22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6574 í B-deild Alþingistíðinda. (6180)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Byggðastefna hefur í langan tíma verið mjög umrædd hér á landi, ekki síst núna síðustu árin. Þess vegna verð ég að harma það og átelja mjög að skýrsla Framkvæmdastofnunar, þar sem framkvæmd byggðastefnunnar birtist á hverjum tíma, skuli ekki koma fram fyrr en síðast á þinginu, síðasta klukkutímann sem við höfum til að ræða málið, vegna þess að hér er vissulega um mjög þarft mál að ræða. Það er hægt að ræða þetta út frá þjóðhagslegum sjónarhótum, það er að ræða það út frá framkvæmdalegum sjónarhólum, byggðalegum, og síðan er hægt að ræða þetta út frá ýmsum innri málum stofnunarinnar eins og þau hafa verið til umr. á hverjum tíma. Þess vegna verð ég að segja að mér þykir það hin mesta synd að ekki skuli gefast betri tími hér í sþ. til að ræða þessi mál.

Ég mun ekki flytja um þetta langa ræðu. Við í þingflokki Bandalags jafnaðarmanna höfum sýnt þessu máli mikinn áhuga í allan vetur. Við höfum flutt um það tvær þáltill. og við höfum fjallað um það í okkar hópi. Við höfum t. d. lýst þeirri skoðun okkar það eigi að breyta hér stjórnkerfi, færa meiri völd til fólks út í héruð. Þannig gæti ég lengi talað, en ég ætla ekki að gera þessi atriði byggðastefnunnar og þessi sjálfstæðismál fólksins í landinu frekar að umræðuefni núna. Það sem mig langar til að gera að umræðuefni er eitt örlítið atriði sem ástæða er til að skoða nánar.

Stjórn þessarar stofnunar er skipuð alþm. með einni undantekningu og hefur verið skipuð alþm. alveg hingað til. Nú langar mig aðeins að skoða þetta mál hlutlægt, reyna að meta kosti þess og galla. Ef einhverjir alþm. eru hér viðstaddir, sem eru stjórnarmenn, langar mig til að biðja þá næstu 5 mínúturnar að líta á þetta mál með mér með augum alþm.

Þegar alþm. er í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins lendir hann óumflýjanlega í ýmsum hlutverkum. Hann verður í fyrsta lagi í hlutverki bankastjórans vegna þess að alþm. í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins er þátttakandi í því að dreifa fé. Hann tekur á móti umsóknum um lán eða styrki, hann verður að vega það og meta. Hann verður að meta arðsemi, hann verður að meta félagslega hluti, hann verður að meta á ýmsan hátt. Þetta er mjög hliðstætt starfi bankastjóra. Og það eru hreint ekki litlir fjármunir sem fara um hendur þessarar stjórnar. Þetta er fyrsta hlutverkið, bankastjórahlutverkið.

Annað hlutverk sem alþm. verður að rækja er náttúrlega hlutverk alþm. Hann er kjörinn á þing með atkvæðum fólks, sem býr heima í héraði, og ef í honum er einhver dugur, ætlar sér það starf til einhverrar frambúðar, verður hann að reyna að búa þannig í haginn að hann verði endurkjörinn. Hann þarf að auka orðstír sinn heima í héraði, styrkja stöðu sína á hverjum tíma gagnvart mótframbjóðendum sínum. Þetta er sem sagt staða tvö.

Staða þrjú sem alþm. gæti hugsanlega komist í væri hreinlega að vera stjórnarmaður í fyrirtæki heima í héraði sem er að sækja um peninga til Framkvæmdastofnunar. Hann gæti verið stjórnarmaður í slíku fyrirtæki eða hann gæti á annan hátt verið hagsmunaaðili heima í héraði vegna vensla eða tengsla á einhvern hátt. Og þá fer nú að fjölga stólunum hjá honum vegna þess að þá gæti hann hreinlega lent í því að verða umsækjandi til Framkvæmdastofnunar ríkisins eða aðili að umsókn til Framkvæmdastofnunar ríkisins. (Gripið fram í: Ég tala nú ekki um ef hann væri í fjvn. líka.) Svo við tölum nú ekki um það. Þetta er þriðja atriðið.

