22.05.1984
Efri deild: 113. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6556 í B-deild Alþingistíðinda. (6135)

155. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Við lokaumr. þessa máls vil ég enn og aftur og enn þá einu sinni leggja áherslu á andstöðu mína við frv. Ég hef nú gert nokkuð góða grein fyrir mínum röksemdum fyrir minni andstöðu, en mig langar þó kannske til að leggja að lokum sérstaka áherslu á þann þátt þessa máls sem lýtur annars vegar að því hvernig skipað er á þetta þjóðþing vort og hvernig það þjóðfélag er að þróast sem við búum í.

Ég held að við getum orðið sammála um að eitt af höfuðeinkennum þess þjóðlífs sem við búum við í dag er fjölbreytnin. Það fer ekki milli mála að áhugi fólks og óskir beinast til sífellt aukinnar fjölbreytni, til þess að gefa einstaklingnum tækifæri til að njóta sín og geta hagað sínu lífi eins og honum þykir best henta hverju sinni. Stjórnmál eru í sjálfu sér engin lífsnauðsyn. Lýðræðið er í sjálfu sér engin lífsnauðsyn. Það er hægt að stjórna þjóðfélögum með margs konar öðrum hætti. Lýðræðið er kostur sem við höfum valið okkur og við höfum valið hann af því að við teljum hann bestan. Aftur á móti, ef við horfum á okkar daglega líf, snýst það að miklu leyti um lífsnauðsynjar eins og fæði og klæði og húsnæði. Á því sviði gerum við alveg ákveðna kröfu til þess að eiga kost á fjölbreyttu vali og á því að geta fullnægt að nokkru leyti okkar eigin sköpunargáfu og hugmyndaflugi. Við gerum líka kröfu til þess að val okkar á þessu sviði samræmist þeim lífsháttum sem við kjósum að búa við. Að þessu leyti tel ég stjórnarskrárfrv., sem nýlega hefur verið samþykkt, og kosningalöggjöfina, sem nú er verið að samþykkja, algera tímaskekkju vegna þess að í frv. þessum felst lögmál hörmangarans gamla þar sem viðskiptavininum, þ. e. kjósandanum, er boðið upp á mjög þrönga kosti og honum er meira að segja gert að greiða atkv. með þeim hætti að hann ræður ekki nema að mjög litlu leyti niðurstöðunum eða afleiðingunum af gerðum sínum. Þetta er sú þversögn sem ég tel vera hér á ferðinni.

Hugir fólks, að því er ég best fæ séð, hníga hægt og sígandi til þeirrar áttar að krefjast þess að eiga fleiri kosta völ en boðið er upp á í stjórnmálum nútímans. Ég vil benda mönnum á að þess sjást líka alveg greinilega merki innan stjórnmálaheimsins. Sú riðlun, sem er mjög áberandi í stjórnmálaflokkum okkar daga, á sér orsakir einmitt í þessum ástæðum. Stjórnmálamenn eru farnir að gera sér grein fyrir því, meðvitað eða ómeðvitað, að þeirra fyrri vinnubrögð eru ekki algerlega í takt við tímann og fólk gerir kröfu til þess að menn hafi sjálfstæðari skoðanir en strangar hugmyndafræðilegar breytingar bjóða upp á í dag. Menn vilja geta ráðið því hvort þeir hafa grænar baunir eða Þykkvabæjar franskar eða jafnvel skemmdar finnskar með matnum. Þeir vilja eiga þess kost að velja menn af fleiri orsökum en bara þeim hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra og þeir vilja að þeir geti sjálfir ráðið því hvaða afleiðingar atkvæði þeirra hefur. Þess vegna tel ég að í þessu frv. felist ákveðin örvæntingarfull tilraun til að njörva enn niður um tíma það ástand sem við höfum búið við flokkslega og hugmyndafræðilega og ég tel þá vísitöluaðferð, sem notuð er við það að ganga úr skugga um afleiðingar af atkvgr. kjósenda, vera óheilbrigðan hugsunarhátt og, eins og ég gerði grein fyrir í 2. umr., móðgun við kjósendur.

Svo það komi fram vegna atkvgr. sem fer fram á eftir beinist mín gagnrýni ekki nema að vissum þáttum þessa máls, þ. e. þeim þáttum sem lúta að kjördæmaskipan, fjölda þm. og þeim aðferðum sem notaðar verða til að ákveða dreifingu atkvæða á flokka og þingmenn. Frv. hefur líka nokkra kosti, eins og ákvæðin um hverjir megi eða eigi rétt á að greiða atkv. sem aðallega er að finna í fyrstu greinum frv. Af þeirri ástæðu er þetta frv. kannske ekki alvont. En samt sem áður tel ég það svo vont að þar sem gallarnir yfirskyggja kostina mun ég greiða atkv. móti frv.