16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6068 í B-deild Alþingistíðinda. (5480)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir leiðbeiningarnar. En ástæðan til þess að ég kveð mér hér hljóðs er sú að í Dagblaðinu í dag er frétt höfð eftir hæstv. iðnrh. um hans framtíðarsýn í iðnaðaruppbyggingu á Íslandi. — Það er nú alveg lágmark þegar þetta mál er á dagskrá að hæstv. iðnrh. sé hér í salnum til að fylgjast með umræðunni. Þarna situr þá hæstv. ráðh. — Það sem ég vildi ræða í þessum efnum, og fagna því að hæstv. ráðh. skuli vera hér, er það hvaða samþykktir í ríkisstj. liggja á bak við þessar yfirlýsingar hæstv. ráðh., þessa framtíðarsýn iðnrh. Sjálfstfl. um þrjú álver, Straumsvík, Eyjafjörður, Þorlákshöfn.

Í viðtalinu við hæstv. ráðh. lætur hann ekki nægja að nefna þessa staði, þessa draumsýn varðandi álverin, heldur er einnig rætt um þá möguleika að útlendingar eigi orkuverin á Íslandi. En í viðtalinu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En það má þó hugsa sér að hraða þessu. Það kæmi jafnvel til greina að semja við þá um allt saman, bæði orkuframkvæmdirnar og álverin, þótt við höfum ekki hugsað okkur þann hátt á hingað til.“

Fyrir tæpum tíu árum gerðist það að spjallað var um það af ýmsum aðilum hér á landi að til greina kæmi að útlendingar eignuðust stóriðjuver á Austurlandi og geysistóra álverksmiðju, auk þess sem það væri hugsanlegt að útlendingar eignuðust orkuver sem þyrfti að byggja fyrir þetta álver. Þessi áætlun, sem þá var greint frá, var birt í dagblöðunum og gekk undir nafninu „INTEGRAL“. Hún byggðist á því að útlendingar áttu ekki aðeins að eiga verksmiðjurnar sem átti að reisa hér á landi heldur líka orkuverin. Hér er um að ræða málefni sem snertir það dagskrármál, sem hér er til umræðu, mjög. Og það er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. iðnrh. geri hér grein fyrir því hvort það er afstaða ríkisstj. að það komi til greina að á næstu fáeinum árum verði reist hér þrjú erlend álver í eigu erlendra stórfyrirtækja auk þess sem útlendingar eigi hér virkjanirnar. Er hæstv. iðnrh. að lýsa því yfir að það komi til greina að útlendingar eigi virkjanirnar hér á landi? Þar með væri brotið í blað í atvinnusögu Íslendinga. Ég hélt satt að segja að hæstv. iðnrh. væri orðinn nægilega kunnugur viðskiptum við erlenda auðhringa til þess að hann léti sér ekki detta í hug að koma fram með slíkar hugmyndir.

Hæstv. iðnrh. lýsti því yfir fyrir fjórtán mánuðum eða svo að þegar skipt yrði um iðnrh. yrði samið við auðhringinn í Straumsvík þegar í stað. Það stæði í raun og veru ekki á neinu öðru en því að iðnrh. Alþb. hefði sýnt þvermóðsku í þessu máli og þegar Hjörleifur Guttormsson væri farinn út úr iðnrn. mundi á samri stundu skipta um og auðhringurinn skammast til að semja um hærra raforkuverð. Þegar hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson hafði gegnt starfi sínu í nokkra mánuði var hann spurður af fréttamönnum: Hvernig gengur að semja við auðhringinn? Og hæstv. ráðh. svaraði því til að þeir væru staðir, en það er lýsingarorð sem notað er um körg hross í þessu landi eins og kunnugt er. Þegar hæstv. iðnrh. hafði svo glímt við auðhringinn nokkra mánuði í viðbót voru þeir ekki lengur aðeins staðir heldur voru þeir þungir og erfiðir. Þetta er óttalegur þungaiðnaður, sagði hæstv. iðnrh., að eiga við þessa menn, fulltrúa auðhringsins Swiss Aluminium. Er það í rauninni eini þungaiðnaðurinn sem hæstv. ráðh. hefur greint frá að hann hafi komist beint í tæri við þann tíma sem hann hefur gegnt því starfi.

