17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6118 í B-deild Alþingistíðinda. (5511)

380. mál, utanríkismál

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hér liggur fyrir og hann hefur gefið Alþingi, sem er bæði glögg og yfirgripsmikil um þau mál sem heyra undir rn. hans. Jafnframt vil ég þakka meðnm, mínum samstarfið í utanrmn. í vetur.

Mig langar til þess að víkja hér að nokkrum atriðum í skýrslunni, sem sum hafa þegar borið á góma hér í umr. í dag. Það er fjallað um alþjóðamál framarlega í skýrslunni, strax í II. kafla, og þá vikið að afvopnunarmálum sérstaklega. Ég held að það fari ekki á milli mála að afvopnunarmál eru þessi árin mál málanna, þau mál sem við Íslendingar höfum of lítinn gaum gefið á liðnum árum, en ættum að sinna meir en við höfum gert. Það er eins og menn hafi talið að þegar rætt er um afvopnunarmál, þegar rætt er um vígbúnaðarmál, þegar rætt er um kjarnorkuvopn, þá séu það mál sem fyrst og fremst snerta aðrar þjóðir en koma okkur tiltölulega lítið við. Þetta er vitanlega hinn mesti misskilningur og það kemur raunar glöggt fram hér í skýrslunni að slíkt er ekki við hæfi og sæmir okkur ekki sem sjálfstæðri þjóð að leiða svo viðamikla og mikilvæga málaflokka nánast með öllu hjá okkur.

Ég hygg að sú friðarvika, sem haldin var hér bænadagana, hafi vakið menn betur og meir til umhugsunar um þessi atriði en nokkuð annað á liðnum misserum, og að mörgu leyti tókst hún sem til var ætlast. Hún vakti athygli á þessum málaflokki og vakti marga Íslendinga þar til umhugsunar, sem var vissulega mjög tímabært orðið. Ég held að það fari ekki á milli mála og það þarf engan að undra að afstaðan til kjarnorkuvígbúnaðarins er hér efst á blaði og hefur valdið mönnum mestri umhugsun, þ. e. afvopnunin á því sviði, því að það er vitanlega þaðan sem ógnin stafar framar öllu öðru.

Það hafa hér á þingi þegar orðið nokkrar deilur um afstöðuna og stefnuna í þeim málum þegar afvopnunarmál hafa borið á góma áður á þessu þingi. Fyrir utanríkismálanefnd hafa legið allnokkrar tillögur, að mig minnir fjórar, án þess að nokkur þeirra hafi verið afgreidd þar sem á þessum málum er tekið á mismunandi hátt. Ég held þó, að þær eigi það allar sameiginlegt að hvetja til og miða að alhliða afvopnun á sviði kjarnorkuvopna. Kjarni málsins er að framleiðsla þeirra verði stöðvuð og síðan verði þeim fækkað. Þetta hefur ýmist gengið undir nafninu frysting eða það að samkomulag náist um alhliða og gagnkvæma afvopnun.

Menn hafa notað hér ýmis orð en ég held að markmiðið og viljinn sé hér raunar hinn sami. Og það er ástæðulaust í þessari umr. að gera frystingu kjarnorkuvopna í sjálfu sér tortryggilega vegna þess að hún er raunar ekki annað en alhliða og gagnkvæm afvopnun, raunverulega fyrsta stig hennar, þ. e. stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna. En það er rétt, sem segir á bls. 10 í skýrslu utanrrh. til Alþingis, að frysting kjarnorkuvopna er í raun óframkvæmanleg nema með samkomulagi kjarnorkuveldanna sjálfra, þar á meðal um raunhæft eftirlit, og undir þessi orð vil ég taka. Ég held að hér sé raunhæft mat á ferðum í þessu efni, en það þýðir hins vegar ekki að það eigi ekki að vera eitt okkar meginverkefni á sviði utanríkismála, sem skort hefur á liðnum árum, að taka virkan og miklum mun öflugri þátt í því afvopnunarstarfi sem á sér stað á sviði Sameinuðu þjóðanna, á sviði Atlantshafsbandalagsins og ýmsum öðrum sviðum innan alþjóðastofnana og samtaka sem Ísland er aðili að. Það er sannarlega kominn tími til þess að við leggjum þar okkar lóð á vogarskálina og gerumst þar virkir aðilar.