Fjórða atriðið er það að þessi sami alþm. á að hafa eftirlit með starfsemi eins og Framkvæmdastofnuninni. Þegar fyrir liggur skýrsla Framkvæmdastofnunar, þá eiga alþm. að lesa þá skýrslu. Og skýrslan ætti helst að vera komin það snemma fram á þinginu og vera til umr. það snemma að mönnum gæfist þar tími til talsverðra umr. og breytinga. En alþm. gætu lent í því að þurfa — og þeim ber skylda til að hafa eftirlit með því að þar sé farið að settum reglum.

Þarna erum við sem sagt með alþm. í fjórum hlutverkum. Hann situr við alla borðsenda. Hann er bankastjóri, hann er alþm., hann er stjórnarmaðurinn og hann er eftirlitsaðilinn. Þetta er lítið dæmi. Ég tel að seta alþm. í stjórn stofnunar eins og Framkvæmdastofnunar sé ekki eðlileg. Ég er ekki að væna neinn um misrétti. Ég er bara að benda á að þetta fyrirkomulag gerir svo miklar kröfur til mannlegs eðlis. Menn verða óumflýjanlega að gæta svo margra hagsmuna samtímis að það er ólíklegt að það takist sem skyldi. Þetta er sem sagt alþm. í mörgum hlutverkum.

Í öðru lagi langar mig aðeins að víkja að öðrum alþm., flokksbróður, sem hefði t. d. hug á að endurskoða eða gera meiri háttar athugasemdir við starfsemi stofnunarinnar. Frammi fyrir hverju stendur hann? Hann stendur frammi fyrir því að vilja kannske gagnrýna eða endurskoða eða fara ofan í saumana á gjörðum stjórnar sem flokksbróðir hans eða flokkssystir situr í. Og hvað sem líður vilja manna til faglegra vinnubragða, þá vitum við að félagsskapurinn einn og kynnin ein setja mönnum stólinn fyrir dyrnar, þannig að alþm., sem situr í stjórn slíkrar stofnunar eða félags og fyrirtækis, kemur í veg fyrir eðlilegt eftirlit flokkssystkina.

Nú vil ég taka þetta dæmi svolítið víðar. Ég er hér að tala um Framkvæmdastofnun ríkisins vegna þess að þetta tækifæri barst upp í hendurnar á okkur, en þetta á auðvitað við rekstur fyrirtækja og stofnana ríkisins yfirleitt. Nú hefur hæstv. iðnrh. unnið að því ötullega í vetur að endurskoða starfsemi ýmissa fyrirtækja sem iðnrn. er aðili að. Ég hef ekki haft tíma til að fara ofan í saumana á því hverjir sitja í stjórnum þeirra fyrirtækja sem iðnrn. er aðili að, en það kæmi mér hreint ekki á óvart þó að hæstv. iðnrh. rækist á, þegar hann færi að skoða stjórnarlista fyrirtækjanna, ýmsa af sínum undirmönnum þar, ýmsa ráðuneytismennina, vegna þess að sá hefur verið skikkurinn undanfarin ár að menn úr ráðuneytum hafa tekið sæti í stjórnum ýmissa fyrirtækja eða stofnana sem eru reknar á vegum ríkisins eða ríkið á aðild að. Nú veit ég að iðnrh. gengur hart eftir hlutum, en það er einungis mannlegt að seta starfsfélaga hans í rn. í stjórnun fyrirtækja verði honum fjötur um fót við endurskoðun á starfsemi þessara sömu fyrirtækja.

Við getum tekið annað dæmi úr þessu rn. Samflokksmaður hæstv. ráðh. er formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins. Nú hefur staðið yfir gagnger endurskoðun á því fyrirtæki í vetur. Ég held að það hljóti oft að hafa verið mjög erfitt í sambandi við framkvæmd þeirrar endurskoðunar að svo skyldi í pottinn vera búið að ráðh., sem er að endurskoða, vill breyta og bæta, stendur frammi fyrir því að dyggasti varðmaður kerfisins, sem hann ætlar að fara að skoða, er kannske sessunautur hans á þingflokksfundum.

Herra forseti. Ég hef notað þetta tækifæri til að beina athygli að máli sem að mínu mati nær langt út fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins. Tilefni gafst mér vegna þessarar skýrslu, en ég harma að skýrslan skyldi ekki vera á dagskrá fyrr á þinginu þannig að þm. gæfist betri tími til að láta fara fram hér í eina skiptið á vetrinum umr. um byggðastefnu, sem eru stórmál í íslenskri pólitík, en hafa ekkert verið rædd á þessu þingi. Ég hef lokið máli mínu.