21.05.1984
Efri deild: 109. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6407 í B-deild Alþingistíðinda. (5917)

30. mál, almannatryggingar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Þetta litla frv. er komið frá Nd. þar sem 1. flm. þess var hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir. Þetta er einfalt mál og eins og segir í 1. gr. þess er breytingin sú að „fæðingarorlof lengist um einn mánuð sé um að ræða tvíburafæðingu og einn mánuð fyrir hvert barn að auki ef fæðast fleiri í einu. Fæðingarorlof lengist um einn mánuð sé um að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Slík þörf skal rökstudd með læknisvottorði og staðfest af tryggingaráði. Hvort foreldri sem er getur að ósk móður dvalið hjá barni sínu hinn fjórða mánuð.“

Ég bið fyrir þetta litla mál hér til skjótrar afgreiðslu, enda var það afgreitt samhljóða úr Nd. Þetta er lítið mál fyrir þingið að afgreiða en stórt fyrir þá tiltölulega fáu sem það snertir. Þetta mál er að vísu angi af miklu stærra máli sem raunar hefur verið hér til meðferðar í hv. deild en ekki fengið afgreiðslu.

Þetta er ef svo má segja örlítill áfangi í því stóra máli og réttlætisatriði um leið. Ég vona því að þetta mál fái greiða leið hér í dag ef vera mætti af hálfu n. og hv. deildar, en ég leyfi mér að óska eftir því að þessu máli verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.