Það eru áratugir síðan Norðurlandaþjóðirnar hófu störf í þessum efnum þó að við höfum leitt þau hjá okkur. Þau störf hafa vakið atþjóðaathygli og má þar m. a. minnast á störf Norðmanna og Svía á vettvangi afvopnunarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem þessar þjóðir hafa um margt verið leiðtogar í þeim efnum. Innan bandalags hinna sameinuðu þjóða starfar afvopnunarnefnd sem er kjörinn vettvangur fyrir smáþjóðir eins og Norðurlandaþjóðirnar til að láta að sér kveða í þessum efnum — til þess að láta rödd sína heyrast og til þess að hafa þar áhrif. Þar hafa hin Norðurlöndin unnið mikið og gagnmerkt starf með aðild að þessari nefnd og ég held að það væri orðið tímabært að Ísland velti því fyrir sér hvort það ætti ekki að hasla sér þar völl einnig, taka þátt þar í þeim störfum vegna þess að það stendur okkur opið. Þetta leiðir raunar hugann að öðru, þegar maður les kafla skýrslunnar um alþjóðastofnanir, þ. e. III. kaflann, um Sameinuðu þjóðirnar fyrst og fremst, að innan Sameinuðu þjóðanna, sem eru þó mikilvægustu alþjóðasamtökin sem Ísland er aðili að, höfum við að mörgu leyti verið hlutlaus áhorfandi fram til þessa, ef undan eru skilin störf okkar og þátttaka í hafréttarmálunum á alþjóðavettvangi og þá innan Sameinuðu þjóðanna. Við höfum að mestu leyti á öðrum vettvangi innan Sameinuðu þjóðanna leitt starfið þar hjá okkur og þá er ég að tala um virkt starf, virka aðild. Fulltrúar okkar þar hafa vitanlega fylgst með og sótt þar almenna fundi og gert það ugglaust með prýði, en að við höfum lagt þar lóð okkar á vogarskálina með virkri aðild í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur verið af mjög skornum skammti.

Það má í beinu framhaldi af afvopnunarmálunum og þátttöku okkar í þeim nefna að okkur hefur oft boðist sæti eins og öðrum Norðurlandaþjóðum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það er valdamesta stofnun Sameinuðu þjóðanna og þar er kjörinn vettvangur til þess að vinna að þessum efnum. Við höfum neitað því að sumu leyti af skiljanlegum ástæðum, en ég held að það sé orðið tímabært að menn endurskoði þá afstöðu í ljósi þeirra sjónarmiða sem ég var að nefna áðan.

Í öðru lagi hygg ég að það sé orðið fyllilega tímabært og megi satt að segja ekki dragast öllu lengur að Íslendingar gerist aðilar og fái fulltrúa í stjórnarnefnd efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna, economic and social council eins og það er nefnt, vegna þess að innan vettvangs þess ráðs fer fram merkasta starf Sameinuðu þjóðanna, ef frá eru skilin störfin að pólitískum málum og afvopnunarmálum. Það má kannske segja að innan efnahags- og félagsmálaráðsins fari fram um 75% af störfum Sameinuðu þjóðanna yfirleitt. Þar starfa sérstakar nefndir að mannréttindum, að málefnum kvenna, að auðlindamálum, að vísindamálum og þar að auki að þróunarmálum. Hér er því um stofnun að ræða, eina meginstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem spannar allt það svið sem Íslendingar hafa að mörgu leyti sérstakan áhuga á. Og það er kominn tími til að Íslendingar eignuðust fulltrúa þó ekki væri nema í mannréttindanefnd þessari sem ég nefndi, en þar hafa Íslendingar aldrei átt fulltrúa og aldrei látið að sér kveða af þeim ástæðum.

