21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6444 í B-deild Alþingistíðinda. (5989)

115. mál, lífeyrissjóður bænda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. um frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda með fyrirvara vegna þess að tíminn til þess að athuga málið í nefndinni var of knappur til þess að unnt væri að kynna sér það til hlítar. Hins vegar vil ég láta það koma fram að ég styð þessa breytingu sem hér er gerð till. um og byggi það m. a. á umsögnum sem fram hafa komið frá ýmsum aðilum og ég held að óhjákvæmilegt sé að kynna hér í hv. deild.

Ein umsögnin, sem fram kom um málið, var frá Lífeyrissjóði bænda, undirrituð af Þórólfi Kristjáni Beck, dags. 2. maí 1984. Þar eru lokaorðin þessi: „Þá vill stjórnin í lokin leggja áherslu á að áðurnefnt frv., sem nú liggur fyrir Alþingi, fái afgreiðslu sem fyrst.“

Búnaðarþing fjallaði um frv. um Lífeyrissjóð bænda og búnaðarmálastjóri sendi félmn. Ed. Alþingis umsögn um þetta mál sem er dags. 9. mars 1984. Þar segir í upphafi: „Búnaðarþing mælir með samþykkt frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda.“ Síðan eru rakin nokkur þau höfuðatriði sem í frv. eru, en eitt meginatriði þessa frv. er það að rétta hlut þeirra maka í landbúnaði sem hafa haft mjög lítinn lífeyrisrétt í Lífeyrissjóði bænda.

Stéttarsamband bænda fjallaði um þetta mál 24. jan. 1984 og sendi þann dag bréf til landbn. Ed. Alþingis sem er undirritað af Hákoni Sigurgrímssyni. Þar segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi stjórnar Stéttarsambands bænda 16. þessa mánaðar var lagt fram bréf yðar dags. 19. des. 1983 þar sem óskað er umsagnar um frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda, 115. mál. Stjórn Stéttarsambandsins samþykkti að mæla með samþykkt frv. Jafnframt var samþykkt að benda á nauðsyn þess að finna fyrir árslok 1984 lausn á fjármögnun lífeyrisgreiðslna til þeirra bænda sem luku miklum hluta starfsævi sinnar fyrir stofnun sjóðsins og geta því aðeins unnið sér óverulegan rétt til lífeyris úr sjóðnum. Gildir í þessu tilliti sama um félagsmenn annarra lífeyrissjóða sem stofnaðir voru um svipað leyti.

Þá vill stjórn Stéttarsambands bænda benda hv. landbn. Ed. á að enn er allmargt aldrað fólk í sveitum landsins sem ekki nýtur neinna lífeyrisgreiðslna annarra en eftirlauna. Sama mun gilda um nokkurn hóp fólks úr röðum verkamanna. Lögin um eftirlaun aldraðra, sem samþykkt voru árið 1980, hafa ekki fært þessu fólki neina úrlausn sinna mála. Að mati stjórnar Stéttarsambandsins er það ekki vansalaust fyrir þjóðfélagið að láta þennan fámenna hóp ellilífeyrisþega standa utan lífeyrissjóðakerfisins. Stjórnin beinir þeim eindregnu tilmælum til hv. landbn. Ed. Alþingis að hún beiti sér fyrir athugun á því hvernig leysa megi vanda þessa fólks.“

Mér er ekki kunnugt um að landbn. Ed. hafi gert neina sérstaka athugun á þessu máli sem snertir þann hóp vinnufólks í sveitum sem er á háum aldri og lítilla lífeyrisréttinda nýtur eða engra fyrir utan almannatryggingakerfið. Ég er sannfærður um að hér er um að ræða þó nokkurn hóp fólks. Þetta er sennilega það fólk sem hefur hvað minnstan félagslegan rétt hér á landi þegar allt kemur til alls. Þetta er fólk sem oft hefur ekki unnið venjulega launavinnu heldur tekið kaup sitt í fæði og húsnæði og jafnvel fóðri fyrir skepnur, sem viðkomandi hafa átt, en þessir einstaklingar hafa um áratuga skeið unnið kauplausir í venjulegum skilningi á búunum. Hér er vafalaust um að ræða stærri hóp en flesta alþm. grunar. Hér er um að ræða mjög fullorðið fólk og þó að það hafi sett meiri svip á landbúnaðinn hér áður en þetta fólk gerir nú, þá er ég sannfærður um að hér er um að ræða hóp fólks, sem nauðsynlegt er að sinna sérstaklega, þ. e. að fjalla sérstaklega um réttindi vinnufólks í sveitum, sem enn er þó nokkur fjöldi.