Nú er hann hins vegar að fitja upp á því að bæta við þremur erlendum stórfyrirtækjum hér á landi. Það er í Straumsvík í viðbót við það sem fyrir er, það er í Eyjafirði og það er í Þorlákshöfn. Og til viðbótar eru uppi hugmyndir um að útlendingarnir eigi virkjanirnar. Ég vil spyrja þm. Framsfl.: Eru þeir samþykkir því að útlendingar eigi virkjanirnar hér á landi? Orð hv. þm. Páls Péturssonar hér fyrr í kvöld mátti skilja svo að hann teldi að það kæmi hugsanlega til greina að útlendingar ættu einnig virkjanirnar. Og ég vil spyrja hv. þm. Pál Pétursson og óska eftir því að hann verði kvaddur hér til ef hann er ekki í salnum: Er það réttur skilningur að þeir framsóknarmenn ætli nú ekki einasta að bæta við þremur álverum sem útlendingar eigi alfarið, og Framsfl. barðist gegn hugmyndum á sínum tíma um átverið í Straumsvík, heldur ætli þeir líka að ganga undir þær hugmyndir sem núverandi iðnrh. er með um að útlendingar eigi virkjanir hér á landi? Er það hugsanlegt að á bak við þessar yfirlýsingar hæstv. iðnrh. sé samkomulag í stjórnarflokkunum? Getur það verið að báðir stjórnarflokkarnir séu svo heillum horfnir að þeir láti sér detta í hug að reisa hér þrjú erlend álver og að útlendingar eigi hlut í virkjunum hér á landi?

Ég tel, virðulegi forseti, í tilefni af yfirlýsingu iðnrh. í Dagblaðinu í dag algerlega óhjákvæmilegt að hann geri grein fyrir því hvaða samþykktir liggja á bak við þessa draumsýn hans um þrjár útlendar verksmiðjur hér í landinu og hvaða samþykktir í stjórnarflokkunum liggja á bak við það að útlendingar eigi jafnvel orkuverin líka. Og ég vil endurtaka spurningu mína til hv. þm. Páls Péturssonar. Í umræðum um þetta mál hér fyrr í kvöld kom fram að svo virtist sem hann teldi að það gæti komið til greina að útlendingar eignuðust einnig virkjanirnar hér á landi. Ég vil spyrja hv. þm. Pál Pétursson að því: Kannast hann við að hann styðji slíkar hugmyndir, að ekki aðeins sé verið að afhenda útlendingum forræði yfir verksmiðjurekstri hér á landi, atvinnurekstri í stórum stíl og þar með verið að þrengja sjálfsforræði Íslendinga í atvinnumálum, heldur sé það líka hugmynd Framsfl. ofan á allt annað að styðja hugmyndir um að útlendingar eigi hér virkjanir? Ég óska eftir því að hv. þm. Páll Pétursson svari þessu afdráttarlaust. Telur hann koma til greina að útlendingar eignist virkjanir hér á landi og styður Framsfl. þær hugmyndir hæstv. iðnrh. að byggja þrjú álver hér á landi? Þessir hlutir verða að vera alveg skýrir.

Framsfl. lagðist mjög ákveðið gegn hugmyndunum um byggingu álversins á sínum tíma og eignarhald útlendinga á því og það komu fram kröfur um það frá framsóknarmönnum á þeim tíma að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið vegna þess að menn gerðu sér þá grein fyrir því í þeim flokki að það væri verið að brjóta í blað í atvinnusögu Íslendinga. síðar kom Framsfl. sér upp þeirri stefnu og lýsti því yfir aftur og aftur, m. a. í þeirri ríkisstjórn sem við áttum aðild að saman Framsfl. og Alþb., að ef til samstarfs við útlendinga kæmi yrðu þeir skilyrðislaust að vera minnihlutaaðilar. Þannig að Íslendingar hefðu hreinan meiri hluta í fyrirtækjunum og þar með fullt forræði yfir þeim, en það væri ekki eins og hjá átverinu í Straumsvík þar sem útlendingar ráða í rauninni lögum og lofum og eru sá þungaiðnaður sem hæstv. iðnrh. hefur lýst. Kemur það til greina að Framsfl. styðji meirihlutaeign útlendinga í iðjuverum hér á landi? Er hugsanlegt að afstaða Framsfl. hafi breyst og að hún liggi á bak við þessar dæmalausu yfirlýsingar iðnrh. núv. ríkisstj. um þrjú álver og virkjanir í eigu útlendinga?

Ég tel, hæstv. forseti, að áður en þessari umr. lýkur sé algjörlega óhjákvæmilegt að svör iðnrh. við framkomnum spurningum í þessu efni komi fram og að hv. þm., formaður þingflokks Framsfl., geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni.