21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6433 í B-deild Alþingistíðinda. (5951)

281. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tek það fram sérstaklega að við Kolbrún Jónsdóttir vorum ekki boðuð á þann fund sjútvn. sem afgreiddi þetta frv. frá sér. Það hafði verið boðaður fundur í samgn. kl. eitt. Honum var flýtt til kl. ellefu án minnar vitundar og því gat ég ekki mætt á þeim fundi og ekki heldur sjútvn. fundinum.

Ég tel að með samþykkt þessa frv. sé verið að framkvæma sósíalisma andskotans eins og þessi gjörð hefur oft verið nefnd. Þessi gjörð er til komin vegna þess að einstaklingar hafa lagt út í fjármálaævintýri og reiknað með ómældum gróða af því fjármálaævintýri. Sú von brást og eftir sitja þessir einstaklingar með miklar skuldir. Út af fyrir sig hef ég fulla samúð með þeim einstaklingum en ég vil gjarnan að menn séu ábyrgir gerða sinna og er því andvígur að ríkisvaldið sé látið hlaupa til hvenær sem einstaklingnum dettur í hug í því skyni að ausa úr sjóðum einhverra annarra til þessara einstaklinga.

Það kom fram hér hjá hv. síðasta ræðumanni að Samtök grásleppuhrognaframleiðenda séu samþykk þessu og eftir atvikum séu félagsmennirnir samþykkir því að svona verði staðið að málum, þ. e. að leggja sérstakan skatt á framleiðendur. Ef það er rétt þá þarf ekki að setja lög. Þá nota menn þessa félagslegu samstöðu ef hún er fyrir hendi en hlaupa ekki til Alþingis og panta lög. Ég bendi á að það eru allmargir grásleppuhrognaframleiðendur sem ekki eru í þessum samtökum. Þessir menn þurfa að greiða þessa skatta, þessir menn þurfa að greiða fyrir þessa einstaklinga.

Svo er annað sem þarf að koma hér fram. Í umr. í n. kom það fram að hv. síðasti sjútvrh. hafi túlkað þau lög, sem nú eru í gildi, á þann veg að ekki bæri að greiða útflutningsgjöld af lagmeti framleiddu úr grásleppuhrognum. Ég get ekki séð á þeim lögum sem eru í gildi að slík túlkun sé eðlileg. Hitt er annað að það hefur komið fram að þetta gjald hefur í raun verið greitt, þessir framleiðendur hafa fengið sama verð og aðrir framleiðendur, sem þýðir að stórfelldar fúlgur liggja einhvers staðar. Ég tel að það sé mál sem þyrfti að rannsaka betur, athuga hvort þessum aðilum, sem hafa tekið þetta, beri ekki að standa skil á þeim fjármunum.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa gjörð frekar en ég er andvígur því í grundvallaratriðum að menn séu ekki látnir standa ábyrgir gerða sinna. Ég tel að það hefði mátt leysa þetta mál öðruvísi. Ég hef vissulega samúð með þessum einstaklingum, sem hafa nú lent í erfiðleikum vegna þess að ævintýrið mikla heppnaðist ekki, en ég tel að aðrir eigi ekki að greiða fyrir þá óráðsíu sem þarna átti sér stað. Ég tel að þeim einstaklingum öðrum, sem stunda grásleppuveiði eða framleiða grásleppuhrogn, eins og það er kallað hér, og ekki eru í þessum samtökum, beri ekki að greiða þessi gjöld. Ég er þess vegna andvígur þessu frv. og tel það tímanna tákn að það eru sjálfstæðismenn sem nú eru í forsvari fyrir því að koma á sósíalisma andskotans hér á landi.