19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6381 í B-deild Alþingistíðinda. (5900)

111. mál, áfengt öl

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég átti satt að segja tæplega von á því að reynt yrði að knýja á um það á þeim fáu dögum sem eftir lifa af þinghaldinu að fram færu umr. um þetta mál hér. Það eru mörg önnur mál sem liggja fyrir þinginu óafgreidd og ég sé satt að segja enga nauðsyn á því að taka þetta mál fram yfir mörg önnur mál sem liggja fyrir í þinginu. Það á bæði við um frv. sem liggja fyrir í deildum þingsins og einnig tillögur sem liggja fyrir hv. Sþ. Það á t. d. við um umr. um utanríkismál sem enn er ekki lokið. Ég átta mig satt að segja ekki á því offorsi sem er varðandi það að keyra þetta mál endanlega fram til lykta umfram fjölda annarra mála sem hér liggja fyrir.

Úr því að þetta mál er komið til umr. þá tek ég fyrir mitt leyti undir það nál. sem hér liggur fyrir á þskj. 1000 frá 1. minni hl. allshn. þar sem lagt er til að till. verði felld. Rök mín í þeim efnum eru af ýmsum toga. Í fyrsta lagi þau sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson rakti hér áðan, ég tel að þingið eigi sjálft að taka afstöðu í málum af þessu tagi. Í öðru lagi vil ég láta það koma fram að ég er andvígur því að hér yrði gerð þingsályktunarsamþykkt um bjór og tel að þingið eigi að taka afstöðu til þess með breytingu á lögum um áfengismál. Ég mundi sjálfur greiða atkvæði gegn því frv. sem hér liggur fyrir og vitnað var til frá hv. varaþm. Jóni Magnússyni og fleirum.

Það er rétt að það eru mörg mikilvæg mál sem þjóðin þarf að segja skoðun sína á. Hvað um málið sem rætt var hér lengst fyrir áramótin, fiskveiðimálin, og það hvernig háttað er veiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands? Snertir það ekki hverja einustu fjölskyldu í landinu? Það snertir nánar hverja einustu fjölskyldu í landinu en flest önnur mál sem hér hafa verið uppi. Með þeim rökum hefði verið eðlilegra að taka það mál til þjóðaratkvæðis en flest önnur mál sem hér hafa verið rædd í vetur. Hvað með frv. um ríkismat sjávarafurða, svo að ég nefni annað dæmi? Það snertir líf allra fjölskyldna í landinu með beinum og óbeinum hætti hvernig að þeim málum er staðið og lífskjör þjóðarinnar. Hvað um þetta frumvarpafargan allt um að selja ríkiseignir, selja eignir þjóðarinnar? Það er hvert frv. á fætur öðru um þau mál hér inni í þinginu og ríkisstj. boðar að hún ætli áfram að halda á þeirri braut að selja almannaeignir. Því skyldu þessi mál þá ekki koma til þjóðaratkvæðis svo þjóðin fái að segja sjálf hvort hún vilji selja þessar eignir eða ekki? Var hún spurð að því í síðustu kosningum hvort ætti að selja þessa eign eða hina? Það held ég ekki.

Auðvitað eru menn kosnir á Alþingi til þess að taka afstöðu til mála af þessu tagi. Hins vegar er rétt að leggja á það áherslu að fleiri mál fari til þjóðaratkvæðis en gerst hefur á síðustu fjórum áratugum. En Alþingi hafnaði á sínum tíma þjóðaratkvæðagreiðslu um álverið í Straumsvík. Þar var brotið í blað í atvinnusögu Íslendinga að mínu mati þar sem útlendingar voru fyrsta sinni leiddir til vegs í atvinnumálum hér á landi. Það mál átti að fara til þjóðaratkvæðis margfalt frekar en það mál sem hér er á dagskrá. Þess vegna var það sem Alþb. og Framsfl. á þeim tíma lögðu til að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn við Sviss Aluminium.

Sama er að segja um aðild Íslands að EFTA. Það var grundvallarmál líka hvort Íslendingar ætluðu að bindast í samtök um fríverslun að einu eða öllu leyti. Það mál átti að bera undir þjóðaratkvæði eins og þá var lagt til. En ég tel að það sé í rauninni algerlega út í hött að bera mál af því tagi sem hér er um að ræða undir þjóðaratkvæði, fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna eftir að Íslendingar samþykktu stofnun lýðveldis fyrir 40 árum, það teldi ég gersamlega óeðlilegt.

