18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6228 í B-deild Alþingistíðinda. (5659)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Þorstlátum þdm. vil ég benda á að þeir geta gengið hér út fyrir húsið ef þeir hafa tíma eða löngun og fengið sér Mangósopa til þess að halda upp á samþykkt þessa frv. Eru það félagar í félaginu Búseta sem bjóða upp á þennan nýlega lækkaða og mjög svo umtalaða drykk, en þessi drykkur tengist svo mjög náið afgreiðslu þessa frv. eins og ykkur öllum er kunnugt.

Virðulegi forseti. Það sem okkur þjáir núna er tímaleysi og þess vegna ætla ég ekki að teygja mál mitt hér. Búið er að koma á vit manna flestallri þeirri gagnrýni sem fram er komin um þetta frv. og ekki ástæða til þess að ég sé þar að bera í bakkafullan lækinn. Menn hafa gagnrýnt það tímaleysi sem hrjáði nefndarstörf Ed. í þessu máli. Af þeirri ástæðu hefur stjórnarandstaðan tekið þá mjög svo eðlilegu afstöðu að þar sem nægur tími hafi ekki unnist til að kynna sér frv. fyrir einstaka þdm. og nm. þá muni þeir sitja hjá við afgreiðslu allra annarra greina en þeirra sem að brtt. stjórnarandstöðunnar lúta. Það er bæði til að greiða fyrir afgreiðslu málsins þannig að við getum sem næst staðið við þær tímaáætlanir sem við höfum reynt að setja okkur og eins er þetta af þeirri ástæðu, eins og ég sagði áðan, að við höfum einfaldlega varla haft ráðrúm til þess að meta þetta frv. í einstökum liðum.

Þó að menn hafi gert athugasemdir við markmiðasetningu og það í innihaldi þessa frv. sem að framtíðinni lýtur þá er mjög margt í þessu frv. sem þó horfir til bóta frá því sem nú er og ekki ástæða til þess að tefja afgreiðstu þess af þeim ástæðum. Hérna bíða okkar á dagskrá mörg þung mál eins og ég á von á að 2. dagskrármál verði. Af þeim sökum ætla ég ekki að hafa þessa tölu lengri en minni, eins og ég gerði í upphafi orða minna, aftur á Mangósopann ef menn hafa löngun til.