21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6439 í B-deild Alþingistíðinda. (5974)

Um þingsköp

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla mjög eindregið að taka undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar um að menn komi sér nú saman um hvaða háttur verði hafður á þessum klukkustundum eða dögum sem eftir eru. Menn hafa seinni hluta síðustu viku unnið eftir því óformlega samkomulagi að þinghaldi lyki síðdegis í dag. Atvika vegna hefur það ekki reynst hægt. Hins vegar er augljóst að fastsetja verður lokadag þingsins mjög fljótlega vegna þess að málsmeðferð öll fer mjög eftir því hvaða samkomulag er í gildi. Síðustu dagana fyrir helgi fóru til frekari umr. ýmis mál sem fengu mjög litla umfjöllun og þm. kannske sátu á strák sínum til að leyfa þeim að komast áfram en hefðu hugsanlega fjallað um þau öðruvísi ef fyrirsjáanlega hefði verið betri tími til. Þess vegna held ég að það skipti sköpum til að menn geti ákveðið afgreiðslu mála núna á næstunni að það liggi fyrir hið fyrsta frágengið samkomulag um þingslit og meðferð mála. Ég tel að þessu hafi ekki verið sinnt sem skyldi núna. Ég vil t. d. nefna það að á fund forseta og formanna þingflokka, sem haldinn var í gær í þessu skyni, var enginn boðaður frá þingflokki Bandalags jafnaðarmanna, hvorki formaður þingflokks né varaformaður.