18.05.1984
Neðri deild: 98. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6282 í B-deild Alþingistíðinda. (5731)

155. mál, kosningar til Alþingis

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Enn kvöldar og enn sitja alþm. við að ræða um kjördæmamál, enda er það við hæfi þar sem það hefur verið saga þessa máls að helst mætti ekki ræða það í björtu.

Hér hefur ýmislegt mjög merkilegt komið fram. Mig langar fyrst að víkja örfáum orðum að því sem kom fram í máli hv. þm. Karvels Pálmasonar. Ég dreg ekki í efa að hv. þm. er jafnaðarmaður og vafalaust ágætur. Hann hefur liðið mér það í allan vetur að ganga frjálsri hendi um lakkrísskúffuna sína og það er mér til vitnis um hans góða hjartalag. Hins vegar tel ég að hann rugli saman algerlega óskyldum hlutum. Ég er sammála honum um allt það sem hann sagði um að fólk á rétt til almennrar þjónustu, fólk á rétt til þess að nálgast stjórnsýsluna, fólk á rétt á að lifa góðu lífi í þessu landi, en við getum ekki nálgast það í gegnum kosningarréttinn. Við getum tekið eitt dæmi. Hv. þm. sagði: Stórfelld byggðaröskun hefur átt sér stað á undanförnum árum. — Það er einmitt á sömu árum sem atkvæðisrétturinn hefur verið misjafnastur, og hversu vel dugði hann? Eigum við að segja að til þess að reyna að koma í veg fyrir byggðaröskun eða til þess að bæta hag fólks úti á landi þurfi að breyta vægi atkvæða í hina áttina? Eigum við að breyta hlutföllunum úr því að vera kannske 1 á móti 3, eins og kemur fram í grg. með frv. sem hér er til umr. þótt hv. þm. Ólafur Þórðarson hafi talið það fals og blekkingar, í 1 á móti 10? Ég held einmitt að þessi stórfellda byggðaröskun, sem menn hafa orðið vitni að á undanförnum árum, sé merkið um að misvægi í atkvæðisrétti getur ekki bjargað okkur. Það bjargar hvorki okkur né þeim sem búa úti á landi vegna þess að það er ekki hægt að meta atkvæðisréttinn til fjár. Við getum ekki stillt honum upp á móti heilsugæslustöðvum eða malbiki eða símalínum eða öðru, eins og ég ræddi hér í gærkveldi eða í morgun eða í nótt eða hvað sem menn vilja kalla það. Þetta er kannske mergurinn málsins. Í þessu sjáum við hvernig þetta kerfi virkar.

Ég er alveg sammála því að byggðastefna er rétt og við eigum að halda uppi á hverjum tíma mjög virkri byggðastefnu. Hv. þm. sagði að fulltrúar BJ hefðu ekkert lagt til málanna varðandi byggðastefnu. Ég vil minna á að við höfum flutt hér í vetur þáltill. um framkvæmd byggðastefnu sem miðar að því að gefa fólki heima í héruðum rétt til umráða og íhlutunar um þessi mál. Við fluttum þáltill. um það sem við köllum „þróunarstofur landshlutanna“, sem byggist á því að fólk í heimabyggð sinni fái umráðarétt yfir sínum málum. Á landsfundi okkar í nóvember s. l. var samþykkt till. okkar um fylkjaskipan sem miðar einmitt að því að koma ákvörðun um þessa hluti heim í hérað, gefa héruðum tekjustofna, leyfa þeim að ráða sínum málum. Ég tel því að við höfum unnið þarna vel og stöndum okkur þar ekkert verr en aðrir. En við leggjum ríka áherslu á að það er alveg sama hversu mikilvæg byggðastefnan er, við verðum að vinna henni rétt með lýðræðislegum aðferðum og það verður aldrei sátt um hana í þessu landi fyrr en það stendur að baki henni meiri hluti fólksins, vegna þess að einungis þá hafa bæði þéttbýlismenn og dreifbýlismenn af henni fullan sóma.

