga hlutafé, hún er að létta álögum af þeim sem hafa efni á því að fara til útlanda á sama tíma og hana langar helst til að skattleggja með öllum tiltækum ráðum þá sem annaðhvort eru veikir og liggja inni á sjúkrahúsi eða eru veikir og ætla að nota sér þjónustu í heilbrigðiskerfinu á einhvern hátt. Það er nú réttlæti þessarar ríkisstj. Ég finn ekki aðrar skýringar á því en þær að hún sé ósköp einfaldlega trú því markmiði, sem hún lagði af stað með í maí s. l., fyrir tæpu ári síðan, að vernda og verja hagsmuni þeirra sem peningana hafa í þessu þjóðfélagi. Á því er þessi einfalda skýring og birtist æ ofan í æ í málatilbúnaði þessarar ríkisstj.

Herra forseti. Eins og ég sagði hér í upphafi mætti svo sem hafa langt mál um þessi bankamál. Það væri ástæða til að fara nákvæmlega ofan í þær tölur sem hér birtast á blöðum og komu reyndar fram í framsöguræðu hæstv. ráðh. þegar hann var spurður hversu margir tugir og mörg hundruð milljóna það yrðu sem hæstv. ríkisstj. léti renna með þessum hætti til ríkisbankanna á næstu árum, þarf ekki langa framtíð til, á næstu 2–3 árum. Það er alveg ljóst að það skiptir hundruðum milljóna og er sérkennilegt að ríkissjóður, sem er jafnhvínandi á kúpunni og raun ber vitni, skuli hafa efni á þessu. Það er nokkuð sérkennilegt. Það má ekki leggja skatta á almenning. Það má ekki leggja á skatta, en það má lækka þá á ríkisbönkunum, þeim stofnunum sem þessa daga eru að gera upp með milljóna gróða. Hæstv. fjmrh., þannig er nú það. Litlu mennirnir þínir í bankakerfinu reka ekki svo auma útlánastofnun þessa dagana að hún skili þeim ekki milljónum. Sparisjóður Keflavíkur t. d., ekkert stórfyrirtæki á heimsmælikvarða, skilaði þó nokkrum milljónum króna í hagnað. Þannig var nú búskapurinn þar og ætli það sé þá ekki víðar.

Ef þessi ríkisstj. er úti að leita að gullskipinu, sem hún þóttist nú reyndar hafa fundið í vösum launamanna s. l. vor, þá hef ég bent henni á að fara á þennan sand og leita þar. Ætli hún þyrfti þá að ganga svo ýkja lengi um? Ég er ekki viss um, að hún þyrfti að leita svo lengi áður en hún fyndi eitthvað feitara en vasana á þrautpíndu launafólki sem hún er enn þá að hjakka í. Það hefði ég haldið, herra forseti, að henni væri nær að líta þangað sem tölurnar tala skýrustu máli um hvar peningana er að finna í þessu þjóðfélagi. Þetta er angi af því réttlæti þessarar ríkisstj. að hygla þeim sem þegar hafa peningana á milli handanna, svo þeir megi þá ná í meira, á sama tíma og hún gengur æ fastar að hinum sem þegar eiga í vök að verjast.