Við höfum hins vegar átt einu sinni fulltrúa í auðlindanefndinni, en það var kjörinn vettvangur til þess að kynna kröfur okkar á þeim tíma til auðlinda hafsins. Ég vildi beina því til utanrrh. að taka til athugunar hvort ekki væri tímabært að Íslendingar tækju sæti á bekk með þeim þjóðum sem þarna eru í stjórnarnefnd. Og það má bæta því við að það er vitanlega sjálfsagt að sækjast eftir því að Íslendingar eigi fulltrúa í stjórn hinnar nýju Hafsbotnsstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem nú er verið að setja á laggirnar og aðsetur sitt mun hafa á Jamaica, eða þá í hafréttardómstólnum sem sæti mun eiga í Hamborg. Báðar þessar stofnanir munu taka til starfa innan tiltölulega skamms tíma.

Það er ástæðulaust að fjölyrða hér um varnarmálin. Ég er sammála þeim niðurstöðum sem ráðh. hefur lagt hér fram í skýrslu sinni, en það er kannske sérstök ástæða til þess að undirstrika að nú virðist vera í þann veginn að gerast stefnubreyting að því er varðar sérfræðikunnáttu okkar Íslendinga á sviði varnarmála og möguleika okkar á því að fylgjast með því sem er að gerast í þeim efnum. Það er ekki vafi á því að grundvöllurinn að virkri þátttöku okkar Íslendinga í varnarsamstarfi því sem við erum í í Atlantshafsbandalaginu er sá að við öðlumst sjálfir meiri reynslu og þekkingu á varnarmálum sem gerir okkur fært að leggja sjálfstætt mat á þá hernaðarlegu stöðu sem íslenska þjóðin býr við og sambúðin við varnarliðið kallar á. Með þeim hætti verðum við í stakk búin til þess að taka fullan þátt í stefnumörkunum um fyrirkomulag varna landsins og með slíkri þekkingu hljótum við að geta óskað fremur úrbóta, ef við teljum að vörnunum sé að einhverju leyti áfátt, og hafnað hugmyndum og fyrirætlunum á þessu sviði sem við teljum að séu ekki í samræmi við þarfir okkar og stefnu í öryggismálum.

Í þessu efni hefur pottur verið mjög brotinn á undanförnum árum því að okkur hefur skort sérmenntaða menn á sviði varnarmála sem hafa getað verið íslenskum stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumörkun á þeim vettvangi. Það leiðir af sjálfu sér að það er ekki til frambúðar unnt að una því að hér í landinu sé varnartið sem taki upp á eigin spýtur ákvarðanir um varnir Íslands án þess að við höfum átt þess kost að eiga þar hlut að máli. Þess vegna er það ánægjuefni að sjá í skýrslunni að ætlunin er að efla varnarmáladeild, bæði með hliðsjón af núverandi umfangi verkefna hennar og ekki síður í þeim tilgangi að á vegum rn. verði ávallt til staðar fullnægjandi sérfræðileg þekking á varnarmálum. Þessu hefur að vísu verið oft lofað áður. Ég minnist fleiri en eins og fleiri en tveggja utanrrh. sem hafa talað í þessa veru um nauðsynina á sérfræðilegri þekkingu, en ég leyfi mér að vona að nú sé þetta mál komið á framkvæmdastig því að hér er sterkt til orða tekið í skýrslunni um þetta efni.