Samband almennra lífeyrissjóða fjallaði um þetta sérstaka mál, Lífeyrissjóð bænda, og sendi umsögn til landbn. Ed. 29. febr. 1984. Segir í þeirri umsögn með leyfi hæstv. forseta:

„Landbn. Ed. Alþingis hefur óskað eftir umsögn Sambands almennra lífeyrissjóða vegna frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda, 115. mál.

Samband almennra lífeyrissjóða hefur farið yfir helstu meginþætti frv. og telur það almennt til verulegra bóta miðað við núgildandi ákvæði í lögum um lífeyrissjóðina. Sérstaklega fagnar Samband almennra lífeyrissjóða ýmsum ákvæðum í frv. sem geta leyst ýmis samskiptamál Lífeyrissjóðs bænda við hina almennu lífeyrissjóði. Má þar einkum nefna endurskoðun á stigagrundvelli sjóðsins til ákvörðunar lífeyrisréttar. Er þar gert ráð fyrir að miðað verði við mánaðarkaup skv. næstlægsta taxta Dagsbrúnar og fulla starfsaldurshækkun, eða sömu viðmiðun og almennt tíðkast hjá lífeyrissjóðum með stigagrundvöll og hjá umsjónarnefnd eftirlauna.

Eins og kunnugt er er nú unnið að heildarendurskoðun lífeyriskerfisins á vegum tveggja stjórnskipaðra nefnda. Þar sem enn liggja ekki fyrir endanlegar tillögur um réttindamyndun sjóðsfélaga og fleira telur Samband almennra lífeyrissjóða ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að gera efnislegar aths. um einstakar greinar frv. sem fjallar sérstaklega um lífeyrisréttindi.

Varðandi það ákvæði frv. sem fjallar um sjóðsaðild launamanna í landbúnaði að Lífeyrissjóði bænda tekur Samband almennra lífeyrissjóða þó fram að landbúnaðarverkafólk, sem tekur laun skv. kjarasamningi stéttarfélags á félagssvæði þess eða tekur mið af slíkum kjörum, eigi að vera sjóðsfélagar í lífeyrissjóði viðkomandi stéttarfélags. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort slíkir launamenn eru félagsbundnir eða ófélagsbundnir í viðkomandi stéttarfélagi. Þessu til áréttingar skal bent á dóm Hæstaréttar nr. 67/1979, svo og aukadómþings Þingeyjarsýslu frá 22. maí og 29. des. 1978. Þrátt fyrir þann misbrest sem nú er á ákvæðum laga nr. 55/1980 um tryggingarskyldu launamanna í landbúnaði verður ekki séð að ákvæði 2. mgr. 2. gr. frv. leysi þau mál, nema til komi víðtækt samkomulag Lífeyrissjóðs bænda við samband almennra lífeyrissjóða um fastmótaðar reglur um sjóðsaðild landbúnaðarverkafólks að lífeyrissjóðum, svo komast megi hjá ágreiningi um túlkun 2. mgr. 2. gr. frv. ef það ákvæði nær fram að ganga óbreytt í meðförum Alþingis.“

Ég taldi óhjákvæmilegt, herra forseti, að kynna þd. þessar umsagnir vegna þess að það er í raun og veru útilokað að taka afstöðu til þessa máls öðruvísi en að deildin hafi kynnt sér málin. Tíminn hefur verið lítill til að fara yfir þær, bæði hjá hv. n. og hjá hv. þd. Ég vil svo vekja athygli hæstv. forseta Nd. á því að þetta mál, Lífeyrissjóður bænda, fór til landbn. í Ed. Í Nd. fór málið hins vegar til fjh.- og viðskn., sem er auðvitað eðlilegt, en það virðist vera nauðsynlegt fyrir forseta deilda að samræma nokkuð sína afstöðu í þessu efni þegar kemur að því að fjalla um það hvaða n. fái málin til meðferðar. Hérna hefur orðið misbrestur á og ekki samræmi. Ég er ekki að gagnrýna það harðlega en ég er að benda á að æskilegt er að það sé samræmi í því hvaða þingnefnd fær mál til meðferðar. Ég tel að lífeyrissjóðamál eigi að vera gjarnan hjá fjh.- og viðskn. Þó kemur til greina að lífeyrismál fari jafnvel í heilbr.- og trn. eða félmn. Í Ed. voru menn á því að Lífeyrissjóður bænda ætti að fara í landbn. Það er svipað og Lífeyrissjóður sjómanna ætti að fara í sjútvn. og Lífeyrissjóður iðnverkafólks í iðnn. og þannig koll af kolli — og Lífeyrissjóður lögreglumanna í allshn. Ég tel slíkt fyrirkomulag með öllu óeðlilegt og eðlilegra að aðrar n. en atvinnugreinanefndirnar fjalli um lífeyrissjóði.