Ég sagði í nótt að allir Íslendingar sem búa í svokölluðu þéttbýli væru tiltölulega nýlega þangað komnir. Menn eiga ættir að rekja, menn eiga félaga, menn eiga kunningja, menn eiga skyldmenni úti á landi og það er fullkomlega ástæðulaust að halda því fram að fólk úti á landi þurfi að verja rétt sinn gagnvart þéttbýlisfólki með því að hafa kannske þrefaldan atkvæðisrétt á við það. Hvaða skoðanir þéttbýlisfólksins eru svo slæmar að þær eigi ekki fullan rétt á sér? Hvaða slys mundu gerast ef það fengi fullan atkvæðisrétt? Í sambandi við jafnaðarmennsku getum við sagt líka: Hvað með allt láglaunafólkið í Reykjavík? Í Reykjavík er líklega hlutfallslega meira af láglaunafólki, einstæðingum ýmiss konar, en í öðrum byggðarlögum á landinu. Það er spurningin hvort hlutur þeirra efnaminnstu í Reykjavík er ekki svona slæmur vegna þess að þeir hafa ekki haft jafnmikinn rétt og aðrir um íhlutun í þjóðmál, þeir hafa verulega skertan gengisfelldan atkvæðisrétt. Ég held að menn ættu að hafa það í huga.

Ég segi enn og aftur að ég er fullkomlega sammála því að í landinu sé rekin stefna sem miðar að því að búa öllum íbúum þess, hvar sem þeir búa, í þéttbýli og í dreifbýli, sem bestan hag. En það gerist ekki á þann hátt að vega atkvæðisrétt þeirra. Við höfum nærtæka sönnun vegna þess að aldrei hefur verið meira misvægi atkvæðisréttar en á undanförnum árum og eins og hv. þm. sagði hefur kannske aldrei orðið stórfelldari byggðaröskun.

Örfá orð til viðbótar um þessi atriði. Það hefur ýmislegt borið á góma þegar reynt er að réttlæta þetta misvægi. Það hefur verið talað um að hlutur fólks sem úti á landi býr sé meiri í verðmætasköpun en hinna sem búa á þéttbýlinu. Maður spyr: Hvers lags rök eru þetta, jafnvel hjá sósíalista? Það er eins og breskur aðalsmaður sé að tala. Þannig voru rök aðalsins þegar hann vildi hafa atkvæðisrétt, en leyfði ekki landsetunum. Það var atkvæðisréttur í hlutfalli við auðlegð, við auðsköpun.

Við höfum fyrir löngu hafnað slíkum rökum. Það er það sem jafnaðarmenn allra tíma og allra landa stæra sig einna mest af að hafa verið í fararbroddi þeirrar umbyltingar að veita öllu fólki atkvæðisrétt og veita öllu fólki íhlutunarrétt um sín kjör. Ég held að við getum ekki stillt þessu upp á þennan hátt.

