14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5868 í B-deild Alþingistíðinda. (5233)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þessi umr. er orðin öll hin fróðlegasta. Að Búsetamálinu eða húsnæðismálunum slepptum geta menn spurt sig einfaldrar spurningar: Hvað hafa þessir menn verið að gera í n.? Talast ekki framsóknarmenn og sjálfstæðismenn við í hv. félmn.? Ekki síst eftir þennan síðasta lestur hv. 1. þm. Suðurl. spyr maður sig: Hvernig lásu framsóknarmenn fskj., hvernig lásu þeir umsóknirnar sem bárust?

Allur þessi málatilbúnaður er orðinn með endemum. Í fyrsta lagi heyrist mér skv. því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði að menn hefðu talið að frv. hefði verið samið með svona félagslegt leiguform í huga. Í öðru lagi er þetta frv. samþykkt í báðum þingflokkum ríkisstj. áður en það var lagt fram. Í þriðja lagi er hæstv. félmrh. margbúinn að lýsa yfir síðan í sumar túlkun sinni á þessu atriði, á þessum margumrædda c-lið. N. var búin að liggja yfir málinu í fimm mánuði og ekkert virtist bera á milli. Það er ekki fyrr en hv. þm. Halldór Blöndal, frsm. meiri hl., stígur í stól og mælir fyrir meirihlutaáliti að ágreiningurinn kemur í ljós.

Maður spyr sig: Var það bara tilviljun, var þetta bara undir því komið hver var framsögumaður? Hefði kannske enginn ágreiningur orðið ef einhver annar hefði verið framsögumaður fyrir n.? Mér finnst bara formlega séð, ef maður hugsar um vinnubrögðin í þinginu, hljóti maður að stórefast um að þau séu nægilega gagnleg þar sem svona ágreiningur um meiriháttar mál virðist hafa farið meira og minna leynt í eina sjö-átta mánuði. Síðan bara verður mönnum þetta skyndilega ljóst seint um kvöld að menn skrifuðu ekki allir undir þetta meirihlutaálit n. með sama skilning í huga eftir þó alla þessa vinnu. Þetta þykir mér mjög athyglisvert. Nú á þessum síðustu vikum þegar hart er keyrt hugsar maður: Hvaða ólukkur og mistök gætu nú farið í gegnum þingið þessa dagana þegar menn eru kannske með stírurnar í augunum yfir þessu, þegar þeim sést yfir svona meiriháttar ágreiningsmál þegar þeir hafa til þess átta mánuði og þá sæmilega útsofnir. Þetta vil ég að komi fram.

Það er að öðru leyti mjög fróðlegt að fylgjast með þessa dagana vegna þess að nú eru ágreiningsmálin að koma út úr bakherbergjum þingsins. Menn eru lengi búnir að vorkenna Sjálfstfl. Hefur verið á máli manna að heyra að Framsókn hafi verið að rúlla yfir um þessa dagana með mangómálum, með því að neita að endurskoða Framkvæmdastofnun þar sem hv. þm. Tómas Árnason hefur endurskoðað sjálfan sig í attan vetur og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að gera neitt. Menn hafa tínt til fleiri dæmi um það hvernig Sjálfstfl. hafi ekki almennilega riðið feitum hesti frá þessari viðureign. En nú vann hann loksins, nú tók hann loksins við sér. Hv. þm. Páll Pétursson virðist hafa sungið við Sjálfstfl. eins og Harry Belafonte söng forðum, Buy my Mango. Sjálfstfl. keypti mangóið en Framsókn keypti Búseta eða gleypti Búseta, þannig virðast þessi skipti hafa orðið í bili. Síðan verður þetta væntanlega tekið upp í haust, með lækkandi sól fara menn að skoða mangó og Búseta aftur og vita þá að hvaða niðurstöðu þeir komast.

Ég held að það geti orðið fróðlegt að fylgjast með þessum ágreiningsmálum þegar þau koma fleiri. Núna nýlega gerðum við svolítinn samanburð á 10 manna ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. og vísunum um 10 litla negrastráka sem sprungu allir nema einn. Þeir sprungu á limminu og þeir sváfu yfir sig og gerðu ýmsar kúnstir. Mér sýnist vera að fara fyrir ráðh. nákvæmlega eins og 10 litlum negrastrákum vegna þess að einn er í þann veginn að springa á álinu, annar virðist vera sprunginn á útvarpslagafrv., hæstv. fjmrh. er margsprunginn á gatinu, hæstv. bankamrh. er sprunginn á því að endurskoða bankakerfið, allt eru þetta stóru stefnumálin og nú er einn til viðbótar sprunginn á húsnæðismálunum. Þeir springa á þessum stóru stefnumálum sínum hver um annan.