Ég vil aðeins fara örfáum orðum um þann kafla í skýrslunni sem fjallar um hafréttarmálin. Þar er eining á þingi og í utanrmn. og það ber mjög að fagna því. Ég þarf ekki að rekja hér sérstaklega afstöðu manna í utanrmn. til hafsbotns- og landgrunnsmálanna. Þar hefur verið unnin sérfræðileg vinna á síðustu mánuðum og misserum varðandi þau réttindi sem við eigum á Hatton-Rockall-svæðinu. Það er enginn vafi á réttindum okkar á Reykjaneshryggnum. Þau eru alveg ljós skv. hafréttarsáttmálanum og jafnframt hafa sjónarmið okkar verið kynnt af sérfræðingum hjá nágrannaþjóðunum sem í hlut eiga. Á þeim málum hefur að mínu mati verið mjög vel haldið af hálfu utanrrn. og einhugur er um stefnuna. Ég hygg að það sé óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að nota sumarið til þess að undirbúa sjónarmið okkar og kröfugerð varðandi Hatton-Rockall-svæðið þannig að unnt sé að leggja álit fram hér á þingi strax á haustdögum, hvort sem það verður í formi nýrrar þál. eða þá í formi lagabreytingar á lögum nr. 41 frá 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. En mikilsvert er að áfram verði unnið í þessum málum nú í sumar og jafnframt að viðræður við aðrar þjóðir eigi sér þá stað. Það er ljóst að ef ekki tekst samkomulag er hætta á því að landgrunns- og hafsbotnsnefnd hinnar nýju Hafsbotnsstofnunar taki. málið í sínar hendur. Hugsanlegt er að hér komi upp kröfur um að þetta svæði verði gert að alþjóðlegu svæði sem sú stofnun eigi þá nýtingarréttinn til. Þar með er búið að koma málinu öllu í greinilega hættu. Þess vegna er nauðsyn tiltölulega hraðra aðgerða í þessu efni. Hins vegar vil ég vara við að rasa hér um ráð fram. Sú ályktun sem Alþingi samþykkti í þessum efnum á síðasta vori er nægileg stefnumörkun í bili, en nýr kapítuli hlýtur að hefjast formlega þegar þing kemur saman í haust.

Ég harma að þáltill. Jóns Sveinssonar varaþm. um hvatveiðimál hefur ekki hlotið meiri undirtektir eða athygli Alþingis en raunin er. Hún hefur ekki komið á dagskrá eftir að fyrir henni var mælt. Ég tel að hér sé um mikið hagsmunamál að ræða, en jafnframt mjög viðkvæmt og erfitt mál. Ég vil vekja athygli á því, án þess að ég ætli að ræða sérstaklega um þá till., að hún leggur til að aðgerðir verði uppi hafðar af okkar hálfu sem eru allt annars eðlis en á síðasta ári var um rætt, það að mótmæla ályktun hvalveiðiráðsins. Það er ekki um það að ræða hér, heldur aðeins verið að biðja um undanþágu. Alveg burtséð frá örlögum þessa þingmáls held ég að það sé alveg sjálfsagt og reyndar bráðnauðsynlegt að á næsta fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins nú í sumar leggi íslenska ríkisstj. fram beiðni um undanþágu til hvalveiða af hálfu Íslendinga eftir að bannið á að taka gildi 1986. Það er fyrst og fremst vegna þess að útflutningstekjur þær sem við höfum af hvalveiðum eru 1.6% af heildinni. Þær veita 200 manns vinnu. Það sem einnig verður að líta til er að sérfræðingar og vísindamenn hafa ekki talið að um ofveiði á stofninum sé að ræða. Ég vil undirstrika nauðsynina á því að slík ósk verði lögð fram af hálfu íslenskra stjórnvalda í því efni.