Við getum ekki réttlætt misvægi atkvæða á þann hátt að það sé svo mismunandi aðgangur fólks að þjónustu, að stjórnkerfi og þess háttar. Ég er alveg sammála því að þessi réttur er misjafn, fólk hefur misjafna aðstöðu til að njóta þess sem stjórnkerfið veitir á ýmsan hátt, en við getum bætt það með allt öðrum aðferðum. Það á að efla upplýsingaskyldu og fara þá leið að dreifa stofnunum, þjónustuútibúum eða þess háttar út um landið. Það bætir ekkert að breyta atkvæðisréttinum. Það er grundvallaratriði. Það er vafalaust rétt líka að áhrif þéttbýlisins séu afgerandi á störf löggjafarsamkomunnar vegna þess að hún sé hér og starfsemi fólks hér inni mótist af umræðunum sem það sé í beinustum tengslum við, en leiðin er ekki að breyta atkvæðisréttinum. Leiðin er að auka þá upplýsingaflæði til fólks, t. d. eins og með beinu útvarpi frá Alþingi og upplýsingum frá stjórnkerfinu til fólksins, og leyfa fólkinu aðgang að stjórnmálamönnunum. Við verðum að bæta um í þessum efnum. Við verðum að taka á atriðum eins og mismunandi aðgangi að þjónustu og þess háttar. Við eigum að taka á þeim efnum á þeim grundvelli sem ég var að tala um. Ef við þurfum að bæta læknisþjónustu gerum við það ekki með atkvæðisrétti. Við gerum það með heilsugæslustöðvum eða læknum. Ef við þurfum að bæta aðstöðu í sambandi við lífskjör, laun, gerum við það ekki með misvægi atkvæðisréttar. Við gerum það með því að bæta atvinnuástand og um það verður full sátt. Ég þekki engan Íslending sem býr á þéttbýlissvæði sem mundi beinlínis hafna því að slík stefna væri í frammi höfð. Og það er rangt að stilla þessum aðilum upp sem óvinum vegna þess að menn eiga að vinna sátt þarna á milli. Þannig fáum við úrbæturnar.

Varðandi umræðu um jafnaðarstefnu og kosningarrétt held ég að það hljóti að vera grundvallaratriði, á nákvæmlega sama hátt og jafnaðarstefnan hefur þá rós, kannske eina af fegurri rósunum í sínu hnappagati að hafa aflað fólki, háum og lágum, ríkum og fátækum, konum og körlum, atkvæðisréttar, að vinna á grundvelli þess atkvæðisréttar, á grundvelli sáttar og sameiningar í þjóðfélaginu að öðrum málum sem eiga enn þá langt í land, eins og í sambandi við misjafnan aðgang að ýmiss konar þjónustu vegna búsetu. Það hlýtur að vera. Ég held að ef við notum þessi rök áfram getum við ekki komist að annarri niðurstöðu.

Það er margt um þetta að segja. Við höfum rætt um það að tefja þessar umr. ekki mjög lengi og ég mun standa við þann hluta nætursamningsins sem að mér snýr. Ég tel að þetta mál hafi alls ekki fengið þá umr. sem það þarf og sem það á skilið, hvorki innan þings né utan. Það er merkilegt að fáir af svokölluðum fylgismönnum frv. hafa tekið til máls. Hér hafa farið fram ágæt skoðanaskipti milli þeirra sem eru frv. andstæðir og eru það af ólíkum ástæðum, en ég sakna þess að það hefur enginn flm. komið hér í stól, þeir eru líklega varla í húsinu, til að segja okkur um dásemdir þessa frv., hvers vegna það er svo gott. Þá eigum við ekkert að vera að samþykkja það.

Það er að mínu mati verið að framlengja mismunun og það hefur átt að þröngva þessu í gegn helst umræðulaust. Það hefur verið mælt fyrir þessu máli trekk í trekk um miðjar nætur. Því er skákað til eins og undanvillingi innan dagskrárinnar. Merkilegt er hvað þm. eru um það sinnulausir. Ef þeir eru óánægðir með það eiga þeir að koma upp og segja það. Ég sakna þess að hafa t. d. ekki heyrt í forsvarsmönnum Framsfl., á stalli eða ekki, um álit þeirra á þessu máli, hvort þeim finnist réttur fólks og frelsi fólks og mannréttindi sæmilega borin fyrir brjósti. Og ég sakna þess að hafa ekki heyrt fulltrúa Alþb. t. d. tala um atkvæðisrétt þeirra láglaunamanna sem búa hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er stór hópur. Komið hefur í ljós í vetur að það eru þúsundir fólks. Það er að myndast ný stétt sem býr við stórkostlega skert kjör. Öruggasta leiðin fyrir þetta fólk til að ná fram rétti sínum er að hafa fullan atkvæðisrétt. Ég hefði haft gaman af því að heyra talsmenn Alþb. minnast á það. Hver er réttur einstæðra mæðra uppi í Breiðholti, öryrkja, aldraðra? Þau eiga rétt líka.