Nú er rætt um það í þessari tillgr. og frsm. 2. minni hl. gerði ekki grein fyrir því hvað það þýddi að fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla um framleiðslu og sölu áfengs öls. Hvað þýðir almenn atkvæðagreiðsla í þessu efni? Á að efna til sérstakra kosninga á Íslandi um þetta mál þar sem farið yrði eftir venjulegum reglum um kosningar? Eða er ætlunin að efna til kosninga samhliða alþingiskosningum um þetta mál? Eða er ætlunin að efna til kosninga samhliða sveitarstjórnarkosningum um þetta mál? Engin skýring liggur fyrir á þessu og það er útilokað fyrir þingið að samþykkja svona till. öðruvísi en að hér sé kveðið afdráttarlaust á um hlutina.

Segjum að þetta færi fram í tengslum við sveitarstjórnarkosningar. Það yrðu fróðlegar kosningar hér hjá okkur í því kjördæmi sem við erum stödd í, Reykjavík, því að í næstu borgarstjórnarkosningum á líka að fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla hér um hundahald. Hvernig halda menn að umr. verði hér um borgarstjórnarmálefni fyrir næstu kosningar ef samhliða er fyrst og fremst verið að knýja á um úrslit varðandi annars vegar hundahald og hins vegar bjór? Menn sjá auðvitað í hendi sér að slíkar kosningar yrðu skrípaleikur einber og það gengur ekki að halda þannig á málum. Að mínu mati er ekki verið að styrkja heldur að veikja lýðræðið með því að taka þannig á málum eins og hér mundi þá verða.

Hvernig halda menn síðan að þetta mundi gerast ef þetta yrði samhliða alþingiskosningum? Hafa menn velt því fyrir sér hvernig þingmálafundirnir verða í landinu?

Skyldu ekki áhugamenn í sambandi við áfengisvarnir t. d. og áfengismál ekki fjölmenna á þá fundi og knýja á um svör fyrst og fremst við þessu máli? Ég nefni sem dæmi minn góða vin, Árna Helgason í Stykkishólmi. Hann mundi ekki láta sér annað lynda en frambjóðendur í Vesturlandskjördæmi svöruðu til um það hvaða afstöðu þeir hefðu í þessu tiltekna máli burtséð frá öllum öðrum málum. Ég held að það sé algerlega fráleitt að láta þjóðmálaumræðu í tengslum við alþingiskosningar spillast af því að eitt einstakt deilumál er tekið út úr af því tagi sem hér er gerð till. um. Mér þykir það því undarlegt ef hv. alþm., sem þekkja til kosninga og hugsa málið til enda, láta sér detta það í hug að láta fara fram almennar kosningar til Alþingis og um leið verði þetta mál sérstaklega á dagskrá fyrir nú utan þann skrípaleik sem uppi yrði hér í Reykjavík þar sem hundahaldið bætist svo við. (Gripið fram í: En að hafa kartöflurnar með?)

Ég held líka, herra forseti, að hér sé um það að ræða að Alþingi marki ákveðna stefnu í því hvernig þjóðaratkvæði fer fram. Sú stefna á að mótast í stjórnarskránni og í umr. um breytingar á stjórnarskránni, sem fram hefur farið á undanförnum árum, hefur verið gert ráð fyrir því að setja sérstakar reglur um þjóðaratkvæði. Ég tel að nauðsynlegt sé að rýmka þar nokkuð um frá því sem verið hefur, en ég teldi algerlega óeðlilegt að fara að brjóta ísinn í þessum efnum með máli af þessum toga. Slíkt gæti spillt fyrir því að stjórnarskráin yrði bætt að þessu leyti. Svona mál mundi draga úr áhuga fólks almennt á því að setja inn í stjórnarskrána ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna er það mín skoðun að slík þjóðaratkvæðagreiðsla mundi veikja þann lýðræðislega áhuga sem uppi er í landinu á því af eðlilegum ástæðum að settar verði hér almennar reglur um þjóðaratkv.

Auk þessa alls má kannske benda á það í þessu sambandi og mér finnst það skipta máli að nefnd áhugamannasamtaka og allra þingflokka er að störfum um mótun opinberrar stefnu í áfengismálum. Mér er kunnugt um að hún starfar vel og hefur þegar skilað ítarlegu nál. Meðan sú nefnd er að störfum er algerlega óeðlilegt að vera að afgreiða hér mál af þessum toga og eðlilegt að hún fái að fjalla um málin og þeir flokkar sem þar eiga fulltrúa geti komið á framfæri í gegnum þá þeirri afstöðu sem þeir vilja hafa uppi í þessum málum.

