17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6182 í B-deild Alþingistíðinda. (5594)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að afstaða forseta í þessum efnum og þessari erfiðu stöðu sé sanngjörn, en það sé hins vegar nauðsynlegt, vegna þess hvað málið er óvenjulegt og getur skapað erfið fordæmi fyrir þingið, að kannað verði nákvæmlega af forseta ásamt skrifstofustjóra Alþingis hvort nokkur fordæmi eru fyrir meðferð af því tagi sem hér er rætt um. Þess vegna legg ég til að deilum um málið verði frestað um skeið meðan menn koma sér niður á það með hvaða hætti er unnt að halda áfram með það. Ég held að það þjóni engum tilgangi að menn deili um þetta vegna þess að hér hlýtur að vera unnt að fara rækilega yfir þingsköp og þau fræðirit sem fyrir liggja, m. a. ritið Deildir Alþingis eftir Bjarna Benediktsson og önnur rit sem hér eru til, og menn átti sig á því hvernig best er að mæta þessum vanda sem vafalaust er mjög óvenjulegur. Ég tel að það sé hins vegar útilokað að hrapa að því þegar í stað að slá því föstu að málið verði tekið upp án nánari athugunar.