Herra forseti. Ég mun ekki lengja mál mitt meira en orðið er. Það hefur komið fram í máli mínu í kvöld og í gær hvaða afstöðu ég hef til þessa máls. Ég tel að hér sé gengið á móti grundvallarreglum. Ég get ekki séð hvaða skoðanir fólks í þéttbýli eru svo óheilbrigðar og vitlausar að þær megi ekki njóta fulls atkvæðisréttar. Við höfum enga ástæðu til að ætla að meiri hluti þjóðarinnar muni níðast á fulltrúum dreifbýlis eða öðrum þeim sem búa við erfiðar aðstæður. Við erum aðilar að sáttmálum, bæði mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem er lögð áhersla á jöfnuð í atkvæðisrétti. Við eigum kannske að segja okkur úr þessum samtökum meðan við erum að baslast í þessum málum eins og við gerum.

Ég hef líka ríka ástæðu til að ætla að þeir málsvarar, sem hafa hér talað fyrir því að atkvæði eigi að vera misþung til að vega upp á móti öðrum ójöfnuði, tali ekki fyrir munn síns fólks. Við skulum t. d. minnast þess að í skoðanakönnun sem var gerð s. l. vetur, að mig minnir á vegum DV, kom í ljós að 80% þjóðarinnar vildu jafnan atkvæðisrétt. Þeirra skoðana var ekki einungis aflað í Reykjavík. Þeirra skoðana var aflað um allt land, eins og gert er í skoðanakönnunum DV. Fólk gerir sér grein fyrir þessum grundvallaratriðum. Ég held því að það sé ekki fólksins vegna, hvorki fólksins í Reykjavík né fólksins úti á landi, sem styr stendur í þinginu um þessi mál. Eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson lýsti vel eru það allt aðrir hagsmunir sem valda þessum deilum og valda því að menn hafa nú eftir fjögurra mánaða neðanjarðarbrölt komið upp án árangurs. Menn eru að basla með þingsæti sín. Það kom ágætlega í ljós þegar reiknimeistarinn Þorkell Helgason sat hér frammi á gangi í lokahríðinni, þegar verið var að reikna út Droop og kompaní, og þm. komu og flettu því upp í tölvupappírunum hvort þeir væru örugglega inni samkvæmt nýjustu reikningum. Mér sýndist jafnvel að það væri tekið á móti umsóknum.

Enn þá hefur þjóðin ekki fengið að vita neitt um hvað var verið að ræða í þinginu, með hvað menn voru að bögglast hérna síðustu vikurnar og síðustu mánuðina. Í Þjóðviljanum í gær stóð: Alþýðubandalagið hafnar Droop eða Alþýðubandalagið á móti Droop 6:4. Þá minntist ég gamallar konu sem hélt að Droop væri aðmíráll á Keflavíkurflugvelli. Ekki batnaði það í dag þegar stendur í Þjóðviljanum að Droop hafi rekið hnífinn í bakið á þeim eða eitthvað þess háttar, ég man ekki nákvæmlega hvernig var til orða tekið. Hver er þessi Droop? Hvernig væri að einhver af þessum reiknimeisturum segði nú fólkinu um hvað reikningskúnstin stóð og kynntu fyrir því Droop og allt hans kompaní og lýstu reiknireglunum og reiknikröfunum? Þá rynni kannske upp fyrir þjóðinni um hvað hrossakaupin hafa staðið. Þess vegna ítreka ég þá skoðun mína og Framsfl. að það eigi að efna til stjórnlagaþings þar sem þessi beiski kaleikur er tekinn frá þingmönnum og það yrði kosið þing með jöfnum atkvæðisrétti allra landsmanna til þess að takast á við þessi mál sem flokksforingjarnir, fjórmenningarnir, og Droop hafa ekki getað leyst.