Ég er hræddastur við það að á bak við þennan ágreining, þó hann sé settur fram á þennan hátt núna, sé sú grundvallarhugsun hinna hreinræktuðu ungu íhaldsmanna í Sjálfstfl. að allt annað sé ómögulegt en að menn eigi húsin sín sjálfir. Ég held þetta sé ein leið til þess að birta okkur þessa gömlu eignanauðhyggju að það geti enginn orðið hamingjusamur í sínum ranni nema hann eigi hann, yst sem innst. Það er dálítið fróðlegt að velta þessu fyrir sér vegna þess að nú er íbúðarhúsið í raun og veru ýmsu tengt. Að því liggur gata, að því liggur skólp, vatnsveita og ýmiss konar lagnir, rafmagn og sími. Allt þjónar þetta húsinu en engum dettur í hug að vilja endilega eiga alla þessa kosti. Þetta er þjónusta sem þeim er veitt. En síðar þegar kemur að burðarvirki hússins, steinsteypunni og járninu, þá er nauðhyggjan sú að menn þurfi endilega að eiga þetta og enginn geti nokkurn tíma orðið hamingjusamur án þess að svo sé. Þetta er kannske byrjun á því að menn fari að kaupa sér hlut í skolpveitum og götum til þess að tryggja hamingju sína og eftirkomenda, að geta skilið eftir sig svo sem eins og 100 metra af malbiki eða einhverjum veitulögnum.

Í vetur var flutt þáttill. um húsnæðissamvinnufélög. 1. flutningsmaður var hv. þm. Stefán Benediktsson. Ég held að fróðlegt sé að rifja þetta mál upp. Það segir m. a. í grg. með leyfi forseta:

„Bygging og rekstur íbúða á samvinnugrundvelli á sér langa sögu. Fyrstu húsnæðissamvinnufélögin voru stofnuð í Þýskalandi og Danmörku um miðja. síðustu öld, en í dag eru þau einna algengust sem rekstrarform í Svíþjóð þar sem Landssamband húsnæðissamvinnufélaga, HSB, hefur á 60 ára ferli byggt yfir 400 þús. íbúðir. Stærsta húsnæðissamvinnufélag Noregs, OBOS, hefur frá stríðslokum byggt meira en helming alls húsnæðis í Osló og nágrenni. Í Þýskalandi og á Niðurlöndum eru slík félög vel þekkt. Í Bandaríkjunum starfa húsnæðissamvinnufélög mjög víða og þar eru þau algengust í New York og nágrenni.

Húsnæðissamvinnufélög eru almannasamtök sem hafa forgöngu um byggingu eða öflun íbúða sem félagsmenn húsnæðissamvinnufélagsins eiga og reka í sameiningu. Húsnæðissamvinnufélög eru öllum opin gegn greiðslu félagsgjalds og er þátttaka í hverjum byggingaráfanga háð stofnframlagi sem veitir svonefndan búseturétt. Fjárhæð fyrir búseturéttinn ákveður stjórn félagsins hverju sinni. Búseturéttur er ótímabundinn. Hver byggingarhópur stofnar með sér búseturéttarfélag sem sér um rekstur íbúða félagsins.

Nú er það almennt viðurkennt að þjóðfélaginu sé skylt að tryggja öttum öruggt og fullnægjandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Því er þörf nýrra úrræða. Nú bjóðast aðeins tveir kostir, annars vegar leigumarkaður og hins vegar séreignarform. Ísland hefur nokkra sérstöðu fyrir þá sök að leigumarkaður er þröngur og öryggi leigjenda lítið þrátt fyrir nýlega löggjöf á því sviði. Séreignarformið krefst hins vegar mikillar fjárfestingar, meiri fjárfestingar en flestir ráða við.

Húsnæðissamvinnufélög hafa það að markmiði að gefa fólki kost á góðu og öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Jafnframt er hér um að ræða frjálst framtak einstaklinga sem ekki hlíta algerlega forsjá einkafjármagns eða ríkisvalds. Að vísu krefst þetta framtak ákveðinnar fyrirgreiðslu á lánamarkaði, og þá að hluta til frá því opinbera. En framtakið hefur þó þann augljósa kost að fjármagn til bygginga á vegum húsnæðissamvinnufélaga helst til frambúðar innan félagslegs húsnæðiskerfis.“

Ég óttast að sú tortryggni, sem nú er komin upp í kringum þetta, muni á endanum drepa þetta mál. Ég tel að álit lagatúlkenda, t. d. hæstaréttarlögmannsins Ragnars Aðalsteinssonar sem lesið var upp áðan og túlkun ráðh. sem flytur málið, hefði nægt til þess að tryggja Búseta rétt skv. frv. Mér sýnist raunar að áherslan sem Sjálfstfl. leggur á að taka þetta ákvæði út úr frv. sýni líka að svo sé. Það eru augljóslega miklu fleiri þeirrar skoðunar. Þangað til fyrir fáeinum dögum voru það allur Framsóknarflokkurinn og öll stjórnarandstaðan. Það hefði verið leikur einn að afgreiða þetta mál án þess að Búsetahugmyndin, þessi nýi valkostur í íslenskum húsnæðismálum, sé næstum, að því er manni virðist, leiddur til höggstokksins og sé skiptimynt í einhvers konar innanbúðardeildum og vöruskiptum milli stjórnarflokkanna. Hér er um miklu merkilegra mál að ræða en svo að það eigi slíkt skilið.