10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

Umræða utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég dreg þá ályktun af þeim umr. sem hér hafa orðið að ríkur skilningur sé á því hér á Alþingi Íslendinga að það er alvarlegt ástand í þjóðfélaginu. Jafnvel þótt ég taki undir það þá er engin ástæða til að vera að ala á svartsýni. Og ég vænti þess að þá sé einnig sami skilningur á því að þær annars svo harkalegu ráðstafanir sem voru gerðar á s.l. vori eru til komnar vegna aflasamdráttar og minnkandi þjóðartekna. Ef sá skilningur er orðinn á Alþingi Íslendinga að slíkar ráðstafanir, ég vil leyfa mér að segja neyðarráðstafanir, séu nauðsynlegar þegar svona stendur á þá á ég von á því að skilningurinn verði einnig sá sami almennt í þjóðfélaginu.

Ég veit það líka að skilningurinn er almennur í þjóðfélaginu og mun meiri en ég hef fundið hjá hæstv. stjórnarandstöðu. Aflasamdrátturinn var orðinn mjög mikill á s.l. vori og það var dökkt útlit. Og það hefur komið mjög berlega í ljós nú að allt sem þá var gert var rétt að gera og í reynd ekki nægilega vel á málum tekið. En því hefur verið haldið fram hér á Alþingi að það hafi allt saman verið jafnvel ónauðsynlegt. Ekki síst hefur því verið haldið fram af Alþb., enda sé ég að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur kvatt sér hljóðs og ætlar trúlega að gera þessi orð mín að umtalsefni. Gæti þá verið að ég þyrfti eitthvað að segja meira. Annars ætlaði ég fyrst og fremst að svara hér beinum spurningum sem til mín hefur verið beint. Það er umfangsmikið að fara efnislega út á öll svið sjávarútvegsmála.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði mig hvort til stæði að styrkja Hafrannsóknastofnunina með auknum fjárveitingum. Hér á Alþingi liggur fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna sem fjallar um Hafrannsóknastofnun. Það frv. er flutt til að styrkja stofnunina, stjórn hennar og skipulag. Ég tel það vera mikilvægt mál vegna þess að öllum ber saman um það, sem vinna við þá stofnun, að skipulag hennar sé ekki nægilega gott og það hefur verið tekið til endurskoðunar og flutt um það frv. hér á Alþingi. Ég vænti þess að frv, fái hér góða meðhöndlun og þá gefst þinginu tækifæri til að fjalla meir um þá stofnun og spyrja spurninga varðandi hana. Ég tel það því gott tækifæri til að taka á því máli og ræða við Hafrannsóknastofnun um það.

Hitt er svo annað mál, að auðvitað vantar alltaf fjármagn og ekki síst þar. Við höfum þó verið að reyna að auka leit eftir því sem kostur er. Í sumar var fyrir forgöngu sjútvrn. aukin rækjuleit og leit að krabba. Við höfum lagt á það áherslu undanfarið að reyna að styrkja rannsóknir varðandi kúfisk. Við veittum sérstaklega fé til aukinnar loðnuleitar. Ávallt er því verið að reyna að gera nýja hluti og líta til framtíðarinnar. Þá voru framkvæmdar verulegar kolmunnarannsóknir og veittir voru styrkir til veiða. Því miður gengu þær fremur illa á s.l. sumri, þrátt fyrir stuðning opinberra aðila. Það var vegna óvæntra atburða, en kolmunninn gekk því miður inn í lögsögu Efnahagsbandalagsins og þar höfðum við ekki aðgang.

Það hefur einnig komið hér fram að ég tali ekki skýrt í þessu máli. Ég tel mig nú hafa talað nokkuð skýrt og í þeirri ræðu sem ég flutti á aðalfundi LÍÚ á ég von á að ég hafi talað eins skýrt og frekast er kostur á þessu stigi. En það verður að muna eftir því að hér er verið að tala um mál sem snertir hvert einasta byggðarlag í landinu og hvern einasta íbúa landsins. Og það er ekki ráðlegt af mér á þessu stigi að mæla það skýrt fram hvað það er — upp á hvern einasta punkt — sem ég vil gera í stöðunni. Ég tel að hún þurfi að skýrast betur.

En ég talaði allskýrt um það hvernig ég teldi að ætti að standa að takmörkun veiða. Og ég vil að menn taki einnig eftir því að það er verið að tala um takmörkun veiða. Og hvað þýðir það þegar veiðar eru takmarkaðar á ákveðin skip? Það þýðir að viðkomandi skip hafa e.t.v. engan rekstrargrundvöll. Það koma aðilar í mitt rn. og skýra frá því að með þeim takmörkunum sem þeir séu beittir sé búið að kippa fótunum undan þeim og þeirra rekstri og dæma þá til gjaldþrots. Hér er því að sjálfsögðu við mjög alvarleg mál að etja og það er að mínu mati nauðsynlegt að hafa sem best samráð um þau við hagsmunaaðila.

Spurt hefur verið hvernig stjórnarandstaðan gæti komið inn í þessi mál. Ég er alveg sammála því að það er nauðsynlegt að hún sé sem best inni í þeim. Ég hafði hugsað mér að það gæti verið með þeim hætti að við héldum fundi með sjávarútvegsnefndum með svipuðum hætti og við gerðum tilraun til að gera í sumar við úthlutun á gengismunarfé. Þá kölluðum við saman þá aðila sem höfðu verið í sjávarútvegsnefndum. Ég tel nauðsynlegt að nefndarmenn sjútvn. eigi viðræður við fiskifræðinga. Það er fundur í fyrramálið með fiskifræðingum og hagsmunaaðilum. Ég tel sjálfsagt að halda áfram í næstu viku t. d., eftir því sem við teljum heppilegt að slíkur fundur verði, hvort sem það er fyrir forgöngu nefndanna eða fyrir forgöngu mína. Ég hafði sem sagt hugsað mér að sá háttur væri hafður á að samráð væru við sjávarútvegsnefndir þingsins því að ég er þeirrar skoðunar að það sé raunverulega besta formið, það sé mun betra form en aðeins umr. hér á Alþingi, þótt þær séu einnig nauðsynlegar. Þá þarf að kalla til sérfræðinga og ræða við þá svo að þeir þm. sem um þessi mál fjalla fyrst og fremst hér á Alþingi fái sem besta vitneskju.

Herra forseti. Ég vænti þess að ég hafi svarað þeim beinu spurningum sem til mín var beint. Ég hefði gjarnan viljað koma hér inn á ýmis efnisatriði sem hafa komið fram í þessum umr. en ekki eru tök á því nú. Ég vildi aðeins svara þeim spurningum sem komu til mín.