Nei, við skulum ekki vera að gera okkur leik að því að breyta almennri atkvæðagreiðslu hér í landinu í skrípaleik af neinu tagi. Við skulum gera okkur grein fyrir því að í alþingiskosningum er tekist á um almennar þjóðmálastefnur og þannig hlýtur það að verða. Það er ekki rétt, sem hér hefur verið sagt, að einstakir flokkar hafi ekki haft afstöðu í þessum málum, áfengismálum, eða að einstakir þm. hafi ekki haft það. Það hefur legið fyrir að einstakir þm. og flokkar hafa haft afstöðu í þessum efnum og hafa gert grein fyrir henni. (Gripið fram í: Hver er stefna Alþb. í áfengismálum?) Hún hefur m. a. komið fram, hv. þm., með þeim hætti að ýmsir af okkar frambjóðendum og þm. hafa verið mjög andvígir t. d. því að leyfa sölu á áfengum bjór og ég fullyrði að meiri hluti þingflokks Alþb. hefur tekið þá afstöðu að vera andvígur því að breyta áfengislögunum í þá átt að rýmka þau frá því sem verið hefur, það hefur verið okkar flokksleg afstaða. Þannig hefur það verið og þannig er það.

Hins vegar eru menn komnir í ákveðinn vanda í sambandi við þetta bjórmál. Búið er að leyfa innflutning á bjór úr fríhöfninni í stórum stíl, m. a. íslenskum bjór, og farið er að selja eitthvert sull á veitingastöðum sem kallað er bjór og birtast myndir af í auglýsingum. Ég held þess vegna að þarna séum við staddir frammi fyrir því að vissar varnir, sem menn vilja hafa uppi, virðast vera að bresta og sjálfsagt er nauðsynlegt að menn skoði sína afstöðu í þessum málum og jafnvel endurskoði, þeir sem það vilja, með tilliti til þess. Það er svo annað mál en það sem hér er verið að fjalla um. Hér er fyrst og fremst verið að ákveða að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál, almenn atkvæðagreiðsla, án þess að í tillgr. sé skilgreint hvers konar kosningar það eru. Eru það alþingiskosningar? Eru það sveitarstjórnarkosningar? (Gripið fram í: Hvort tveggja.) Eða almennar kosningar sem fara eingöngu fram um þetta mál? Eða eru menn að tala um að þetta gerist á annan hvorn veginn? Það er alveg útilokað fyrir Alþingi að segja: Látum það bara ráðast. - Hver ræður því þá? Hver mundi ráða því eftir þessari þáltill. hvort það væru sveitarstjórnarkosningar eða alþingiskosningar? Hver ákveður það? Hver mundi ákveða það? (Gripið fram í: Það kemur fram í till., hvorar sem á undan eru.) „Atkvæðagreiðsla fari fram við næstu almennar kosningar.“ Það þýðir að það geti verið sem sagt hvort heldur sem er alþingiskosningar eða sveitarstjórnarkosningar og það á að ráðast. Það gerir nú málið í rauninni enn þá ruglingslegra að mínu mati vegna þess að þar með eru menn að opna fyrir það, t. d. í sambandi við sveitarstjórnarkosningar, að fram fari atkvæðagreiðsla í maí í þéttbýtinu en í júní í dreifbýlinu. Þetta gengur alls ekki upp. Menn hljóta þá að vera að tala hér um alþingiskosningar. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég sé að agnúast við þá afstöðu almennt sem hér kemur fram. En ég bara bendi á að það eru almennir rökrænir gallar á þessari till. eins og hún hér liggur fyrir sem gerir það að verkum að ég held að þm. geti undir engum kringumstæðum samþykkt þá till. sem hér er á dagskrá burtséð frá afstöðu þeirra til bjórmálsins almennt.

Ég tel óhjákvæmilegt, herra forseti, að láta þetta koma hér fram áður en atkvæðagreiðsla fer fram um málið á mánudaginn því að ég tel að hérna sé um að ræða alvarlegt mál. Það á ekki að umgangast þjóðaratkvæðagreiðslu, almenna atkvæðagreiðslu í landinu, af neinni léttúð. Og við eigum líka að muna það að við höfum á okkur í þessu efni ríkar skyldur um að þar sé gætt alls sóma og menn æði ekki út í ófærufen sem getur síðan spillt fyrir að sá lýðræðislegi áhugi, sem er á því að rýmka fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, fái síðar að njóta sín.