Það er líka ástæðulaust að fjölyrða um laxveiðimálin. Það er í gildi samningur um laxveiðar á Norður-Atlantshafi. Með þeim samningi og fyrir tilstilli þeirrar stofnunar sem þá var sett á laggirnar er laxveiði bönnuð utan landhelginnar, 12 mílna landhelginnar, nema tveimur þjóðum, Færeyingum og Grænlendingum. Það eru tvímælalaust laxveiðar Færeyinga sem hafa haft mest áhrif á vöxt og viðgang íslensku laxastofnanna og afla í íslenskum ám. Ég held að það sé mjög brýnt að íslenska sendinefndin innan þessarar stofnunar leggi á það mikla áherslu og meiri áherslu en gert hefur verið hingað til að meginhlutverk þeirrar stofnunar á næstu misserum og næstu árum hlýtur að vera að stórlega verði dregið úr laxveiði í sjó, þ. e. utan við 12 mílna landhelgina. Færeyingar veiða þar nú 620 tonn. Það er tvöfalt meiri afli en úr öllum íslenskum ám kemur og það er sannarlega ástæðan til þess að úr því verði dregið. Það ætti að vera hér höfuðverkefnið, nánast eina verkefnið á næstunni. Það ber að fagna því að Íslendingar eru nú loksins að vakna til lífsins í málefnum þróunarlandanna. Þar hafa þeir sofið djúpum svefni um mörg ár, en síðustu tvö árin hefur þar mjög rofað til og tekist hefur að tvöfalda framlag okkar til þróunaraðstoðar frá því sem áður var á síðustu tveimur árum. Það er komið upp í 0.1% af þjóðarframleiðslunni. Þetta er mjög mikill og mjög ánægjulegur áfangi og ríkisstj. mjög til sæmdar og sóma. Ég vildi mega vona að það yrði áframhald á þessari þróun. Þetta eru 65 millj. kr. nú í ár og áþekk tala á síðasta ári. Ég vona að það verði áframhald á þeirri þróun. Ég þarf ekki að fara um það frekari orðum. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson rakti rökin sem að baki liggja í þessu efni í mjög ljósu og glöggu máli hér fyrr í dag. Ég held að við ættum að einsetja okkur að búa til 10 ára áætlun þar sem við ykjum þessa prósentu um 0.1% á ári, þannig að eftir 10 ár hefðum við náð því marki sem Sameinuðu þjóðirnar hafa fyrir alllöngu sett, að 1% af þjóðartekjum rynni til þróunarmála.

Að lokum vil ég víkja að efni sem varðar utanrrn. og utanríkisþjónustuna sjálfa. Eitt aðalmálið á ráðstefnu sem Bandalag háskólamanna hélt nú fyrir þremur vikum, þar sem var rætt um það á hvern hátt menntunin gæti nýst í atvinnulífinu, voru markaðsmálin. Ræðumaður eftir ræðumann benti á að það svið sem einna vanræktast væri í því efni væri markaðsleit og sölumennska fyrir íslenskar afurðir. Nú er það svo, að í reglugerð um Stjórnarráð Íslands er ekki minnst á það einu orði að meðal verkefna utanrrn. sé markaðsleit eða starf að þeim málum, en hins vegar er minnst á það í lögum utanríkisþjónustu Íslands sem eitt af verkefnunum. Ég held að það fari ekki á milli mála að störf að þessum efnum af hálfu rn. þarf að stórauka á næstu árum og ég þykist vita að á því er skilningur. En það þarf vitanlega einnig framkvæmdir á þessu sviði. Það eru skiptar skoðanir á því og við heyrðum hv. þm. Svavar Gestsson lýsa því yfir hér fyrr í dag að það ætti ekki að fella utanríkisviðskiptamálin alfarið undir utanrrn. og leggja viðskrn. niður. Ég held að út af fyrir sig sé það rétt að ekki eigi að leggja viðskrn. niður. Það getur starfað áfram, en utanríkisþjónustan þarf að hefja miklu virkari störf að viðskipta- og markaðsmálum en verið hefur. Það gerist ekki nema með fjölgun viðskiptafulltrúa sem á vegum hennar starfa. Við eigum e. t. v. að opna fleiri sendiráð á næstunni. Það er brýn þörf á því að skipaðir verði viðskiptafulltrúar í viðskiptalöndum okkar þar sem engir nú starfa. Ég nefni aðeins tvö lönd, Japan og Nígeríu, sem dæmi um það, þar sem við eigum mikilla hagsmuna að gæta. Þá væri ekki lagt í þann kostnað sem er því samfara að reka sendiráð, en þarna væri um sérmenntaða menn, sérhæfða menn að ræða sem gætu gert mikið gagn og margfaldlega borgað launin sín. Ég tel að slíkir menn ættu að starfa á vegum utanrrn. og utanríkisverslunin og markaðsleitin eigi fyrst og fremst að vera á þess vegum vegna þess að fyrir utan viðskiptafulltrúakerfið, sem ég tel mesta nauðsyn á að byggja upp, höfum við 12 sendiráð víðs vegar um heim sem gætu sinnt þessum málum í miklu meira mæli.

Herra forseti. Ég hef hér vikið að örfáum atriðum í skýrslu utanrrh. sem ég taldi rétt að leggja áherslu á og undirstrika.